Við höfum „runnið til baka niður brekkuna“

Kórónuveiran Covid-19 | 16. júlí 2024

Við höfum „runnið til baka niður brekkuna“

Ákveðið hefur verið að taka upp smitvarnaaðgerðir á Landspítalanum í kjölfar uppsveiflu kórónuveirusmita. Smit hafa greinst á átta deildum spítalans og eru 32 sjúklingar í einangrun. 

Við höfum „runnið til baka niður brekkuna“

Kórónuveiran Covid-19 | 16. júlí 2024

Hildur Helgadóttir, formaður farsóttarnefndar Landspítala.
Hildur Helgadóttir, formaður farsóttarnefndar Landspítala. Ljósmynd/Landspítalinn

Ákveðið hefur verið að taka upp smitvarnaaðgerðir á Landspítalanum í kjölfar uppsveiflu kórónuveirusmita. Smit hafa greinst á átta deildum spítalans og eru 32 sjúklingar í einangrun. 

Ákveðið hefur verið að taka upp smitvarnaaðgerðir á Landspítalanum í kjölfar uppsveiflu kórónuveirusmita. Smit hafa greinst á átta deildum spítalans og eru 32 sjúklingar í einangrun. 

Ekki er um alvarleg veikindi að ræða og er enginn sem liggur veikur á bráðamóttöku vegna þessa að sögn Hildar Helgadóttur, formanns farsóttarnefndar Landspítalans. 

„Þrátt fyrir að þetta séu ekki alvarleg veikindi, eins og var í upphafi, þá er þetta samt leiðindapest sem fer illa með fólk. Fólk verður lasið og slappt og starfsfólk frá vinnu. Þetta ruglar allt systemið hjá okkur,“ segir Hildur og útskýrir að því hafi þótt full ástæða til að herða á sóttvörnum og rifja upp gamlar aðgerðir. 

Grímuskylda og staðan endurmetin á mánudag

Frá og með morgundeginum tekur því aftur við grímuskylda á spítalanum auk þess heimsóknartími verður styttur og ekki mælst til þess að fleiri en tveir komi í einu til hvers sjúklings. 

Spurð til hversu langs tíma umræddar aðgerðir verði í gildi svarar Hildur því til að staðan verði endurmetin á mánudaginn. „Við þurfum að sjá að þetta sé á niðurleið,“ segir hún en áréttir að þeir sem finni fyrir einkennum sem gætu bent til öndunarfærasýkingar verði áfram beðnir um að bera grímu þó aðgerðum linni. 

Vilja vekja fólk til umhugsunar 

Spurð hvort aðgerðirnar hafi eitthvað að gera með mannafla spítalans yfir sumartímann segir Hildur svo ekki vera. Það sé þekkt innan spítalans að þar ríki grímuskylda þegar samtímis herja að margar pestir. 

„Ef þetta væri inflúensa þá myndum við grípa til sömu aðgerða. [...] Líka bara að takmarka umferð inn á spítalann því fólk er orðið svolítið kærulaust með það, koma kannski margir saman og með lítil börn,“ segir hún og bætir við: 

„Við viljum kannski líka bara aðeins vekja fólk til umhugsunar um það úti í samfélaginu að þessar pestir eru með okkur og við þurfum að gæta að sóttvörnum alltaf. Það er ekkert þannig að covid sé búið og allir geti hætt að þvo sér um hendurnar. Við verðum að gæta að okkur.“

„Svo auðvitað er þetta hábjargræðistíminn og við megum ekki við því að missa einn einasta mann.“

„Hundleiðinlegt“ að veikjast yfir sumartímann

Í því samhengi nefnir Hildur að hún hafi átt samtal við leiðsögumann sem hafði áhyggjur af ferðaþjónustunni. Þar sé fólk sem sé að veikjast en hvergi sé verið að gæta að sóttvörnum og hvergi spritt. 

„Við höfum einhvern veginn runnið til baka niður brekkuna með þessar aðgerðir,“ segir Hildur sem hvetur alla til að huga að sóttvörnum enda „hundleiðinlegt“ að veikjast yfir sumartímann svo og á öðrum tímum. 

mbl.is