Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir Joe Biden Bandaríkjaforseta hafa verið skarpan og slegið á létta strengi er þeir hittust á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir Joe Biden Bandaríkjaforseta hafa verið skarpan og slegið á létta strengi er þeir hittust á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir Joe Biden Bandaríkjaforseta hafa verið skarpan og slegið á létta strengi er þeir hittust á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku.
Leiðtogafundurinn fór fram dagana 9.-11. júlí í Washington. Allra augu voru á Biden eftir slæma frammistöðu í kappræðum á milli hans og Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, tveimur vikum áður.
Það var því einstaklega óheppilegt fyrir Biden þegar hann kynnti Volodimír Selenskí Úkraínuforseta sem „Pútín forseta“ við athöfn á leiðtogafundinum.
Í kjölfarið fór myndskeið af viðbrögðum þjóðarleiðtoga sem voru viðstaddir athöfnina í dreifingu. Í einu þeirra má meðal annars sjá Bjarna. Ólíkt nokkrum öðrum þjóðarleiðtogum beið Bjarni með að klappa eftir kynningu Bidens á Selenskí.
„Ég áttaði mig strax á því að þarna höfðu átt sér stað hrikaleg mismæli,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Þá hafi hann viljað sjá viðbrögð Selenskís áður en hann klappaði.
„Ég vildi nú bara bíða eftir því að sjá viðbrögð Selenskís sem að voru mjög takmörkuð. Hann sýndi ekki mikil viðbrögð til að byrja með. Síðan leiðrétti Biden sig og útskýrði það að hann hefði kannski verið um of að hugsa um Pútín. Svo sagði Selenskí að hann væri bara svo miklu betri en Pútín. Þá svona léttist andrúmsloftið aðeins,“ segir Bjarni.
Spurður út í reynslu sína af samskiptum við Biden segir Bjarni forsetann vera skarpan.
„Hann var með framsögu í nokkur skipti og flutti ræður líka í Hvíta húsinu. Það er ekki annað hægt að segja en að það hafi bara allt saman lukkast ágætlega hjá forsetanum. Hins vegar var þetta augljóslega gríðarlega óheppilegt atvik. Í þeirri persónulegu viðkynningu sem ég átti við forsetann þá var hann bara skarpur og sló á létta strengi og ekkert við það að athuga. En auðvitað tekur maður eftir því að hann er ekki eins snar í snúningum og hann áður var,“ segir Bjarni.