Fyrr á árinu lagði Sindri Sigurðarson af stað í mikla ævintýraferð. Hann ferðaðist einsamall til Afríku þar sem hann sinnti sjálfboðastarfi á leikskóla á miklu fátækrasvæði. Sindri, sem fagnar tvítugsafmæli sínu í sumar, segir ferðina hafa breytt lífsviðhorfi sínu enda upplifði hann aðstæður, gjörólíkar þeim sem hann ólst upp við.
Fyrr á árinu lagði Sindri Sigurðarson af stað í mikla ævintýraferð. Hann ferðaðist einsamall til Afríku þar sem hann sinnti sjálfboðastarfi á leikskóla á miklu fátækrasvæði. Sindri, sem fagnar tvítugsafmæli sínu í sumar, segir ferðina hafa breytt lífsviðhorfi sínu enda upplifði hann aðstæður, gjörólíkar þeim sem hann ólst upp við.
Fyrr á árinu lagði Sindri Sigurðarson af stað í mikla ævintýraferð. Hann ferðaðist einsamall til Afríku þar sem hann sinnti sjálfboðastarfi á leikskóla á miklu fátækrasvæði. Sindri, sem fagnar tvítugsafmæli sínu í sumar, segir ferðina hafa breytt lífsviðhorfi sínu enda upplifði hann aðstæður, gjörólíkar þeim sem hann ólst upp við.
Sindri deildi ferðasögu sinni með blaðamanni mbl.is.
„Ég ákvað með stuttum fyrirvara að taka stökkið og halda af stað. Mér fannst þetta alltaf mjög áhugavert og hafði þetta alltaf á bak við eyrað en vissi ekki hvert ég ætti að fara. Skömmu eftir jólin kíkti ég á vefsíðu Kilroy, sem er ferðaskrifstofa fyrir ungt fólk, og skoðaði möguleikana sem voru í boði. Á síðunni rakst ég á auglýsingu um sjálfboðastarf og „surf“ í Suður-Afríku og fannst það mjög spennandi. Ég fór í viðtal hjá Kilroy og sagðist vilja halda af stað sem fyrst. Ferðin var bókuð á staðnum og brottför var þremur vikum síðar. Ég flaug til Höfðaborgar í Suður-Afríku,“ segir Sindri.
Hvað var til þess að þú ákvaðst að halda út í þetta stóra og mikla ævintýri?
„Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að ferðast og þar sem ég var útskrifaður úr menntaskóla vildi ég bara kýla á þetta. Fyrir mér var þetta ekkert stórmál, ég var ekkert smeykur, bara spenntur og stór ástæða þess var að ég var nýkominn heim frá lýðháskóla í Danmörku, sem var ótrúlega skemmtilega reynsla, en þangað fór ég einn og þekkti engan í byrjun.
Ég var líka duglegur að ferðast þegar ég var yngri. 11 ára gamall fór ég í sumarbúðir í Belgíu í heilan mánuð og tveimur árum síðar heimsótti ég Hamborg í Þýskalandi. Ég á margar góðar ferðaminningar og var því meira en til í nýtt og spennandi ævintýri.
Móðir mín, Ásdís Ásgeirsdóttir, hefur einnig verið iðin við að ferðast í gegnum tíðina og deilt með mér fjölmörgum ferðasögum. Þær veittu mér mikinn innblástur og vil ég geta sagt börnunum mínum sams konar sögur í framtíðinni.“
Hefur þig alltaf langað að heimsækja Afríku?
„Já, en það var samt enginn langþráður draumur. Afríka varð óvænt fyrir valinu. Ég hefði alveg eins getað farið á aðrar slóðir, Suður-Ameríku, Eyjaálfu eða Asíu, en ég á það eftir. Það er því til mikils að hlakka. Um leið og maður byrjar að ferðast þá er frekar erfitt að hætta. Mig langar að skoða allt og upplifa heiminn.
Fyrir fjórum árum var ég á leið til Kenýa ásamt móður minni og bróður en eins og allir vita þá skall á heimsfaraldur og ferðinni var því aflýst.“
Hvaða væntingar hafðir þú áður en þú lagðir af stað?
„Það var ekki tími fyrir neinar væntingar, þetta skall bara á, á nánast núll einni. Ég renndi algjörlega blint í sjóinn en hugarfar mitt var jákvætt.“
Varstu fljótur að aðlagast nýjum aðstæðum?
„Já, ég myndi segja það. Við vorum um það bil 35 sjálfboðaliðar, allir á aldursbilinu 18-30 ára. Það var tekið mjög vel á móti nýliðum og varð maður hluti af hópnum nánast um leið. Allir sem voru þarna voru alveg hreint út sagt dásamlegir. Ég eignaðist góða vini á stundinni.“
Hefur dvölin í Afríku breytt heims- og eða lífsviðhorfi þínu?
„Já, alveg gríðarlega. Þarna sá ég í fyrsta sinn alvöru fátækt. Ég vann á leikskóla í miklu fátækrahverfi í Dunoon. Það er svart hverfi. Þrátt fyrir að aðskilnaðarstefna Suður-Afríku hafi endað árið 1994 eru afleiðingar hennar mjög áberandi öllum þessum árum síðar. Fólk býr í húsum úr málmplötum og eru oft fjölmargir sem deila nokkrum fermetrum. Það er varla hægt að kalla þetta hús og minnir hverfið helst á ruslahaug þar sem rusl flæðir eftir götunum.
Leikskólastjórinn, kona að nafni Patricia, sagði mér heilmikið frá hverfinu og starfi hennar. Hún var blíð kona og minnti mig mikið á ömmu mína. Hennar lífsverk er að sinna börnunum á svæðinu, fæða þau og halda þeim frá götunum, en margir foreldrar þarna úti hafa ekki efni á að senda börnin sín í leikskóla og er því algengt að sjá börn á götunum. Í þessum hverfum tíðkast mikið ofbeldi, drykkja og eiturlyfjaneysla. Þetta er raunveruleikinn og eins erfiður og hann er þá er engin auðveld lausn á þessum vanda.
Ég sá þarna úti hversu gott ég hef það heima á Íslandi og hversu óréttlátt það er að þau þurfi að lifa við þessar aðstæður. Maður fær sektarkennd yfir því hversu heppin maður er. Fólkið þarna er fast í hlekkjum fátæktar og með takmörkuð tækifæri.“
Hvaða staði heimsóttir þú?
„Ég heimsótti Suður-Afríku, Namibíu, Botswana, Zimbabwe og Zamibíu.“
Lýstu ferðinni?
„Þessi ferð var ótrúlega skemmtileg og gefandi. Ég lærði svo mikið um þennan menningarheim og einnig um sjálfan mig. Fólkið sem ég kynntist var allt dásamlegt.
Allir sjálfboðaliðarnir bjuggu á sama svæðinu og það var mikil stemning að búa í svona litlu samfélagi. Um helgar var farið út á lífið og dansað út í eitt. Það var mikið skoðað en suma daga var bara legið við sundlaugarbakkann og slakað á. Ég fór fjóra daga vikunnar í leikskólann og eyddi tíma með börnunum. Ég fékk líka tækifæri til að læra að „surf-a“, það var geggjað.“
Eftir tvo mánuði þá langaði mig að skoða nærliggjandi lönd og lagði ég því af stað í þriggja vikna rútuferðalag. Í þeirri ferð upplifði ég ótrúlega náttúrufegurð. Í Namibíu sá ég Fish River Canyon, sem er stærsta gljúfur í Afríku og það næststærsta í heimi á eftir Grand Canyon í Bandaríkjunum. Svo heimsótti ég Rauðu Eyðimörkina og Ethosa-þjóðgarðinn, en þar sá ég fjöldann allan af afrískum dýrum, þar á meðal voru ljón, fílar, blettatígrar, gíraffar, sebrahestar, antelópur og fugla.
Ég fór einnig í safaríferð í Botswana og sá þar fleiri dýrategundir, flóðhesta, villta afríska hunda, bavíana og sjakala. En það sem stóð upp úr í Botswana var græna landslagið og fílafjöldinn, þeir voru á hverju horni. Ég sá örugglega um og yfir 100 fíla. Á síðasta deginum í Botswana sá ég fílahjörð, það var mögnuð sjón. Ég endaði síðan í Zimbabwe þar sem ég heimsótti hina heimsfrægu Viktoríufossa.
Það er ótrúlegt að hugsa til baka nú þegar ég er kominn heim, reynslunni ríkari. Ég mun hundrað prósent snúa aftur til Afríku einn daginn.“
Hvernig var að upplifa gjörólíka menningu?
„Það var mjög skrýtið en skemmtilegt. Leiðsögumaðurinn minn í Zimbabwe, Dings, sagði mér ýmislegt um menninguna þar í landi en sjálfur ólst hann upp í litlu hverfi í Zimbabwe. Hann sagði mér ýmislegt um fjölkvæni, að algent væri að karlar ættu fleiri en eina konu og eignuðust börn með hverri þeirra. Þær myndu svo í sameiningu ala börnin upp. Hann sagði mér líka frá ömmu sinni en hún var nornalæknir og eru þeir víst rosalega máttugir. Fólk borgar þeim meðal annars fyrir að leggja drápsálög á óvini sína. Nornalæknar brugga einnig ýmis seyði, t.d. ástar- og styrkseyði og sinna einnig hefðbundnum lækningum. Ég fékk sömuleiðis að heyra að ef þú ert með hausverk þá er besta ráðið að finna fílaskít, vefja honum í klæði, kreista úr honum allan vökva og drekka hann. Að sögn Dings þá er þetta víst töfralausn en ég verð að viðurkenna að ég myndi frekar vera með hausverkinn.“
Hvað kom þér mest á óvart?
„Stærðin, fegurðin og fátæktin kom mér hvað mest á óvart. Það er líka mikið orkuvandamál í Suður-Afríku og eru þeir með kerfi sem kallast „loadshedding“. Það virkar þannig að þá slokknar á öllu rafmagni í nokkra klukkutíma, einu sinni til tvisvar á dag. Það gerist þó ekki á hverjum degi. Þetta gat verið frekar pirrandi, sérstaklega þegar maður ætlaði að spæla sér egg eða kíkja á internetið.“
Hvernig var maturinn?
„Maturinn sem ég fékk í Höfðaborg var bara nokkuð líkur matnum okkar hér heima. Höfðaborg er mjög evrópsk borg og var maturinn það líka. Maturinn sem ég fékk á ferðalagi mínu um hin löndin var hins vega allt annar. Þar var einn leiðsögumaður sem sá um að elda. Sá var frá Suður-Afríku og eldaði ýmsa afríska rétti sem voru mjög góðir. Mikið af því sem hann eldaði voru kjötkássur með papp, en það er maísstappa. Þennan mat borðar maður úr höndunum og fannst mér það eiginlega betra en að nota hnífapör. Svo smakkaði ég krókódíla-takkó í Zimbabwe og ýmsar tegundir af antílópum eins og Eland, Oryx, Springbok og Kudu. Þetta fannst mér allt mjög gott.“
Hvað stendur upp úr?
„Allt! Vinirnir, allt sem ég sá og lærði og þessi nýfundna ást og umhyggja fyrir náttúrunni.“