Frömdu hundruð stríðsglæpa í árásinni

Ísrael/Palestína | 17. júlí 2024

Frömdu hundruð stríðsglæpa í árásinni

Hundruð stríðsglæpa voru framin þegar hryðjuverkasamtök Hamas leiddu óvænta árás á Ísrael 7. október.

Frömdu hundruð stríðsglæpa í árásinni

Ísrael/Palestína | 17. júlí 2024

Ísraelskur hermaður gengur um á meðal þjóðfána og mynda af …
Ísraelskur hermaður gengur um á meðal þjóðfána og mynda af ísraelskum fórnarlömbum Hamas-liða á vettvangi Supernova-tónlistarhátíðarinnar nærri Kibbutz Reim í Suður-Ísrael þar sem Hamas-menn myrtu 350 gesti og nauðguðu og limlestu fjölda kvenna. AFP/Menahem Kahana

Hundruð stríðsglæpa voru framin þegar hryðjuverkasamtök Hamas leiddu óvænta árás á Ísrael 7. október.

Hundruð stríðsglæpa voru framin þegar hryðjuverkasamtök Hamas leiddu óvænta árás á Ísrael 7. október.

Frá þessu greinir í skýrslu Human Rights Watch-mannréttindasamtakanna, HRW, sem gefin var út í dag, en um er að ræða eina ítarlegustu alþjóðlegu rannsóknina sem gerð hefur verið á innrásinni.

Hamas-samtökin brugðust illa við niðurstöðunni og hafa krafist þess að HRW dragi skýrsluna til baka og „biðjist afsökunar“.

Ómögulegt að setja tölu á fjölda brota 

Í skýrslunni segir að Hamas og bandamenn þeirra hafi brotið gegn fjölda alþjóðalaga eða reglna sem eiga rætur að rekja til Genfarsáttmálans. Ómögulegt sé þó að tiltaka hversu mörg brotin voru. 

„Það er ómögulegt fyrir okkur að setja tölu á tiltekin tilvik,“ sagði Belkis Wille aðstoðarforstjóri HRW á blaðamannafundi en bætti við að augljóslega hefði verið um hundruð tilvika að ræða. 

Glæpirnir fólu í sér „skipulagðar og tilviljanakenndar árásir á óbreytta borgara og borgaralega hluti“. Dráp á einstaklingum í haldi, grimmileg og önnur ómannúðleg meðferð, kynferðislegt og kynbundið ofbeldi, gíslatökur, limlestingar og rán á líkum, notkun mannlegra skjalda auk fjölda rána, að því er fram kemur í skýrslunni. 

Ísraelskum borgurum var slátrað á götum úti.
Ísraelskum borgurum var slátrað á götum úti. AFP/​Baz Ratner

Ekki óbreyttir borgarar sem beittu versta ofbeldinu

Þrátt fyrir að Hamas-samtökin séu alla jafna sögð vera skipuleggjandi árásarinnar, eru taldir upp aðrir vopnaðir hópar í skýrslunni sem einnig frömdu stríðsglæpi í sömu árás. Þar á meðal er palestínska hreyfingin Islamic Jihad, eða Heilagt stríð. 

„Staðreyndin er sú að það voru í raun ekki óbreyttir borgarar frá Gasa sem beittu versta ofbeldinu,“ sagði Wille.

Þá benti Wille á að árásin hefði verið „ótrúlega skipulögð og samræmd“, á borgir, samfélög og herstöðvar í kringum Gasa.  

„Á mörgum stöðum skutu árásarmenn beint á almenna borgara, oft af stuttu færi, þegar þeir reyndu að flýja, og á fólk sem ók ökutækjum sínum á svæðinu,“ segir í skýrslunni. 

„Brenndu og kæfðu fólk“

„Þeir köstuðu handsprengjum, skutu inn í öryggisherbergi og önnur skjól auk þess að skjóta sprengjuflaugum á heimili. Þeir kveiktu í húsum, brenndu og kæfðu fólk og þvinguðu út aðra sem þeir handtóku eða drápu.“ 

Þá segir í skýrslunni að vísbendingar hafi verið um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi af hálfu árásarmanna. Þar á meðal vísbendingar um þvingaða nekt og birtingu kynferðislegra mynda á samfélagsmiðlum án samþykkis. 

Þá er vitnað í teymi sérstaks fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, um kynferðisofbeldi í átökum, sem tók viðtöl við fólk í kjölfar árásarinnar. Einn greindi frá því að hafa orðið vitni að „nauðgun og hópnauðgun á að minnsta kosti þremur stöðum“.

Í skýrslunni er þó tekið fram að líklega verði aldrei hægt að skýra að fullu umfang kynferðislegs og kynbundins ofbeldis í árásinni. Er það ýmist vegna þess að sum fórnarlambanna létu lífið í árásinni, önnur munu líklega ekki vilja tjá sig auk þess sem ísraelskir viðbragðsaðilar, sem voru fyrstir á vettvang, söfnuðu ekki viðeigandi sönnunargögnum. 

Árásirnar á Ísrael áttu sér stað aðfaranótt 7. október.
Árásirnar á Ísrael áttu sér stað aðfaranótt 7. október. AFP/​Mahmud Hams

Hamas hafna skýrslunni 

„Við höfnum lygum og hróplegri hlutdrægni í garð hernámsins og skorti á fagmennsku og trúverðugleika í skýrslu HRW. Við krefjumst þess að skýrslan verði dregin til baka og við beðin afsökunar,“ sagði í yfirlýsingu Hamas-samtakanna í kjölfar útgáfu skýrslunnar. 

Ísraelar brugðust við árásinni með hernaðarárás á Gasa. Skýrslan fjallar þó einungis um atburði 7. október en ekki stríðið í kjölfarið. Hamas-samtökin hefðu þó viljað sjá að tekið hefði verið mið af viðbrögðum Ísraela í skýrslunni. Það er þó von á skýrslu þess efnis þar sem HRW vinnur nú að skýrslu um átökin á Gasa. 

mbl.is