Samkvæmt útgönguspá þá er Verkamannaflokkurinn að vinna stórsigur í bresku þingkosningunum sem haldnar voru í dag. Íhaldsflokkurinn geldur algjört afhroð.
Samkvæmt útgönguspá þá er Verkamannaflokkurinn að vinna stórsigur í bresku þingkosningunum sem haldnar voru í dag. Íhaldsflokkurinn geldur algjört afhroð.
Samkvæmt útgönguspá þá er Verkamannaflokkurinn að vinna stórsigur í bresku þingkosningunum sem haldnar voru í dag. Íhaldsflokkurinn geldur algjört afhroð.
Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá.
Verkamannaflokknum er spáð 410 sætum og bætir við sig 209 þingsætum. Þetta er þó ekki stærri sigur en árið 1997 þegar flokkurinn, undir forystu Tony Blair, vann sinn stærsta sigur.
Íhaldsflokknum var spáð 131 þingsæti og tapar því 241 þingsæti. Fyrir kosningarnar höfðu kannanir bent til þess að flokkurinn myndi aðeins fá um 100 þingsæti og útgönguspáin bendir til þess að það standist.
Þetta yrði verri niðurstaða fyrir Íhaldsflokkinn heldur en árið 1997 þegar flokkurinn fékk sögulega fá þingsæti, eða 165.
Frjálslyndir demókratar fá samkvæmt útgönguspánni 61 þingsæti og bæta við sig 53 þingsætum. Þá fær Umbótaflokkur Nigel Farage 13 þingsæti.
Skoski þjóðarflokkurinn fær aðeins tíu þingsæti og tapar 38 þingsætum, miðað við útgönguspána. Velski þjóðarflokkurinn Plaid Cymru fengi fjögur þingsæti og græningjar tvö þingsæti.
Kjörstaðir lokuðu í Bretlandi klukkan 21 að íslenskum tíma og eins og hefð er fyrir þá birtist útgönguspá strax í kjölfarið. Að þessu sinni var útgönguspáin unnin af könnunarfyrirtækinu Ipsos, sem er í samvinnu við BBC, ITV News og Sky News.
Útgönguspár eru nokkuð nákvæmar og eiga að gefa mjög góða mynd af því hver lokaniðurstaðan verður.
Kosnir eru 650 manns á þing í jafn mörgum kjördæmum. Flokkar þurfa því að minnsta kosti 326 þingsæti til að mynda meirihlutastjórn.