Joe Biden, fullu nafni Joseph Robinette Biden, 46. forseti Bandaríkjanna á merkilegan feril að baki í stjórnmálum.
Joe Biden, fullu nafni Joseph Robinette Biden, 46. forseti Bandaríkjanna á merkilegan feril að baki í stjórnmálum.
Joe Biden, fullu nafni Joseph Robinette Biden, 46. forseti Bandaríkjanna á merkilegan feril að baki í stjórnmálum.
Hann hefur nú ákveðið að draga framboð sitt til forseta til baka og sækist því ekki eftir endurkjöri.
Hann tók við embætti forseta 20. janúar 2021 og hefur embættisdvöl hans einkennst af heimsfaraldri, stríði í Úkraínu og Miðausturlöndum, verðbólgu, átökum við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, umræða um aldur hans og viðskiptabrask Hunter Bidens, sonar hans.
Sem forseti hefur hann státað sig af ýmsu eins og því að NATO hafi stækkað, aðgerðum vegna loftslagsbreytinga, uppbyggingu innviða, stuðning við Úkraínu og fyrir að hafa komið bandaríska hagkerfinu aftur af stað eftir heimsfaraldurinn.
Samkvæmt mælingum Gallup er Joe Biden búinn að vera einn óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá því að mælingar hófust árið 1956 en sjálfur hefur hann gert lítið úr skoðanakönnunum.
Hann var í 36 ár öldungadeildarþingmaður fyrir heimaríki sitt, Delaware, og sat í og gegndi formennsku í ótal ráðum og nefndum.
Ævinlega hefur hann verið óðfús að bjóða sig fram til frekari embætta og sóttist þrisvar eftir tilnefningu flokks síns til forsetaembættisins, 1988, 2007 og árið 2020.
Fyrstu tvö skiptin ákvað hann að draga framboð sitt til baka en í þriðja skiptið fékk hann tilnefninguna eftir harða baráttu Við Bernie Sanders og fleiri demókrata.
Mætti hann Donald Trump og sigraði í æsispennandi kosningum.
Joe Biden hefur verið þekkt andlit í bandarískum stjórnmálum í áratugi, hagvanur í Washington og hefur átt samskipti við háttsetta embættismenn og þjóðhöfðingja um allan heim.
Á þingferlinum var honum jafnan lýst sem líflegum og baráttuglöðum pólitíkus, áhrifamiklum ræðumanni, að vísu fullorðmörgum og með tilhneigingu til að koma klaufalega fyrir sig orði, alþýðlegum en þó myndugum mjög.
Sem forseti virðist aldurinn hafa náð honum en hann hefur gert mörg mistök í ræðuhöldum eins og að tafsa, segja vitlausa hluti, gleyma og blanda saman nöfnum og fleira.
Biden, sem er elstur fjögurra systkina, var tíu ára þegar foreldrar hans; móðir af írskum uppruna og faðir af enskum, ákváðu að flytjast búferlum með börn sín frá Pennsylvaníu til Claymont í Delaware, þar sem atvinnuhorfur voru vænlegri.
Föðurfjölskylda hans hafði verið vellauðug, en tapað öllu sínu og því var tími pólóleikja og snekkjusiglinga Josephs eldri löngu liðinn þegar hann fékk starf sem bílasali í New Castle-sýslu og fjölskyldan festi rætur í Delaware. Þau töldust til millistéttarinnar þótt fátæk væru.
Biden stamaði mikið sem barn og unglingur en tókst að ná tökum á vandanum með því að æfa sig löngum stundum í ljóðalestri fyrir framan spegil.
Hann var slakur námsmaður, latur að eigin sögn, en góður í íþróttum og sjálfskipaður leiðtogi nemenda í Archmere Academy-framhaldsskólann í Claymont, þaðan sem hann útskrifaðist 1961. Ekki tók hann sig á svo heitið gæti þegar í Delaware-háskólann var komið, var 506. í röðinni af 688 nemendum, sem útskrifuðust með BA í sögu og stjórnmálafræði 1965.
Því var ekki úr háum söðli að detta þegar hann varð 76. af 85 við útskrift úr Syracuse-lagaháskólanum í New York 1968.
Fyrsta árið hafði ekki verið gæfulegt því Biden var sakaður um ritstuld úr lagatímariti í prófi. Óviljandi, sagði hann, og bar við að sér hefði ekki verið kunnugt um reglur um tilvitnanir. Hann fékk F, en var leyft að taka önnina aftur og F-ið var látið niður falla. Geymt en þó ekki gleymt, eins og nú hefur komið á daginn.
Á sjöunda áratugnum fékk Biden fimm sinnum frestun á herkvaðningu, í fyrsta skipti 1963 og síðasta 1968 þegar Víetnamstríðið stóð sem hæst og staða hans var endurskoðuð. Honum var hafnað á þeirri forsendu að hann þjáðist af asma sem unglingur.
Biden kveðst hvorki hafa tekið þátt í andófi gegn stríðinu né skrýðst upplituðum hippabol, heldur verið upptekinn af borgaralegum gildum svo sem hjónabandi sínu og laganámi.
Hann hafði kvænst Neilia Hunter 1966. Þau eignuðust þrjú börn á þremur árum, 1969-1971 og allt virtist ganga þeim í haginn.
Að námi loknu hóf Biden störf sem lögfræðingur í Wilmington og var fljótlega kosinn í sveitarstjórn New Castle-sýslu og sat þar til 1972 þegar hann, mörgum til undrunar, vann sæti Delaware í öldungadeildinni. Hann hafði háð kosningabaráttuna af vanefnum, en með góðan málstað; lagt áherslu á brottflutning hermanna frá Víetnam, umhverfismál, mannréttindi og „breytingar“.
Hin, unga og geðþekka fjölskylda er sögð hafa átt sinn þátt í sigrinum, auk eldmóðs hans sjálfs og hæfileika til að ná til kjósenda.
En fljótt skipast veður í lofti. Hinn 18. desember sama ár lentu eiginkona hans og börn í alvarlegu bílslysi sem dró hana og nokkurra mánaða dóttur þeirra til dauða. Þótt sonunum tveimur væri vart hugað líf náðu þeir að lokum fullum bata.
Biden íhugaði að afsala sér sæti sínu í öldungadeildinni til að geta annast drengina, en lét undan fortölum og sór embættiseið sinn við sjúkrabeð þeirra 3. janúar 1973, aðeins þrítugur að aldri.
Eins og alsiða er í Bandaríkjunum gekk maður undir manns hönd að reyna að para einhleypt fólk saman. Biden kynntist Jill Tracy Jacobs, kennara frá Pennsylvaníu, á „blindu stefnumóti“, sem bróðir hans hafði komið á. Þau giftust 1977 og eignuðust dóttur 1981.
Joseph R. „Beau“ Biden, annar sonur Joe Bidens, lést svo árið 2015 eftir baráttu við krabbamein í heila.
Biden er trúrækinn maður og hefur sagt að kaþólska trú hans hafi hjálpað honum í gegnum þessa miklu harmasögu.
Tæpast er hægt að fjalla um Biden án þess að nefna aðkomu hans að tveimur sögufrægustu yfirheyrslum bandarísku dómsmálanefndarinnar yfir tilnefndum hæstaréttardómurum.
Annars vegar 1987, skömmu fyrir veikindin, þegar hann stjórnaði yfirheyrslum yfir Robert Bork, íhaldskurfi miklum að mati Edwards Kennedys og fleiri frjálslyndra demókrata, sem fordæmdu Bork harðlega. Honum var hafnað en Biden hampað fyrir að komast lipurlega frá verkefninu.
Hins vegar 1991 þegar Clarence Thomas var tilnefndur í embættið, en hann var ásakaður um að hafa áreitt fyrrverandi samstarfskonu sína, Anitu Hill, kynferðislega.
Yfirheyrslan var í beinni útsendingu á öllum stærri sjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna og þótti farsakennd. Til þess var tekið að Biden var stundum svo orðmargur að Thomas var búinn að steingleyma spurningunni þegar hann loks þagnaði.
Þótt margir stæðu með Thomas var afar umdeilt þegar Biden staðfesti tilnefningu hans í embætti hæstaréttardómara, sérstaklega urðu femínistar æfir. Thomas gegnir embættinu enn þá.
Hann var varaforseti Barack Obama og þótti nokkuð vinsæll meðal almennings.
Aldrei hefur almennilega legið fyrir hversu gott samband þeirra félaga var og hafa margir kunnugir sagt að Obama hafi beðið Biden um að víkja fyrir Hillary Clinton fyrir forsetakosningarnar 2016.
Á það ekki að hafa fallið vel í kramið hjá Biden.