Selja samanbrotnar pitsur á Laugavegi

Veitingastaðir | 31. júlí 2024

Selja samanbrotnar pitsur á Laugavegi

Nýjasta viðbótin í veitingaflóruna í miðborg Reykjavíkur er pitsuvagninn Pizza Port sem er að finna við Laugaveg 48. Þar standa vaktina tveir ungir menn og reiða fram súrdeigspitsur sem bakaðar eru í Ooni-pitsaofnum sem notið hafa mikilla vinsælda síðustu misseri.

Selja samanbrotnar pitsur á Laugavegi

Veitingastaðir | 31. júlí 2024

Emil Bjartur á vaktinni í portinu við Laugaveg 48. Þar …
Emil Bjartur á vaktinni í portinu við Laugaveg 48. Þar skín sólin fram á kvöld að hans sögn. mbl.is/Eyþór

Nýjasta viðbótin í veitingaflóruna í miðborg Reykjavíkur er pitsuvagninn Pizza Port sem er að finna við Laugaveg 48. Þar standa vaktina tveir ungir menn og reiða fram súrdeigspitsur sem bakaðar eru í Ooni-pitsaofnum sem notið hafa mikilla vinsælda síðustu misseri.

Nýjasta viðbótin í veitingaflóruna í miðborg Reykjavíkur er pitsuvagninn Pizza Port sem er að finna við Laugaveg 48. Þar standa vaktina tveir ungir menn og reiða fram súrdeigspitsur sem bakaðar eru í Ooni-pitsaofnum sem notið hafa mikilla vinsælda síðustu misseri.

„Við fengum bullandi pitsudellu í covid. Okkur langaði alltaf að gera eitthvað svona saman og ákváðum síðasta sumar að kýla á það. Síðan þá höfum við unnið að undirbúningi og nú er þetta komið af stað,“ segir Emil Bjartur Sigurjónsson. Hann og félagi hans Eiríkur Atli Karlsson hafa haft í nógu að snúast síðan vagninn var opnaður fyrir mánuði.

mbl.is/Eyþór

Pitsurnar eru Napólí-pitsur úr súrdeigi og hægt er að velja úr nokkrum tegundum af matseðli. Athygli vekur að viðskiptavinurinn fær pitsuna brotna saman nema hann kjósi að kaupa sér pitsukassa á 100 krónur.

„Þetta er vinsælt í Napólí. Okkur fannst það sniðug hugmynd að geta labbað niður Laugaveginn með pitsuna brotna saman. Það er svona 50/50 hvort fólk tekur pitsurnar þannig eða kaupir kassa,“ segir Emil.

Þetta framtak þeirra félaga er í takt við þróun víða erlendis þar sem svokallaðir pop up-pitsastaðir hafa notið mikilla vinsælda. Í borgum eins og New York nýta margir sér færanlega pitsuofna til að selja pitsur á mörkuðum og mannamótum. Sú þróun hófst einmitt á covid-tímanum þegar samkomutakmarkanir ýttu fólki út í að prófa nýja hluti.

mbl.is/Eyþór

Emil og Eiríkur festu kaup á gömlu pulsuvagni, rifu allt út úr honum og innréttuðu upp á nýtt. „Hann er lítill en hann virkar. Við reynum að gera þetta eins einfalt og við mögulega getum. Við erum mjög sáttir við ofnana, þeir gera allt sem við þurfum,“ segir Emil.

Framtíðin er óráðin en þeir stefna á að hafa vagninn eitthvað opinn á kvöldin næsta vetur. Þá eru þeir opnir fyrir því að mæta með pitsurnar í veislur.

Fréttin birtist í Morgunblaðinu 23. júlí

mbl.is