Svona voru síðustu dagarnir: „Ég þarf viku“

Joe Biden Bandaríkjaforseti | 23. júlí 2024

Svona voru síðustu dagarnir: „Ég þarf viku“

Joe Biden var opinberlega staðráðinn í því að halda kosningabaráttu sinni áfram allt þar til hann tilkynnti á Twitter að hann myndi draga sig í hlé.

Svona voru síðustu dagarnir: „Ég þarf viku“

Joe Biden Bandaríkjaforseti | 23. júlí 2024

Joe Biden lýsti framboði sínu loknu sunnudaginn 21. júlí.
Joe Biden lýsti framboði sínu loknu sunnudaginn 21. júlí. AFP

Joe Biden var opinberlega staðráðinn í því að halda kosningabaráttu sinni áfram allt þar til hann tilkynnti á Twitter að hann myndi draga sig í hlé.

Joe Biden var opinberlega staðráðinn í því að halda kosningabaráttu sinni áfram allt þar til hann tilkynnti á Twitter að hann myndi draga sig í hlé.

Síðustu dagar baráttunnar benda þó til þess að hann hafi hugsað málið í einhvern tíma áður en hann tók í gikkinn.

Fréttastofan Associated Press gerir þessum dögum skil í dag.

Laugardaginn 13. júlí, átta dögum áður en Biden hætti í framboði, fór Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, í heimsókn til Bidens í Delaware þar sem mennirnir ræddu stöðuna. Schumer kvaðst koma til hans sem vinur sem er annt um hann. 

Féllust í faðma

Schumer hafði nokkrum dögum á undan rætt við Barack Obama, Nancy Pelosi og Hakeem Jeffries, leiðtoga demókrata í fulltrúadeildinni.

Á gamla samlokusímanum sínum hafði Schumer hringt í nær alla öldungadeildarþingmenn flokksins og tekið á þeim púlsinn.

Á fundinum með Biden talaði Schumer samt sem áður ekki fyrir hönd allra þingmanna demókrata, en þó margra.

Hann bað Biden um að íhuga hvað myndi gerast hjá demókrötum á Bandaríkjaþingi ef hann héldi áfram í framboði, hvað myndi gerast í Hæstarétti ef Trump yrði aftur forseti og hvað yrði um arfleifð hans.

„Ég þarf viku,“ á Biden að hafa sagt við Schumer og svo féllust þeir í faðma.

Chuck Schumer.
Chuck Schumer. AFP/Anna Moneymaker

Trúnaðarmenn ræddu við hann sorgmæddir

Einstaklingur sem þekkir til fundarins og þess sem þar fór fram lýsti þessu við AP gegn nafnleynd.

Aðrir sem ræddu við AP og voru nánir forsetanum síðustu daga framboðsins segja að hann hafi leitað allra kosta til þess að halda framboðinu á lífi.

Um síðustu helgi – jafnvel örfáum dögum fyrr – var þó alvarleg staða framboðsins orðin ljós. Skoðanakannanir voru neikvæðar og illa gekk að safna peningum.

Þá heyrði forsetinn lítið annað en sorgmæddar raddir þeirra sem hann bar mesta virðingu fyrir og hafði unnið með áratugum saman.

Fundaði með innsta hring á laugardaginn

Einn náinn honum segir að Biden hafi fundað með fjórum af sínum nánustu ráðgjöfum á laugardaginn og um kvöldið hafi hann nálgast niðurstöðu.

Á sunnudaginn gerðust hlutirnir hratt. Hann heyrði í einum af sínum nánustu vinum á Bandaríkjaþingi, Jim Clyburn, og lét hann vita að hann myndi draga framboð sitt til baka.

Biden átti mörg samtöl við Kamölu Harris þann dag og varði hún sjálf 10 klukkustundum í símanum að hringja í þungavigtarmenn og þingmenn í flokknum til að tryggja stuðning við sig.

Hún vissi að stuðningsyfirlýsing frá Biden væri þýðingarmikil en hún þurfti líka að tryggja stuðning annarra á eigin spýtur.

Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna.
Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna. AFP/Erin Schaff

Fengu mínútu fyrirvara

Þennan sunnudagsmorgun voru fulltrúar forsetans á sjónvarpsstöðvum að fullvissa þjóðina um að hann myndi áfram sækjast eftir endurkjöri. 

Klukkan 13.45 að staðartíma lét hann samt aðra ráðgjafa, sem voru ekki í allra innsta hring, vita að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Einni mínútu síðar birtist færsla hans á Twitter þar sem hann lét heiminn vita að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Skömmu síðar lýsti hann yfir stuðningi við Kamölu Harris.

mbl.is