Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, ólst upp á Vopnafirði. Hann fer reglulega heim til Vopnafjarðar og reynir að veiða fyrir austan á hverju hausti
Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, ólst upp á Vopnafirði. Hann fer reglulega heim til Vopnafjarðar og reynir að veiða fyrir austan á hverju hausti
Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, ólst upp á Vopnafirði. Hann fer reglulega heim til Vopnafjarðar og reynir að veiða fyrir austan á hverju hausti
Hvernig var að alast upp á Vopnafirði?
„Það var í raun alveg dásamlegt, sérstaklega sem barn. Maður hafði ótrúlega mikið frelsi til að vera úti í náttúrunni að klifra uppi á klettum og hæðum allan ársins hring. Svo ekki sé minnst á að samfélagið var, og er, öruggt og gott. Ég man að ég hugsaði þegar ég kom til Reykjavíkur hvað það hlyti að vera leiðinlegt að hafa ekki náttúru í bakgarðinum og sama frelsi og ég bjó við.“
Ferðu reglulega á Vopnafjörð og hvað gerir þú þá?
„Já, við fjölskyldan förum yfirleitt tvisvar til þrisvar á ári. Við reynum aðallega að hlaða batteríin vel og leyfa strákunum okkar að njóta þess að vera í kringum fjölskylduna mína sem þeir hitta ekki mjög oft. Þar fyrir utan er heimsókn í Sundlaugina í Selárdal, heimsókn á Bustarfell og útivist fastir liðir. Við höfum líka komið og veitt í Hofsá á haustin og að auki hef ég sjálfur reynt að komast austur í veiði á hverju ári.“
Hvernig horfir þú á heimahagana sem fullorðinn maður?
„Mjög hlýlega. Stundum freistar það að selja íbúðina í bænum og kaupa stærra húsnæði fyrir miklu, miklu minni pening og finna svo einhvern veginn út úr því hvernig maður myndi sinna sínum störfum. Alvaran hefur ekki verið mikil í slíkum pælingum, en margt ætti að vera hægt með nútímatækni.“
Sérðu heimahagana á annan hátt sem fullorðinn maður en til dæmis sem unglingur?
„Það hefur í sjálfu sér ekki mikið breyst. Maður hefur kannski orðið raunsærri með tímanum á tækifæri og takmarkanir Vopnafjarðar, þegar ég var yngri hafði maður stórar hugmyndir um að þarna gæti þrifist miklu stærra samfélag með nýjum atvinnugreinum. Ég vil alls ekki útiloka slíkt en ég held að styrkur Vopnafjarðar sé að hluta til falinn í smæðinni.“
Hvernig er hinn fullkomni dagur í Vopnafirði og nágrenni?
„Ef við gefum okkur að hinn fullkomni dagur sé einmitt það, fullkominn, en ekki endilega raunsær, þá gæti hann litið sirka svona út: Hann byrjar á veiði, til dæmis í Hofsá, hvort sem er á lax- eða silungasvæði þar sem er fín veiði og 25 stiga hiti og sól. Eftir veiðina er hádegismatur á Uss í Kaupvangi. Til að nýta veðurblíðuna sem best er farið næst í Skjólfjörur, sem bera nafn með rentu, og í kaffitímanum er farið upp í Bustarfell. Þar er gamli bærinn skoðaður og síðan er kaka og kaffi á Hjáleigunni. Þar næst er tími kominn á sund í Selárdal. Til að kóróna daginn er keyrt upp í Fjalladýrð í Möðrudal. Þar tekur við hreindýrasteik á meðan dáðst er að Herðubreið, einn Irish coffee og svo fullkominn svefn í fjallaloftinu.“
Hvert fórst þú í útilegur sem barn?
„Ég fór ekki mjög mikið í útilegur sem barn en þó voru veiðiferðir í vötn í Dölunum og á Skaga nokkuð fastur punktur í tilverunni hjá föðurfjölskyldunni.“
Hefur þú farið í skemmtilegar göngur í landshlutanum?
„Ekki mikið fyrir utan mínar heimaslóðir. Það dugar í sjálfu sér enda óteljandi gönguleiðir í Vopnafirði og nágrenni.“
Áttu uppáhaldsstaði á Austurlandi?
„Efsta veiðisvæðið í Hofsá, sem er á Fossdal inn af Hofsárdal, er á toppnum og verður alltaf á toppnum. Ekki bara á Austurlandi heldur sennilega í öllum heiminum. Þarna á ég margar stórkostlegar minningar bæði í veiði en ekki síður í leiðsögn. Fyrir utan að þetta er frábært og krefjandi veiðisvæði þá er náttúran gullfalleg, leiðin þangað ævintýraleg og einangrunin algjör.“
Ertu búinn að skipuleggja sumarfríið?
„Já, móðurfjölskyldan mín er að fara saman til Tenerife í tilefni af sextugsafmæli. Síðan er stefnan að sjálfsögðu sett austur í lok júní og aftur í veiði í haust. Síðan ætlum við að spila þetta svolítið eftir eyranu og fara í útilegur.“