Strokulaxar setja mark sitt á laxveiðiár

Fiskeldi | 16. júlí 2024

Strokulaxar setja mark sitt á laxveiðiár

Áhrif sjókvíaeldis á íslenska laxastofna í fyrra voru frábrugðin fyrri árum, einkum vegna strokulaxa úr kví í Patreksfirði. Áætlað er að um 3.500 laxar hafi strokið.

Strokulaxar setja mark sitt á laxveiðiár

Fiskeldi | 16. júlí 2024

Um er að ræða fjórðu samantektina sem stofnunin hefur nú …
Um er að ræða fjórðu samantektina sem stofnunin hefur nú gefið út um áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna. mbl.is/Helgi Bjarnason.

Áhrif sjókvíaeldis á íslenska laxastofna í fyrra voru frábrugðin fyrri árum, einkum vegna strokulaxa úr kví í Patreksfirði. Áætlað er að um 3.500 laxar hafi strokið.

Áhrif sjókvíaeldis á íslenska laxastofna í fyrra voru frábrugðin fyrri árum, einkum vegna strokulaxa úr kví í Patreksfirði. Áætlað er að um 3.500 laxar hafi strokið.

Þetta kemur fram í samantekt Hafrannsóknarstofnunar. Um er að ræða fjórðu samantektina sem stofnunin hefur gefið út um áhrif sjókvíaeldis á íslenska laxastofna.

Aðgerðir borið árangur

Fljótlega eftir strokið fóru eldislaxar að ganga í ár og sýndu rannsóknir að um 35% þeirra voru kynþroska, sem benti til að þeir stefndu á hrygningu.

Til að hindra hrygningu eldislaxa tók Fiskistofa upp ýmsar mótvægisaðgerðir, þar á meðal voru veitt leyfi til veiða eldislaxa eftir lok veiðitíma og lokun fiskvega. Sérfræðingar frá Noregi voru einnig fengnir til að leita uppi og fjarlægja eldislaxa úr ám og vakti það mikla athygli meðal almennings. 

Í samantektinni segir að þessari aðgerðir hafi skilað árangri, en enn eigi eftir að koma í ljós hversu víðtæk áhrif hrygning eldislaxa verði. Stefnt er að því að safna sýnum af seiðum í haust til að meta hrygningu og blöndun eldislaxa við villta laxastofna.

Mikilvægt að fylgjast með kynþroska

Mikill fjöldi laxa barst Hafrannsóknastofnun til sýnatöku og rannsóknar þar sem erfðaefni strokulaxa voru borin saman við foreldrafiska sem notaðir voru til undaneldis. Í samantektinni segir að þetta sé mikilvægt til að rekja strokufiska og rannsaka áhrif þeirra á villta laxastofna.

„Af þessu stroki má sjá mikilvægi þess að í laxeldi sé fylgst með kynþroska fiska og mótvægisaðgerðum með ljósastýringu sé beitt á eldisferlinum,“ segir í samantektinni, en reglugerð um fiskeldi var breytt í maí til að taka mið af þessum þáttum.

Þá telur Hafrannsóknarstofnun mikilvægt að styrkja villta stofna til að auka viðnámsþrótt þeirra gegn innblöndun eldislaxa.

„Ganga villtra laxa í ár hér á landi hefur farið minnkandi á undanförnum árum og því má búast við að ef laxar strjúka úr eldi og ná að hrygna í ám verði áhrif innblöndunar hlutfallslega meiri en ef hrygningarstofnar villtra laxa væru stórir. Því er mikilvægt að styrkja villta stofna til að auka viðnámsþrótt þeirra,“ segir í samantektinni.

Gagnrýnin að nokkru leyti réttmæt

Í samantektinni kemur fram að Hafrannsóknastofnun hafi verið gagnrýnd fyrir langan tíma í greiningu og birtingu niðurstaðna. Telur stofnunin gagnrýnina að nokkru leyti vera réttmæta, en tekur fram að við greiningu sem þessa þurfi að taka tillit til ýmissa þátta. Hafrannsóknarstofnun kallar meðal annars eftir auknu fjármagni til að sinna greiningum sem þessum.

„Við greiningar á seiðum hefur verið stuðst við greiningar á 60 þúsund erfðamörkum og því þarf umtalsverða vinnu við undirbúning, reiknigetu við greiningar og svo samantekt niðurstaðna og túlkun þeirra. Mikilvægt er að efla þennan þátt með auknu fjármagni, mannafla og tækjabúnaði,“ kemur fram í samantektinni. 

mbl.is