Fátt sem toppar „cinnabon“ snúða uppi í hesthúsi

Uppskriftir | 27. júlí 2024

Fátt sem toppar „cinnabon“ snúða uppi í hesthúsi

Ragnheiður Stefánsdóttir er Skagakona í húð og hár sem heldur úti samfélagsmiðlinum Matarlyst á TikTok, Instagram og Facebook, en þar deilir hún girnilegum uppskriftum af ýmsum toga.

Fátt sem toppar „cinnabon“ snúða uppi í hesthúsi

Uppskriftir | 27. júlí 2024

Ragnheiður Stefánsdóttir deilir ljúffengri „cinnabon“ snúðauppskrift með lesendum!
Ragnheiður Stefánsdóttir deilir ljúffengri „cinnabon“ snúðauppskrift með lesendum! Samsett mynd

Ragnheiður Stefánsdóttir er Skagakona í húð og hár sem heldur úti samfélagsmiðlinum Matarlyst á TikTok, Instagram og Facebook, en þar deilir hún girnilegum uppskriftum af ýmsum toga.

Ragnheiður Stefánsdóttir er Skagakona í húð og hár sem heldur úti samfélagsmiðlinum Matarlyst á TikTok, Instagram og Facebook, en þar deilir hún girnilegum uppskriftum af ýmsum toga.

„Ég hef frá því ég man eftir mér haft áhuga á því að dúllast í eldhúsinu og veit fátt skemmtilegra en að halda kaffiboð eða fá gesti í mat. Ég legg mikla áherslu á að huga vel að eigin heilsu með því að stunda líkamsrækt af ýmsum toga og einnig að því hvað ég borða, því vel ég að elda allt frá grunni og baka. Það er bara svo miklu ljúffengara og eitthvað svo notalegt, þó svo það sé að sjálfssögðu undantekning á þessu af og til,“ segir Ragnheiður. 

Ragnheiður heldur úti samfélagsmiðlinum Matarlyst þar sem hún deilir uppskriftum.
Ragnheiður heldur úti samfélagsmiðlinum Matarlyst þar sem hún deilir uppskriftum.

Ásamt því að verja miklum tíma í eldhúsinu stundar Ragnheiður hestamennsku af kappi. „Ég hef stundað hestamennsku frá 13 ára aldri og er það líf mitt og yndi ásamt því að verja tíma með fjölskyldu og vinum. Hestamennskan er skemmtilegt sport og er afskaplega gefandi. Ég og pabbi erum með fimm hesta á húsi þannig að það er nóg að gera. Svo var ég að klára reiðmanninn 2 núna í vor, það nám hefur verið afar eflandi og er stórskemmtilegt, ég mæli svo sannarlega með því fyrir alla þá sem stunda hestamennsku,“ bætir hún við. 

Oftar en ekki tekur Ragnheiður kræsingar með sér upp í hesthús og býður vinum sínum að renna við og fá sér kaffi með því. „Ég elska til dæmis að sansa snúða í ýmsum útfærslum, hvort sem þeir eru djúpsteiktir, eða með ýmiskonar fyllingu. „Cinnabon snúðar“ með djúsí fyllingu og rjómaostakremi eru í miklu uppáhaldi. Þeir eru lungamjúkir og ljúffengir með djúsí fyllingu,“ segir Ragnheiður og deilir hér slíkri uppskrift með lesendum matarvefs mbl.is.

Ragnheiður veit fátt betra en að taka gómsætar kræsingar með …
Ragnheiður veit fátt betra en að taka gómsætar kræsingar með sér upp í hesthús.

„Cinnabon“ snúðar með rjómaostakremi

Snúðadeig

Hráefni:

700 g hveiti

1 ½ tsk. salt

4 tsk. þurrger

80 g sykur

4 dl volgt vatn (jafnvel aðeins rúmlega)

1 dl majónes

Mjólk eða rjómi til að hella ofan í formið (magn fer eftir stærð á formi, miðað er við að mjólkin nái upp ¼ af forminu)

Fylling

Hráefni:

320 g smjör við stofuhita

225 g púðursykur

4 msk. kanill

Rjómaostakrem

Hráefni:

60 g smjör

4 dl flórsykur

5 msk. rjómaostur

2 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Setjið þurrefnið fyrir snúðadeigið saman í hrærivélarskál og blandið aðeins saman með króknum. 
  2. Bætið við vatni og majónesi og vinnið vel saman með króknum í u.þ.b. 3-4 mínútur. Ef deigið er aðeins blautt bætið þá örlitlu hveiti út í og vinnið áfram um stund.
  3. Látið hefast í 30 mínútur. Takið svo deigið úr skálinni og fletjið út.
  4. Útbúið fyllinguna með því að blanda smjöri, púðursykri og kanil vel saman í skál. Smyrjið ¾ af fyllingunni yfir deigið, rúllið upp í lengju, skerið í hæfilega stóra snúða.
  5. Hitið ofninn í 180 gráður og blástur.
  6. Smyrjið eitt stórt eða tvö minni eldföst mót að innan með ca. ¼ af fyllingunni, setjið snúðana ofan í, hellið mjólk eða rjóma í formið þannig að það nái ¼ upp í formið. Látið snúðana síðan hefast í 30 mínútur.
  7. Bakið snúðana í ca. 20-25 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gullin brúnir. Gott er að setja álpappír yfir snúðana ef þeir fara að dökkna mikið.
  8. Látið snúðana standa um stund eftir að þeir eru teknir úr ofninum.
  9. Útbúið á meðan rjómaostakremið með því að blanda saman smjöri, flórsykri, rjómaosti og vanilludropum í hrærivélaskál og hræra í u.þ.b. 3 mínútur. Smyrjið kreminu svo ofan a snúðana þegar þeir hafa kólnað. 

 „Ef eitthvað af snúðum er afgangs, þ.e. ef þið notið eitt frekar lítið eldfast form, þá mæli ég með að þið raðið restinni af snúðunum á bökunarpappír og látið þá hefast þar, þar til „cinnabon“ snúðakakan er klár. Þeir verða svo góðir eftir svona langa hefun,“ segir Ragnheiður.

„Eftir að þið takið „cinnabon“ snúðakökuna út úr ofninn hitið þið hann upp í 220 gráður og blástur og bakið afgangs snúðana síðan í u.þ.b. 9-12 mínútur. Gott er að setja þá snúða sem ekki borðast í poka og frysta, þeir eru fljótir að þiðna og eru ferlega góðir,“ bætir hún við. 

Snúðarnir fá bragðlaukana til að dansa!
Snúðarnir fá bragðlaukana til að dansa!
mbl.is