„Dag­ur­inn er sá al­versti sem ég hef upp­lifað“

Lífsstílsbreyting | 13. júlí 2024

„Dag­ur­inn er sá al­versti sem ég hef upp­lifað“

Jakob S. Jónsson er margslunginn maður sem á sér mikla sögu. Hann tók fyrsta sopann af áfengi á táningsaldri og myndaði náið og nánast órjúfanlegt tilfinningasamband við Bakkus fljótlega eftir það. Brennivínsflaskan varð helsti fylgdarmaður hans og leiðarvísir í ríflega hálfa öld en fáir vissu af þessu vandamáli þar sem hann kaus að drekka á bak við luktar dyr einrúmsins. 

„Dag­ur­inn er sá al­versti sem ég hef upp­lifað“

Lífsstílsbreyting | 13. júlí 2024

Jakob S. Jónsson barðist lengi við Bakkus.
Jakob S. Jónsson barðist lengi við Bakkus. mbl.is/Eyþór

Jakob S. Jónsson er margslunginn maður sem á sér mikla sögu. Hann tók fyrsta sopann af áfengi á táningsaldri og myndaði náið og nánast órjúfanlegt tilfinningasamband við Bakkus fljótlega eftir það. Brennivínsflaskan varð helsti fylgdarmaður hans og leiðarvísir í ríflega hálfa öld en fáir vissu af þessu vandamáli þar sem hann kaus að drekka á bak við luktar dyr einrúmsins. 

Jakob S. Jónsson er margslunginn maður sem á sér mikla sögu. Hann tók fyrsta sopann af áfengi á táningsaldri og myndaði náið og nánast órjúfanlegt tilfinningasamband við Bakkus fljótlega eftir það. Brennivínsflaskan varð helsti fylgdarmaður hans og leiðarvísir í ríflega hálfa öld en fáir vissu af þessu vandamáli þar sem hann kaus að drekka á bak við luktar dyr einrúmsins. 

Jakob, sem titlar sig sem fyrrverandi gardínubyttu, er Reykvíkingur í húð og hár en bjó þó um langt skeið í Svíþjóð. Hann er fæddur árið 1956 og á þrjú hjónabönd að baki sem færðu honum fjögur börn, eitt með fyrstu eiginkonunni og þrjú með þeirri næstu. Börnin eru hans mesta gæfuspor. 

Lífið er þó ekki bara gjöfult, það er brothætt og getur breyst á einu augnabliki. Sumir þurfa að horfast í augu við þá döpru staðreynd að sjá eftir barni sínu yfir móðuna miklu. Jakob er einn af þeim. Yngsta dóttir hans, Ásta María, fannst látin við tjörn í sænsku borginni Jönköping árið 2022. Það féll í hlut eldri dóttur Jakobs að flytja föður sínum, símleiðis, þessi miklu sorgartíðindi en hann var þá staddur á Hótel Bifröst í Borgarfirði og á leið í háttinn þegar síminn hringdi. 

Festi hvergi rætur

Eins og með allar sögur þá er best að byrja á byrjuninni. 

Jakob, alnafni móðurafa síns, er einkasonur hjónanna Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Svövu Jakobsdóttur. Þau voru mikilsmetin og virt í íslensku samfélagi enda þekkt fyrir störf sín. Jón Hnefill var vígður sóknarprestur á Eskifirði árið 1960 en helgaði sig síðar kennslu og skriftum, hann starfaði meðal annars sem blaðamaður á Morgunblaðinu ásamt eiginkonu sinni og varð dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands og síðar prófessor í þjóðfræði, fyrstur Íslendinga. Svava var rithöfundur, alþingiskona og leikskáld. Árið 2001 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu lista og menningar. 

Sköpunargleði, staðfestuleysi og nokkur losarabragur einkenndu uppvaxtarár Jakobs en foreldrar hans voru flökkukindur og veigruðu sér ekki við að flytja sig á milli staða. 

„Barnæskan mín var í sjálfu sér ruglingsleg með tilliti til þess hvað foreldrar mínir fluttu oft,“ segir Jakob. „Þegar ég var tvítugur hafði ég búið á rúmlega 40 mismunandi stöðum, það eru helvíti mörg heimilisföng,“ segir hann og hlær. „Við eyddum að meðaltali sex mánuðum á hverjum stað, festum hvergi rætur. Þetta kom nú bara til vegna þess að faðir minn fór í guðfræðinám og varð prestur á Eskifirði. Svo fór hann í frekara nám til Svíþjóðar. Móðir mín gerðist rithöfundur og fór einnig á fullt í pólitík. Það segir sig svolítið sjálft, foreldrar sem lifa á þennan hátt eru síflytjandi.“

Jakob segir barnæsku sína hafa verið heldur ruglingslega.
Jakob segir barnæsku sína hafa verið heldur ruglingslega. mbl.is/Eyþór

Aðspurður segir Jakob að þetta hafi kannski eftir á hyggja verið erfitt fyrir ungan dreng. „Barnæskan var síður en svo dans á rósum en ég þekkti ekkert annað, hafði engan samanburð. Þetta stöðuga flakk varð samt til þess að ég á enga æskuvini í dag, enga vini úr barnæsku. Ég var stöðugt að eignast nýja og nýja vini á nýjum og nýjum stöðum. En maður grætur ekki yfir þeim tekjum sem maður hefur aldrei átt.“

Jakob kynntist hálfbræðrum sínum á unglingsaldri og eru þeir stór og mikilvægur partur af lífi hans í dag. „Ég komst að því svona smám saman að ég ætti tvo hálfbræður, föðurmegin. Það var enginn umgangur á milli föður míns og sona hans en þegar ég komst að því þá hugsaði ég að það væri nú hálfbjánalegt að eiga tvo hálfbræður og láta sem þeir væru ekki til. 

Ég átti frumkvæði að því á sínum tíma að við myndum hittast og umgangast og er ég mjög þakklátur fyrir það. Í dag eru þeir með mínum albestu vinum og menn sem ég get leitað til ef á bjátar. Ég er yngstur okkar og þannig manneskja að það er alltaf eitthvað sem bjátar á í mínu lífi, hálfgerður vandræðagemlingur. Þá er sko gott að eiga tvo eldri bræður. Annar er afskaplega skynsamur og eðlisgreindur og hinn er lögfræðingur,“ segir Jakob og hlær. 

Brennivínið bætti allt

Jakob, sem hefur undanfarinn áratug starfað sem leiðsögumaður, kynntist besta vini sínum sem og heimsins versta óvini aðeins 16 ára gamall. Hann tók fyrsta sopann af áfengi á unglingsárunum og í framhaldi hófst atburðarás sem hann réði lítið sem ekkert við. 

„Í föðurfjölskyldu minni hafði oft verið ótæpilega drukkið. Það var ákveðin brennivínsmenning við lýði en flestir gátu haldið því innan skynsamlegra marka en aðrir ekki, eins og gengur og gerist. Ég varð fljótt einn af þeim sem gat ómögulega haldið drykkjunni innan skynsamlegra marka. 

Innan móðurfjölskyldunnar var þetta svipað, afi og amma voru bindindisfólk og börnin þeirra urðu ýmist bindindisfólk eða ekki. Ég var því með drykkjumenningu beggja vegna í fjölskyldunni, bæði föður- og móðurmegin,“ útskýrir Jakob. „Ég ólst upp við alkóhólisma og varð alkóhólisti, fyllibytta við fyrsta sopa.“

Af hverju byrjaðirðu að drekka?

„Það var nú einfaldlega sá mórall sem í kringum mann var. Sko, þegar ég er 16 ára gamall, eða í kringum 1970, var ég búsettur í Reykjavík. Menn fóru á helgarfyllerí og duttu í það og ef maður mundi ekkert eftir helginni þá var hún góð. Ég man því miður eftir fyrsta fylleríinu og veit í hjarta mínu að ég hefði getað farið rakleiðis inn á Vog þá nótt, hefði Vogur verið til. Að skemmta sér og vera edrú var bara mislukkað.“

Jakob segist hafa orðið fyllibytta við fyrsta sopa.
Jakob segist hafa orðið fyllibytta við fyrsta sopa. mbl.is/Eyþór

Drykkjulætin eyðilögðu þrjú hjónabönd

Jakob er þrískilinn og viðurkennir hreinskilningslega að hafa drukkið frá sér vitið og eyðilagt öll hjónaböndin. 

„Ég átti frumkvæðið af öllum þessum skilnuðum. Meginstefið í öllum þessum átökum, sem leiddu að lokum til skilnaða, var að allar þessar konur voru á sinn hátt heiðarlegar en ég var það ekki. Fyrst og fremst vegna þess að drykkjan eyðilagði dómgreind mína. Ég var með laskaða dómgreind vegna drykkju eða réttara sagt sem skánaði ekki við að ég drykki. Svo getur vel verið að það sé eitthvað sálrænt úr bernskunni sem hafi einnig spilað inn í, ég hef ekki kafað svo djúpt. Ekki ennþá.“

Drakkstu einsamall?

„Undir það síðasta var ég það sem kallað er gardínubytta. Ég var einn heima á bak við luktar dyr. Það eru mjög fáir sem hafa séð mig drukkinn á almannafæri og mun færri sem vita að ég var að glíma við þetta vandamál. Ég var ekki útúrdrukkinn á skemmtistöðum eða röltandi upp og niður Laugaveginn draugfullur. Það kom sjaldan fyrir að fólk sá mig drukkinn en um leið og ég kom heim þá var það fyrsta mál á dagskrá að draga niður gardínurnar og hella mér í glas. Ég var viskímaður.“

Var sopinn sterkari en fjölskyldan?

„Hann verður það hjá alkóhólistum. Það er allt í lagi að hafa áfengi og börn í sama herberginu, þá getur maður sagt að maður taki tillit til hvoru tveggja. Annað verður þó alltaf á kostnað hins. Það að eiga börn og það að drekka er eins og eldur og vatn.“ 

„Var fíkill líkt og faðir hennar“

Eins og fram hefur komið þá eignaðist Jakob fjögur börn, eitt með fyrstu eiginkonu sinni og þrjú með þeirri næstu. „Þrjú þeirra eru á lífi í dag. Það yngsta, dóttir mín, er komin í sumarlandið. Hún var fíkill líkt og faðir hennar. 

Ég gæti sagt alveg rosalega mikið um dóttur mína og ég hugsa til hennar á hverjum degi. Ég er orðinn eins sáttur og maður getur orðið við þá staðreynd að hún er ekki lengur meðal vor í jarðrýminu en hún lifir afskaplega sterkt í minningunni. Við höfðum sama húmor, hún og ég. Hún var ansi mikil pabbastelpa,“ segir Jakob. 

Ásta María, dóttir Jakobs, var björt og brosmild.
Ásta María, dóttir Jakobs, var björt og brosmild. Ljósmynd/Aðsend

Ásta María, dóttir Jakobs, lést þann 7. ágúst 2022, aðeins 29 ára gömul. „Dagurinn er sá alversti sem ég hef upplifað, ég upplifði martröð allra foreldra og fylgdi barni mínu til grafar. Astrid Lindgren rithöfundur missti son sinn og henni varð að orði þegar hann var jarðsettur að það ætti að varða lög að foreldrar fylgi börnum sínum til grafar. Ég get ekki sagt annað en að ég sé hjartanlega sammála orðum hennar. 

Dóttir mín var eiturlyfjaneytandi en það var samt ekki ofskammtur sem varð henni að bana. Krufningin leiddi það í ljós að það var hjartað sem á endanum gaf sig. Hún var búin að eiga í basli við eiturlyfin í rúman áratug, náði stundum að stíga út úr vítahringnum en féll alltaf aftur. Hún var búsett í Svíþjóð þegar hún lést.“

„Mér þótti þetta áfellisdómur“

Daginn sem dóttir Jakobs dó var hann með hóp ferðalanga í leiðsögn. „Við vorum á Hótel Bifröst og ég var nýkominn upp á herbergi eftir að hafa borðað kvöldmat. Þá hringir síminn og á hinum enda línunnar var eldri dóttir mín sem fékk það erfiða hlutverk að flytja mér tíðindin og bera kennsl á líkið ásamt móður þeirra. Hún var stödd í líkhúsinu þegar hún hringdi. Þetta er hryllilegasta augnablik lífs míns.“

Ásta María fannst úti, sofnaði svefninum langa við tjörn í miðbæ sænsku borgarinnar. „Hún hafði komið inn á veitingastað, leið eitthvað illa og bað þjónustustúlkuna um vatnsglas. Svo settist hún út. Þetta var veitingastaður við vatnið. Hún settist þar niður. Það liggja tröppur frá veitingastaðnum og niður að vatninu og gestirnir sem sátu fyrir utan sáu ekki alveg niður á neðstu tröppu. Þar fannst hún nokkru síðar. Það var hringt á sjúkrabíl og sjúkraflutningamennirnir reyndu endurlífgunartilraunir í rúman klukkutíma en það tókst ekki að bjarga henni. Hún var farin.

Jakob saknar dóttur sinnar meira en orð fá lýst.
Jakob saknar dóttur sinnar meira en orð fá lýst. mbl.is/Eyþór

Þegar eldri dóttir mín hringir í mig og segir mér að Ásta María sé dáin, þá get ég ekki sagt að það hafi komið mér fullkomlega á óvart. Þetta var ekki eins og að missa fjölskyldumeðlim í slysi. Við vorum oft búin að ræða saman um fíkniefnaneysluna, hún talaði um sína neyslu og ég talaði um mína neyslu. Eitt það síðasta sem við ræddum um var drykkjan og neyslan. Ég sagði að það gengi sæmilega hjá mér sem var ekkert annað en lygi. Ég var líka oft búin að segja við hana að ég vildi ekki verða faðir sem fylgdi dóttur sinni til grafar. Við vorum samt alveg með það á hreinu að eitthvað svona gæti gerst. Út af því komu fréttirnar mér ekki gjörsamlega á óvart en mér þótti þetta áfellisdómur yfir mér sem foreldri og það er eitt af því sem ég veit og hef alltaf vitað. Ég hefði getað gert betur sem foreldri.“

Misstir þú tökin í kjölfar missisins?

„Áfengi hefur alltaf verið yfir í mínu lífi. Það hefur ekkert verið skipulagt öðruvísi en að þar væri gert ráð fyrir áfengi. Samkvæmi um helgar, sumarfrí og bara hvað sem var. Það var alltaf gengið frá því að maður væri með hreinar nærbuxur í töskunni og ef ekki fulla tösku af brennivíni þá alla vega vænan afgang af brennivíni.

Svo missi ég endanlega tökin þegar Ásta María deyr. Ég fór á húrrandi fyllerí og hef uppgötvað það eftir meðferð að ég var bara í því ástandi að ég gat ekki tekið ábyrgð á eigin sorg. Það var uppgötvun sem ég líki við það að fá blauta gólftusku í andlitið. Ég held að dóttir mín hefði ekki verið mjög ánægð með að pabbi hennar gæti ekki tekið ábyrgð á eigin tilfinningum þó að hún tæki upp á því að deyja. Ef maður ætlar að deyfa eða efla tilfinningar með áfengi eða öðrum eiturlyfjum er maður ekki að taka ábyrgð á tilfinningalífi sínu. Og þegar maður uppgötvar þetta þá er þetta heljarinnar áfellisdómur yfir manni sjálfum. Því ef maður treystir sér ekki til að lifa sínu tilfinningalífi er maður þá raunverulega manneskja?“

„Maður verður að geta logið að sjálfum sér að allt sé í lagi“

Jakob leitaði sér hjálpar rúmu ári eftir andlát dóttur sinnar. Börnin hans léku lykilhlutverkið í því og er hann edrú í dag. „Ég átti ekki við nein vandamál að stríða, mér þótti sopinn bara svo góður, en aðrir litu þetta öðrum augum en skoðanir þeirra og umvandanir hreyfðu ekkert við mér. Það síðasta sem yfirgefur mann þegar maður er einn í herbergi með áfengisflösku er sjálfsblekkingin. Maður verður að geta logið að sjálfum sér að allt sé í lagi.“

Jakob er þakklátur fyrir gott bakland.
Jakob er þakklátur fyrir gott bakland. mbl.is/Eyþór

Varstu plataður til að verða edrú?

„Já, eiginlega. Í lok ársins 2023 heimsótti ég eldri dóttur mína, afadrengi og yngri son minn til Svíþjóðar. Eftir að hafa heimsótt þau í tvígang þá sögðu börnin mín við mig: „Okkur þykir mjög vænt um þig, pabbi minn, en þú þarft ekkert að vera að koma í heimsókn ef þú getur ekki verið edrú“.

Þau vissu bæði tvö að ég hafði beitt móður mína nákvæmlega sama bragðinu og það hafði virkað. Hún fór í meðferð eftir að ég bannaði henni að hitta sonarson sinn og hún snerti ekki á áfengi eftir það. Þetta vissu börnin mín. Þetta var mjög lúalegt bragð af þeim, bellibragð. 

Um svipað leyti segja tveir vinnuveitendur við mig: „Þú ert flottur leiðsögumaður, við viljum endilega hafa þig í vinnu en ef við getum ekki treyst þér þá gengur það bara ekki upp“. Annar bætti svo við að ef ég vildi gera eitthvað í mínum málum myndi hann styðja mig í því. Hann er búinn að sjá til þess að ég hef getað borgað alla reikninga. Það drengskaparbragð skal aldrei gleymast. 

Það þriðja sem gerðist var að góðvinur minn, sem hefur sjálfur farið í gegnum þetta allt saman, tyllti sér hjá mér í lok nóvember eða byrjun desember og sagði: „Veistu það, Jakob, þú ert kominn á botninn“. Ég vissi hvað hann átti við og hann vissi að við vorum á sömu nótum. Hann var ekki að brydda upp á neinu umræðuefni, hann var ekki að hefja neitt spjall, hann var að staðfesta ákveðinn veruleika.

Þetta þrennt gerði það að verkum að ég fór að hugsa hvort ég ætti ekki að fara inn á Vog með hinum fylliröftunum, svona til að gera fólk rólegt í kringum mig.“

Jakob hefur verið edrú frá því í desember og horfir …
Jakob hefur verið edrú frá því í desember og horfir björtum augum á framtíðina. mbl.is/Eyþór

„Ákvörðunin var tekin“

Skömmu síðar fór Jakob inn á Vog í afeitrun og greiningu. „Ég fór þangað og hitti fjöldann allan af almennilegu fólki. Hið besta fólk sem átti við þennan sama vanda að stríða. Það gat ómögulega haft stjórn á áfengisneyslu sinni, ekki fremur en ég.

Á Vogi fékk ég að heyra um Vík sem er eftirmeðferðarstaður. Honum var lýst þannig fyrir mér, einkanlega af þeim sem voru með mér í meðferðinni, að þar væri unnið æðislegt starf. Veruleikafælni mín minnkaði við þetta en áður en ég fór inn á Vog hafði ég tekið þá ákvörðun að þangað væri ég mættur til að hætta að drekka. Ég var ekki á leið í meðferð til að læra að minnka við mig drykkjuna og reyna að stjórna því sem ég gat í raun ekki stjórnað heldur var ég að fara inn á Vog af því að ég ætlaði að hætta að drekka og það fyrir fullt og allt.“

Hvernig voru þessir fyrstu edrú-dagar?

„Þeir voru mjög sérstakir. Frá því að ég hætti að drekka um miðjan desember síðastliðin og þangað til núna hef ég ekki fundið fyrir neinni löngun í brennivín. Ég hef einu sinni fundið þörf fyrir að drekka brennivín en ég er algjörlega laus við löngunina í það.

Þetta er merkileg reynsla, sem ég get ekki lýst því að ég er ennþá að kynnast henni. Þó að áfengi hafi stjórnað lífi mínu þá þýðir það ekki að maður hafi verið á fylleríi hverja mínútu sólarhringsins. Það komu augnablik þar sem maður var ekki undir áhrifum. Það að vera edrú er ekkert ofboðslega nýtt. Árið 2012 þá ákvað ég að vera edrú í eitt ár og ég var það. Það var bara allt í lagi og ekkert mál, en allt þetta ár þá var ég að telja niður, 364, 363, 362, 361. Þegar ég var loksins kominn niður í einn þá var ekki til sú vínbúð á landinu sem hafði að geyma það magn brennivíns sem gat svalað þorsta mínum. Þetta edrútímabil snerist eingöngu um áfengi. Það snerist allt á beinan og óbeinan hátt um áfengi.“

„Ég er sjálfs míns herra núna“

Jakob er alsæll að vera búinn að endurheimta líf sitt. „Ég er sjálfs míns herra núna og þarf að læra að vera sjálfs míns herra, 24 klukkustundir, sjö daga vikunnar og 12 mánuði ársins. Ég get ekki alveg sagt að ég sé búinn að læra það hlutverk en það gerist hægt og bítandi með hjálp fjölskyldu, SÁÁ og góðra félaga í samtökum okkar sem viljum stjórna eigin lífi.

Ég sakna ekki bragðsins af viskíi. Ég drakk til að koma mér í gleymsku. Ég sakna þess þó að komast ekki í gleymsku.“

mbl.is