Kvikusöfnun undir Svartsengi mælist nú átta milljónir rúmmetra og helst þróunin stöðug. Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Kvikusöfnun undir Svartsengi mælist nú átta milljónir rúmmetra og helst þróunin stöðug. Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Kvikusöfnun undir Svartsengi mælist nú átta milljónir rúmmetra og helst þróunin stöðug. Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir að lítil breyting sé á milli mælinga, en í síðustu mælingum, frá 2. júlí, höfðu 4 til 6 milljónir rúmmetra af kviku safnast inn í kvikuhólfið.
„Þetta er ekki mikil breyting frá síðustu mælingum. Þetta er frekar stöðugt og það tekur tíma að sjá stökkin,” segir Lovísa og bætir við að við síðustu mælingar hafi verið gert ráð fyrir að kvikuhlaup, eldgos eða hvort tveggja færi af stað eftir þrjár til sex vikur en erfitt sé að áætla hvenær það verði.
Undir þetta tekur Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands. Hann segir þróunin vera á þá leið að með hverju gosi þurfi meira rúmmál af kviku fyrir það næsta til að fara af stað.
„Það er erfitt að segja mikið til um þetta. Við erum að tala um næstu vikur eða mánuði. Þróunin hefur verið þannig að það þarf alltaf meira rúmmál af kviku í hvert skipti. En svo er líka óvissa hvort sú þróun haldi áfram. Við bara vitum það ekki. Þannig að óvissutímabilið lengist,“ segir Benedikt og bætir við að kvikuhólfið þurfi að fyllast aðeins meira áður en að eldgos fari af stað.
Þegar kvikusöfnun eykst lyftist landið upp vegna rúmmáls kvikunnar sem hefur safnast saman. Í kjölfar þess hefur landris við Svartsengi haldið áfram á svipuðum hraða síðustu daga.
Tæplega 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku og 20 þeirra við kvikuinnganginn. Sá stærsti var 1,3 að stærð, vestan við Grindavíkurbæ. Flestir skjálftar mældust umhverfis Kleifarvatn, rúmlega 40 austan vatnsins og rúmlega 60 vestan og suðvestan við vatnið. Þetta er svipuð virkni og hefur verið síðustu tvær vikur.
Nýtt hættumat var gert fyrir svæðið 9. júlí og helst það nánast óbreytt en hætta vegna hraunflæðis í Svartsengi hefur minnkað.