Glæpasögur mega vera bleikar

Bókaland | 30. júní 2024

Glæpasögur mega vera bleikar

Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, gaf út sína fyrstu skáldsögu, Dauðaþögn, í vikunni. Glæpasagan fjallar um ofbeldi, þöggun og blekkingar. 

Glæpasögur mega vera bleikar

Bókaland | 30. júní 2024

Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, var að gefa út …
Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, var að gefa út sína fyrstu skáldsögu sem heitir Dauðaþögn. mbl.is/Eyþór

Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, gaf út sína fyrstu skáldsögu, Dauðaþögn, í vikunni. Glæpasagan fjallar um ofbeldi, þöggun og blekkingar. 

Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, gaf út sína fyrstu skáldsögu, Dauðaþögn, í vikunni. Glæpasagan fjallar um ofbeldi, þöggun og blekkingar. 

„Ég man varla eftir mér öðruvísi en með stílabók og blýant í hendi að skrifa texta eða semja ljóð,“ segir Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður og rithöfundur, en á fimmtudaginn kom út hjá Sölku glæpasagan Dauðaþögn, sem er fyrsta skáldsaga hennar. Blaðamaður settist niður með Önnu Rún og ræddi við hana um tilurð bókarinnar, sköpunarferlið og næstu skref. Segist Anna Rún alltaf hafa vitað innst inni að hún myndi láta drauminn rætast, þ.e. að skrifa skáldsögu.

„Áhuginn hefur alltaf legið í skrifum. Ég byrjaði að vinna sem blaðamaður í hlutastarfi aðeins 14 ára gömul og tók þá mín fyrstu viðtöl. Íslenska var líka uppáhaldsfagið mitt í skóla og ég var svo heppin að vera með frábæra íslenskukennara sem eiginlega urðu til þess að ég ákvað að fara í íslenskunám í háskólanum. Innan íslenskunnar leitaði ég síðan mikið í bókmenntirnar og valdi mér ósjálfrátt þar barnabókmenntir og spennubókmenntir,“ segir hún.

Hættulega nálægt sannleikanum

Um hvað fjallar Dauðaþögn?

„Þetta er fyrst og fremst saga um ofbeldi, þöggun og blekkingar. Ung kona finnst myrt á heimili sínu og voðaverkið virðist koma öllum að óvörum þar sem hin látna var vel liðin alls staðar og hvers manns hugljúfi. Morðmál þessarar ungu konu dettur síðan óvænt inn á borð aðalpersónunnar Hrefnu sem hefur starfað á lögmannsstofunni Skildi frá útskrift en þar sinnir hún aðallega þinglýsingum, skilnaðarpappírum og annarri skriffinnsku. Fljótt fara þræðir málsins að teygja sig í ófyrirséðar áttir og Hrefna þarf að leggja allt í sölurnar til að fóta sig í nýju hlutverki. Áður en hún veit af er hún djúpt sokkin í málið og komin það nálægt sannleikanum að hún þarf sjálf að fara að vara sig,“ útskýrir Anna Rún.

Áhugi Önnu Rúnar hefur alltaf legið í glæpasagnaforminu og segist hún lesa nánast allar íslenskar glæpasögur sem koma út.

„Þegar ég var lítil þá las ég oft upp fyrir mig. Ég fór snemma að lesa Agöthu Christie og bækur sem þóttu kannski ekki endilega fyrir börn og unglinga. Þessi heimur heillaði mig strax, þ.e. að maður væri sjálfur að reyna að leysa einhverja ráðgátu meðan á lestrinum stæði. Mér fannst þetta svo spennandi form og velti því fyrir mér hvort ég gæti búið til sögu þar sem fléttan væri þannig að fólk væri allan tímann að reyna að leysa glæpinn. Hugmyndin að söguþræðinum kom svo til mín fyrir þremur árum í covid og lét mig ekki vera. Ég þurfti einfaldlega að koma þessari sögu frá mér. Ég skrifaði fyrst beinagrind, setti svo reglulega kjöt á beinin og allt í einu var þetta orðið að bók,“ segir Anna Rún. Bætir hún því við að þótt uppleggið sé krimmi reyni hún líka að hafa söguþráðinn léttan og lifandi með heillandi og skemmtilegum lýsingum.

Snýst um hugrekki

Í Dauðaþögn fær morðinginn rödd en það heillaði Önnu Rún að leyfa lesendum að sjá sjónarhorn morðingjans þar sem það er ekki endilega vaninn í glæpasögum.

„Lesandinn fer þar af leiðandi að pæla meira í því hver morðinginn sé og hvað honum gangi eiginlega til,“ segir Anna Rún og heldur áfram: „Ég flakka líka fram og til baka í tíma, þ.e. í nútímann og svo til baka þegar sú myrta er á lífi.“

Hvaða þema má finna í bókinni?

„Sagan tekur í rauninni á því hvernig fullorðið fólk getur oft verið að burðast með einhver áföll úr æsku án þess að gera sér endilega grein fyrir því eða vera tilbúið að takast á við þau. Sagan snýst því svolítið um hugrekki. Hugrekki til að stíga fram, þora að leita sér aðstoðar og skilja betur hvaðan maður kemur og af hverju maður er eins og maður er.“

Anna Rún er með nóg á sinni könnu. Hún er í fullu starfi sem blaðamaður og er þriggja barna móðir með stórt heimili, en hún lætur það ekki stoppa sig. Spurð hvernig henni hafi tekist að skrifa skáldsögu samhliða öllu segir hún: „Ég er með svo gott bakland að ég gat gefið mér tíma í að elta þennan draum. Ég skrifaði frá því ég fór í vinnuna á morgnana og eftir vinnu þar til ég fór að sofa. Ef maður brennur fyrir einhverju þá þarf maður bara að leggja á sig þessa aukavinnu og finna tíma.“

Ást við fyrstu sýn

Af hverju varð heitið Dauðaþögn fyrir valinu?

„Titillinn segir mikið til um innihaldið, það er framið morð en hún tekur líka á þöggun svo Dauðaþögn á ótrúlega vel við. Þegar þú sérð bókina og titilinn þá veistu líka strax að þetta er glæpasaga.“ Bókakápan er bleik með myrkum skýjum en hana hannaði Bylgja Rún Svansdóttir. Anna Rún segir það hafa verið ást við fyrstu sín þegar hún sá kápuna.

„Mér finnst eitthvað skemmtilegt við það að kápan poppi út og sé pínu gelluleg þótt hún sé krimmi fyrir öll kyn. Glæpasögur mega vera bleikar á litinn, þær þurfa ekki allar að vera svartar,“ segir hún og bætir við að hún sé einstaklega þakklát þeim Önnu Leu og Dögg hjá Sölku fyrir traustið og öll þeirra góðu ráð. „Þær eru alveg frábærar báðar tvær og ég hef notið þess í botn að fara í gegnum þetta útgáfuferli með þeim.“

Spurð hvort búast megi við annarri bók segir hún svo vera.

„Það var einu sinni auglýsingaslagorð sem sagði: „Einu sinni smakkað, þú getur ekki hætt,“ og er það ekki bara þannig? Ég er hvergi nærri hætt, ef maður þráir eitthvað heitt þá gefst maður ekki upp. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég er með fullt af hugmyndum í kollinum sem láta mig ekki í friði og er nú þegar byrjuð að skrifa næstu bók. Ég vona bara innilega að íslenskir glæpasagnaunnendur séu tilbúnir að fagna glænýrri rödd.“

mbl.is