Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir það hafa verið auðvelda ákvörðun að flytja frá Reykjavík til Egilsstaða fyrir nokkrum árum. Fyrir utan þá staðreynd að ástin dró hann austur sá hann fram á betra veður, en Austurland er þekkt fyrir háar hitatölur á sumrin.
Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir það hafa verið auðvelda ákvörðun að flytja frá Reykjavík til Egilsstaða fyrir nokkrum árum. Fyrir utan þá staðreynd að ástin dró hann austur sá hann fram á betra veður, en Austurland er þekkt fyrir háar hitatölur á sumrin.
Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir það hafa verið auðvelda ákvörðun að flytja frá Reykjavík til Egilsstaða fyrir nokkrum árum. Fyrir utan þá staðreynd að ástin dró hann austur sá hann fram á betra veður, en Austurland er þekkt fyrir háar hitatölur á sumrin.
Sigfinnur hefur starfað í ferðaþjónustu frá 19 ára aldri. „Ég er fæddur og uppalinn á Höfn í Hornafirði. Ég byrjaði sem þjónn á Hótel Höfn og svo vatt þetta upp á sig, ég gegndi þar eiginlega öllum stöðum fyrir utan hótelstjóra,“ segir Sigfinnur sem starfaði einnig hjá Eldingu við hvalaskoðun í Reykjavík áður en hann flutti austur.
Hefur þú alltaf verið með duglegur að ferðast?
„Mamma var mjög dugleg að fara með okkur á skíði. Hún keyrði með okkur alla leið á Seyðisfjörð, hún er þaðan. Við vorum þar flestar helgar og alla páska. Ég var líka alltaf virkur krakki,“ segir Sigfinnur sem er með ævintýraþrána í blóðinu.
Sigfinnur býr með Guðlaugu Margréti Jóhannsdóttir og dætrum þeirra tveimur á Egilsstöðum. „Við kynntumst í ferðamálafræði. Eftir námið réð hún sig til Vök Baths sem var að opna,“ segir Sigfinnur um ástæðu flutninganna.
Hvernig var að flytja?
„Það var ótrúlega fínt. Gulrótin sem dró mann, fyrir utan ástina, var að það var búið að lofa manni ótrúlega góðu veðri hérna. Sumrin á Austurlandi virðast alltaf vera þau hlýjustu þegar maður er ekki hérna. Maður kíkir á kortið og þá er alltaf sól og blíða á Egilsstöðum,“ segir Sigfinnur sem varð ekki fyrir vonbrigðum með veðrið.
Hvernig er hversdagslífið?
„Mér finnst það ótrúlega gott, sérstaklega þetta með tímasparnaðinn. Að geta labbað eða hjólað nánast hvert sem er. Það er líka stutt að fara yfir í aðra bæi. Frá Egilsstöðum ertu innan við klukkutíma niður í alla byggðarkjarna Austurlands fyrir utan Vopnafjörð sem er aðeins lengra. Það er svo skemmtilegt hvað samfélagið er breytilegt eftir því sem þú ferðast á milli bæja, allir bæir eiga sín sérkenni, sérstaklega niður á fjörðum þar sem eru gömul sjávarþorp.“
Er þetta líkt því sem þú ólst upp við?
„Hornafjörður er svo einangraður, vissulega með Djúpavog í klukkutíma austur en svo ertu með Kirkjubæjarklaustur sem er næsti bær í áttina að Reykjavík. Maður var ekki að fara á milli staða. Maður var á Höfn og fór svo til Reykjavíkur ef það þurfti aukaþjónustu.“
Hvernig er hinn fullkomni dagur á Egilsstöðum?
„Í fyrsta lagi vaknar þú í 20 stiga hita í sól og blíðu á tjaldsvæðinu í Atlavík í Hallormsstaðaskógi. Þá er hægt að fara yfir á Skriðuklaustur og á Klausturkaffi á kaffihlaðborð. Svo getur þú keyrt inn Fljótsdalinn og kíkt á Óbyggðasetrið. Þar er ótrúlega skemmtileg sýning um hvernig Íslendingar bjuggu. Hengifoss er í nágrenninu en hann er ótrúlega fallegur foss og er mikil uppbygging búin að eiga sér stað. Þetta er ekki erfið ganga en brött á köflum, það er bara hægt að taka tíma og njóta. Svo myndi ég stinga upp á því að fara í hreindýragarðinn á Vínlandi. Þar eru Garpur og Mosi sem fundust sem kálfar uppi á fjalli fyrir tveimur, þremur árum þegar þeir urðu viðskila við móður sína. Þeir voru settir í athvarf og búa nú á Vínlandi. Gestir geta gefið þeim að borða eða drekka og geta gestir komist þarna í nálægð við hreindýrin en þau eru sérstaða Austurlands.
Við erum með fullt af frábærum veitingastöðum á Egilsstöðum eins og Nielsen sem kokkurinn Kári rekur. Hann er sömuleiðis búinn að taka yfir Salt þar sem er meiri bistro-stemning. Svo lokar þú kvöldinu í Vök þar sem þú tekur inn kvöldsólina.“
Áttu uppáhaldsnáttúruperlu á svæðinu?
„Já, nokkrar. Hafnarhólmi á Borgarfirði eystri. Ég held að það sé án vafa besti staðurinn á Íslandi til að komast í snertingu við lunda. Það er búið að byggja göngustíg í gegnum varpið þeirra. Þeir eru bara nokkrum metrum frá þér. Stapavík sömuleiðis á leiðinni frá Héraðsflóa er ótrúlega skemmtileg gönguleið. Hún er stutt, ég held að hún sé fimm kílómetrar aðra leið, ágætis dagsganga. Ekki beint rosalega erfið. Svo getur maður ekki sleppt því að minnast á Stuðlagil. Svo er Hólmanes mitt á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Þetta er fólkvangur sem er gaman að ganga um með miklu fuglalífi.“
Sigfinnur segir Atlavík langvinsælasta tjaldsvæðið í landshlutanum. Hann bendir þó einnig á tjaldsvæðið í Fossárdal í Berufirði sem hann segir fallegt. Tjaldsvæðin í bæjunum eru einnig mjög góð að sögn Sigfinns. „Ég mæli hiklaust með að fólk prófi eitthvað nýtt, ef það hefur tjaldað í Atlavík þá mæli ég með að það prófi að tjalda í Norðfirði. Það er virkilega fallegt þar, Gerpissvæðið er til dæmis mjög fallegt svæði.“
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Ég er hlaupari þannig að þetta snýst allt um hlaup. Hér fyrir austan erum við svo heppin að við erum með tvö góð utanvegarhlaup. Við erum með Dyrfjallahlaupið sem er á Borgarfirði eystri, það hefur skapast heljarinnar hátíð í kringum hlaupið. Svo erum við í fyrsta sinn með Snæfellshlaupið þar sem hlaupið er hringinn í kringum Snæfell en það er okkar næsthæsta fjall og hæsta fjall utan jökla.“
Nærðu að njóta náttúrunnar á hlaupum?
„Maður sækir sér kraft úr umhverfinu það þýðir ekkert að horfa niður á tærnar þó þetta sé erfitt. Sérstaklega í góðu veðri þegar maður er byrjaður að erfiða þá getur maður sótt kraft í umhverfið og notið þess að hlaupa um og þeirra lífsgæða að geta hlaupið í þessu fallega umhverfi okkar,“ segir Sigfinnur. Hann hefur verið duglegur að sækja fleiri hátíðir á svæðinu en hlaupahátíðir og nefnir meðal annars Bræðsluna, LungA sem verður haldin í síðasta skipti í ár og Franska daga.