Efasemda gætir í innsta hring forsetans

Joe Biden Bandaríkjaforseti | 11. júlí 2024

Efasemda gætir í innsta hring forsetans

Nokkrir ráðgjafar Joes Bidens Bandaríkjaforseta ræða nú sín á milli um hvernig hægt sé að fá hann til að stíga til hliðar fyrir komandi kosningar, að sögn fjölmiðla vestanhafs. Hvíta húsið þvertekur fyrir frásagnirnar.

Efasemda gætir í innsta hring forsetans

Joe Biden Bandaríkjaforseti | 11. júlí 2024

Biden hefur átt á brattan að sækja í kosningabaráttunni.
Biden hefur átt á brattan að sækja í kosningabaráttunni. AFP

Nokkrir ráðgjafar Joes Bidens Bandaríkjaforseta ræða nú sín á milli um hvernig hægt sé að fá hann til að stíga til hliðar fyrir komandi kosningar, að sögn fjölmiðla vestanhafs. Hvíta húsið þvertekur fyrir frásagnirnar.

Nokkrir ráðgjafar Joes Bidens Bandaríkjaforseta ræða nú sín á milli um hvernig hægt sé að fá hann til að stíga til hliðar fyrir komandi kosningar, að sögn fjölmiðla vestanhafs. Hvíta húsið þvertekur fyrir frásagnirnar.

Frá þessu greinir dagblaðið New York Times og segir að sífellt fleiri aðstoðarmenn og ráðgjafar Bidens, bæði úr kosningateymi hans og Hvíta húsinu, telji að forsetinn þurfi að víkja úr kosningabaráttunni.

Biden hefur átt á brattann að sækja í kosningabaráttu sinni, einkum eftir brösuglega frammistöðu í kappræðum í lok júní.

Fjöldi samflokksmanna hans úr Demókrataflokknum hefur lýst áhyggjum af heilsu hans og aldri. Nokkrir þingmenn hafa hvatt hann til að draga framboð sitt til baka, m.a. einn öldungadeildarþingmaður. 

Þurfa að sannfæra hann um margt

Nokkrir ráðgjafa hans hafa undanfarna daga leitað leiða til að sannfæra hann um nauðsyn þess að gera það sama, að sögn þriggja heimildarmanna blaðsins.

Lítill hópur ráðgjafa Bidens – að minnsta kosti tveir þeirra hafa sagt bandamönnum sínum að þeir telji að hann eigi ekki að reyna að bjóða sig fram til annars kjörtímabils – hefur sagt að þeir þurfi að sannfæra forsetann um ýmislegt.

Ráðgjafarnir segjast þurfa að koma því á framfæri við forsetann að hann geti ekki unnið gegn Donald J. Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, að sögn heimildarmannanna.

Þeir verði að sannfæra hann um að annar frambjóðandi eins og Kamala Harris varaforseti geti sigrað Trump í hans stað.

Auk þess verði þeir að fullvissa Biden um það að ef hann stígi til hliðar yrði ferlið við að velja annan frambjóðanda skipulagt og leiði ekki til glundroða í Demókrataflokknum.

Hvíta húsið þvertekur fyrir frásagnirnar.

„Það er alveg ótvírætt að þetta er ekki rétt,“ hefur dagblaðið eftir Andrew Bates, talsmanni Hvíta hússins. „Teymi Bidens forseta stendur þétt við bakið á honum.“

mbl.is