Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, hefur opnað dyrnar að glæsilegu hóteli á Reynivöllum í Hornafirði, rétt hjá sínum heimahögum.
Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, hefur opnað dyrnar að glæsilegu hóteli á Reynivöllum í Hornafirði, rétt hjá sínum heimahögum.
Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, hefur opnað dyrnar að glæsilegu hóteli á Reynivöllum í Hornafirði, rétt hjá sínum heimahögum.
Hótel Jökulsárlón hefur verið í bígerð um nokkurt skeið vegna hindrana á borð við heimsfaraldur og skipulagsvandamál en Skúli, sem er ættaður af svæðinu keypti jörðina árið 2015 ásamt frænda sínum.
„Pabbi er alinn upp hérna á Leiti í í Suðursveit,“ segir Skúli sem er í dag skráður til heimilis á svæðinu og kveðst verja meiri og meiri tíma í sveitinni.
Aðspurður segir hann sér þó ekki hugnast að stofna til búskapar á svæðinu en frændi hans, sem reki annað minna gistiheimili á svæðinu, sé með kindur, sem séu orðnir tíðir gestir við hótelið, gestum til mikillar kæti.
„Það eina sem maður hefur kannski ekki húmor fyrir er að þurfa að tína rolluskítinn af bílaplaninu,“ segir Skúli og hlær, „en það fylgir.“
Ættarsaga Skúla er svo sannarlega rauði þráðurinn á hótelinu sem mætti kalla eins konar óð til fjölskyldunnar. Stærðarinnar traktor mætir gestum í anddyri hótelsins en hann var áður í eigu afa hans, Skúla Björgvins Sigfússonar.
Á vegg ekki fjarri traktornum má sjá Skúla eldri á traktornum ásamt fjórum börnum, en Skúli segir myndina hafa verið tekna fyrir tímarit árið 1968. Með tímanum muni fleiri myndir úr sveitarfélaginu frá síðustu öld prýða veggi hótelsins.
„Þannig að ég lét gera traktorinn upp og er með originalinn hérna,“ segir Skúli og kinkar kolli að traktornum.
Hann hafi staðið óhreyfður á gamla bænum síðan 1977 og verið orðinn ansi lúinn er Skúli tók við honum. Það hafi aftur á móti komið á óvart að tækið hrökk strax í gang er kveikt var á því. Það hafi þó verið hinsta ferð tækisins sem fái héðan í frá að standa til skrauts.
Veitingastaður hótelsins ber nafnið Gunna á Leiti með vísan til ömmu Skúla. Aðspurður segir hann matseldina þó ekki alveg þá sömu og í eldhúsi ömmu Gunnu, þótt vissulega sé íslenskur fiskur og lamb á boðstólum.
Bar hótelsins á fyrstu hæð kallast sömuleiðis Neðribar og dregur nafn sitt af frænda Skúla Gunnari á Neðribæ. Setustofuna kallar Skúli fjárhúsið vegna stólanna sem kona hans og innanhússhönnuðurinn völdu, sem minna óneitanlega á kindur.
Hótelið opnaði dyr sínar í lok júní en opnunin hefur verið mjúk að sögn Skúla þar sem enn átti eftir að klára nokkur herbergi. Alls eru herbergin 120 talsins, þar af átta svítur, en hótelið sjálft er um 6.000 fermetrar. Hann búist við því að hótelið verði opnað að fullu innan nokkurra vikna þegar framkvæmdum á útisvæðinu verði lokið.
Þar sé unnið að því að koma upp heitum pottum og sánu auk lítillar tjarnar sem þeir hafi grafið fyrir, sem Öræfajökull speglist í á góðviðrisdögum.
„Það er svo há grunnvatnsstaðan hérna. Við boruðum fyrir vatni hérna við hótelið og það er næstum því nægt vatn til þess að sjá Selfossi fyrir köldu vatni. Þegar við gröfum aðeins niður þá bara kemur vatnið upp og þess vegna gátum við búið til þessa tjörn.“
Hótelið er hannað af arkitektastofunni Batteríinu og innréttað af innanhússhönnuðinum Snædísi Bjarnadóttur en Skúli segir konu sína og dætur einnig hafa tekið virkan þátt í hönnuninni. Ásamt ljósmyndunum og traktornum má sömuleiðis finna ýmsa gamla muni sem Skúli hefur safnað í gegnum árin og nú loks fundið stað sem skrautmunum.
Hann segir móttökur gesta sem og nærsamfélagsins hafa verið afar góðar fram til þessa, þó svo að eflaust hafi einhverjir ekki verið par sáttir þegar þeir fyrst fréttu af áformum um hótelið.
„Það höfðu sumir áhyggjur í byrjun af því að það ætti að byggja 120 herbergja hótel hérna í sveitinni – skiljanlega. Bjuggust kannski við einhverri glerhöll eða gámahóteli, en fólk er bara rosalega ánægt með hvað þetta fellur vel inn í landslagið og ber lítið á þessu,“ segir Skúli og bendir á að varla megi finna beina línu í húsinu heldur séu allar línur mjúkar eða bogadregnar.
„Ég var aldrei að fara byggja glerhöll eða gámahótel. Eða einhvern kassa, það bara kom aldrei til greina. Ég lagði strax upp með það frá byrjun við arkitektana og pantaði hótel í burstabæjarstíl, og þeir hönnuðu það.“