Einsdæmi að ekki séu samræmd próf

PISA 2022 | 22. júlí 2024

Einsdæmi að ekki séu samræmd próf

Erfitt verður að fylgjast með því hvort nýtt námsmat, sem leysa á samræmdu könnunarprófin af hólmi, verði áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt, eins og aðalnámskrá kveður á um.

Einsdæmi að ekki séu samræmd próf

PISA 2022 | 22. júlí 2024

Árið 2006. Einn af síðustu árgöngunum til að þreyta samræmd …
Árið 2006. Einn af síðustu árgöngunum til að þreyta samræmd próf sem skiptu þá máli, en stjórnvöld kipptu þeim svo að segja úr sambandi árið 2009. mbl.is/Eyþór

Erfitt verður að fylgjast með því hvort nýtt námsmat, sem leysa á samræmdu könnunarprófin af hólmi, verði áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt, eins og aðalnámskrá kveður á um.

Erfitt verður að fylgjast með því hvort nýtt námsmat, sem leysa á samræmdu könnunarprófin af hólmi, verði áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt, eins og aðalnámskrá kveður á um.

Björg Pétursdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, segir þetta augljóst og dregur jafnframt í efa að meiri líkur séu á að niðurstöður matsferilsins verði nýttar til umbóta samanborið við niðurstöður samræmdu könnunarprófanna.

Þetta kemur fram í umsögn Bjargar við áform ráðuneytisins um breytingar á lögum um grunnskóla. Með þeim á meðal annars að heimila ráðherra að leggja alfarið niður samræmd próf og taka upp nýtt námsmat, svokallaðan matsferil, í staðinn.

Mun færri ná hæsta hæfniþrepi hér á landi

Björg bendir þar á að af áformunum, sem finna má í samráðsgátt stjórnvalda, megi ráða að í matsferlinum verði mismunandi verkefni sem eigi að nýtast kennurum til að meta stöðu nemenda.

„En það virðist vera val nemenda, kennara og skóla hvaða verkefni eru nýtt og hvort þau séu nýtt,“ skrifar Björg. Bendir hún á að svo að námsmat geti verið heiðarlegt þurfi það einnig að vera sambærilegt, svo að nemendur viti hvar þeir standi með hliðsjón af heildinni, ekki síst fyrir þá nemendur sem vanti hvatningu til að gera betur.

Í því sambandi bendir Björg á að mun lægra hlutfall íslenskra nemenda nær hæsta hæfniþrepi í PISA en nemenda annars staðar á Norðurlöndum og í OECD.

Lægra hlutfall íslenskra nemenda nær hæsta hæfniþrepi í PISA en …
Lægra hlutfall íslenskra nemenda nær hæsta hæfniþrepi í PISA en nemenda annars staðar á Norðurlöndum og í OECD. Ljósmynd/Colourbox

Eistland, Noregur, Svíþjóð, Danmörk, England

Björg bendir á að í öllum löndunum í kringum okkur séu lögð fyrir samræmd könnunarpróf í grunnskólum, nema í Finnlandi. Þar séu aftur á móti fjögur valkvæð samræmd könnunarpróf við lok framhaldsskóla.

„Markmiðið með könnunarprófunum er í öllum löndunum svipað, þ.e. að gefa skólunum samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu nemenda og hvernig þeim fer fram innan skólakerfisins. Einnig er upplýsingunum ætlað að aðstoða kennara til að styðja við nám nemenda og stjórnvöld til að fylgjast með skólakerfinu,“ skrifar Björg og heldur áfram:

„Í Eistlandi þar sem nemendur standa sig eftirtektarvert vel í PISA er samræmt könnunarpróf í stærðfræði og vísindum í 4. og 7. bekk. Í Noregi eru samræmd könnunarpróf í 5., 8. og 9. bekk í lestri, reikningi og ensku. Í Svíþjóð í 3., 6. og 9. bekk í sænsku, ensku og stærðfræði.

Danir eru að breyta samræmdu könnunarprófunum frá því að vera könnunarpróf í lestri, stærðfræði, ensku og eðlis-/efnafræði í samræmd könnunarpróf í lestri og stærðfræði sem tekin verða í fimm mismunandi árgöngum í grunnskóla.

Í Englandi er samræmt mat við upphaf skólagöngu og síðan tvisvar samræmd könnunarpróf. Annað er við 7 ára aldur í ensku og hitt við 11 ára aldur í ensku og stærðfræði. Jafnframt er samræmt próf í margföldunartöflunni.“

Í öllum löndunum í kringum okkur eru lögð fyrir samræmd …
Í öllum löndunum í kringum okkur eru lögð fyrir samræmd könnunarpróf í grunnskólum, nema í Finnlandi. Þar eru þau í framhaldsskólum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert komið í stað prófanna

Morgunblaðið og mbl.is hafa að undanförnu fjallað um stöðu grunnskólabarna og nýja námsmatið sem stjórnvöld vilja að komi í stað samræmdra prófa.

Prófin hafa ekki verið haldin síðustu ár og ekkert hefur komið í stað þeirra, þrátt fyrir yfirlýst áform þess efnis þegar þau voru lögð af.

Fram hefur komið að námsmatið nýja verði ekki innleitt að fullu fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026-2027. Þrátt fyrir það er ekki til skoðunar að taka samræmd próf tímabundið upp að nýju.

Því er ljóst að minnst sex ár muni líða án þess að hæfni grunnskólanemenda verði prófuð með samræmdri mælingu á landsvísu.

Námsmat sem verður ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár – fullyrðir ráðuneytið þó í samráðsgáttinni að ráðgert sé að verði tilbúið eftir hálft ár.

Morgunblaðið og mbl.is hafa að undanförnu fjallað um stöðu grunnskólabarna …
Morgunblaðið og mbl.is hafa að undanförnu fjallað um stöðu grunnskólabarna og nýja námsmatið sem stjórnvöld vilja að komi í stað samræmdra prófa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsenda jafnréttis til náms

Greint var frá því á mbl.is á föstudag, og vísað í umsögn Viðskiptaráðs við sömu áform stjórnvalda, að nemendur úr ákveðnum grunnskólum standi sig betur á könnunarprófi Verzlunarskóla Íslands, í samanburði við nemendur annarra grunnskóla, jafnvel þótt einkunnir þeirra séu þær sömu við útskrift úr grunnskóla.

Þannig fari það eftir búsetu barna, eða hverfisskóla þeirra, hvort þau eigi meiri möguleika á að komast inn í eftirsótta framhaldsskóla eður ei.

Björg leggur áherslu á að samræmdar mælingar séu nauðsynlegar á þessu veigamikla skólastigi.

„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að einhver samræmd mæling fari fram innan grunnskólakerfisins á Íslandi,“ skrifar hún.

„Það auðveldar skólayfirvöldum að veita skólum faglegan stuðning við hæfi sem er um leið ein forsenda jafnréttis til náms óháð búsetu.“

mbl.is