Háönn ferðaþjónustunnar virðist vera talsvert lakari en búist var við í vor og líklegt er að ferðamenn í ár verði færri en í fyrra. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.
Háönn ferðaþjónustunnar virðist vera talsvert lakari en búist var við í vor og líklegt er að ferðamenn í ár verði færri en í fyrra. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.
Háönn ferðaþjónustunnar virðist vera talsvert lakari en búist var við í vor og líklegt er að ferðamenn í ár verði færri en í fyrra. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.
„Það gæti leitt til minni hagvaxtar, minnkað líkur á styrkingu krónu, hraðað kólnun hagkerfisins og dregið úr spennu á vinnumarkaði fyrr en áður var talið.“
Ekki er vitað fyrir víst hvaða áhrif fækkun ferðamanna mun hafa á verðbólgu en til skemmri tíma gæti veikari króna leitt til heldur meiri innfluttrar verðbólgu en gert var ráð fyrir í vorspá Íslandsbanka. Minni spenna í hagkerfinu og hagfelldari verðbólguhorfur til meðallangs tíma gætu þó orðið til þess að stýrivextir lækkuðu hraðar en búist var við í vorspánni.
Samkvæmt greiningu Íslandsbanka kemur fram að erlendum ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um níu prósent milli ára í júní. Um 212 þúsund erlendir farþegar fóru um flugvöllinn í mánuðinum og voru nær fjórir af hverjum tíu frá Bandaríkjunum. Samt sem áður fækkaði ferðamönnum þaðan um tæpan fimmtung á milli ára. Næstu þjóðerni þar á eftir voru Þjóðverjar, Bretar, Pólverjar og Kanadamenn.
Þrátt fyrir eldsumbrot á Reykjanesinu fjölgaði ferðamönnum á fyrsta ársfjórðungi um tæp níu prósent frá sama tíma í fyrra. Önnur var sagan á öðrum ársfjórðungi, en heimsóknum ferðamanna fækkaði um fimm prósent frá sama tímabili í fyrra.
„Ferðamenn í júní voru einnig umtalsvert færri en bankinn hafði spáð í nýlegri þjóðhagsspá sem birtist í maí síðastliðnum,“ kemur fram í greiningu bankans, en Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, tók saman það helsta.
Frá áramótum hafa 963 þúsund farþegar farið um Keflavíkurflugvöll, sem jafngildir fjölgun um aðeins eitt prósent milli ára. Dvalartími ferðamanna virðist vera að styttast og hafa þá tekjur af þeim sömuleiðis að jafnaði verið að dragast saman.
Fækkandi ferðamönnum fylgja minni ferðamannatekjur og getur það haft áhrif á horfur um vöxt útflutnings, hagvöxt, viðskiptajöfnuð, gengi krónunnar, fjölda starfa á vinnumarkaði svo fátt eitt sé nefnt. Greining Íslandsbanka hefur fært hagvaxtarspá sína fyrir árið niður í 0,4 prósent úr 0,9 prósentum.
Við greiningu sína notaðist Íslandsbanki við uppfærða spá Ferðamálastofu. Miðað við spá Ferðamálastofu fækkar ferðamönnum í ár um tvö prósent frá því í fyrra, en Greining Íslandsbanka hafði spáð fyrir um ríflega fjögurra prósenta fjölgun. Nú hafa komið fram sterkar vísbendingar um að ferðamönnum hingað til lands muni ekki fjölga í ár og fækkun milli ára nokkuð líkleg.
Bankinn telur líklegt að færri störf verði í boði seinni hluta árs í ferðaþjónustugeiranum þar sem fjöldi starfa helst í hendur við fjölda ferðamanna.
Fækkun starfa geti á endanum leitt til þess að samdráttur verði í fólksflutningum til Íslands og þar með eftirspurnarþrýstingi á íbúðamarkaði. Þá telur bankinn líklegt að eftirspurn á íbúðamarkaði gæti minnkað vegna tilfærslu íbúðaframboðs frá skammtímaleigu í langtímaleigu eða sölu.