Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segist hafa látið út úr sér orð sem hefðu betur verið ósögð en stendur fastur á því að standa þurfi vörð um íslenskt samfélag og gildi þess.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segist hafa látið út úr sér orð sem hefðu betur verið ósögð en stendur fastur á því að standa þurfi vörð um íslenskt samfélag og gildi þess.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segist hafa látið út úr sér orð sem hefðu betur verið ósögð en stendur fastur á því að standa þurfi vörð um íslenskt samfélag og gildi þess.
Hann segist glaður áminna sjálfan sig en að ekki sé tilefni að slík áminning komi frá yfirmanni hans eða ráðherra.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem Helgi birti í dag. Með færslunni birtir hann myndband þar sem hann sýnir útsýni úr fjallshlíð á Vestfjörðum.
Færslan hefst á orðunum: „Í mínum huga eru Arnarfjörður og Dýrafjörður nafli alheimsins. Það finnst a.m.k. sveitadurginum mér sem líklega hefði nú mátt skóla betur til í mannlegum samskiptum. Er klárlega mannlegur. Kannski um of – eða hvað? Ég hef látið orð út úr mér sem hefðu átt að vera ósögð. En gerðum hlutum verður ekki breytt. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekkert sem ég hef sagt sem kastar rýrð á störf mín sem vararíkissaksóknari.“
Ríkissaksóknari, Sigríður J. Friðjónsdóttir, leysti Helga tímabundið frá störfum í vikunni en hún segir Helga ekki hafa bætt ráð sitt eftir áminningu sem hann fékk fyrir tveimur árum vegna ummæla sinna á opinberum vettvangi.
Segist Helgi standa fastur á því að mannlegt sé að ljúga sér til bjargar þegar neyðin er mikil.
Ætla má að þar vísi Helgi í ummæli sín um flóttafólk og samkynhneigða karlmenn frá árinu 2022 en þá sagði hann á Facebook:
„Auðvitað ljúga þeir. Flestir koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar? Þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?“
Samtökin '78 kærðu ummælin og veitti ríkissaksóknari Helga áminningu í kjölfarið. Sú áminning var hluti ástæðu þess að ríkissaksóknari leysti Helga tímabundið frá störfum.
„Ég stend líka fastur á því að í dómsmálum eigi báðar raddir að fá að heyrast og að opinberir starfsmenn séu ekki án alls tjáningarfrelsis. Enn fastar stend ég á því að við þurfum að standa vörð um íslenskt samfélag og gildi þess. Hefði ég mátt orða hlutina öðruvísi? Já mögulega,“ segir í færslu Helga.
Hann lýkur henni á að tala um að tilgangur lífsins sé að viðurkenna lesti sína en að það sé ekki hlutverk yfirmanna hans eða ráðherra.
„Glaður skal ég áminna mig sjálfan en tilefni er ekki til þess að slík áminning komi frá yfirmanni mínum eða ráðherra. Það er lífsins gangur að viðurkenna lestina sína, vinna í þeim og halda áfram. Meira getur enginn einstaklingur gert. Tek mitt á mig.“