Undirsátar Írans heita hefndum

Ísrael/Palestína | 1. ágúst 2024

Undirsátar Írans heita hefndum

Undirsátar Írans í Mið-Austurlöndunum heita hefndum gegn Ísrael eftir að leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Hamas og háttsettur leiðtogi í Hesbolla-hryðjuverkasamtökunum voru felldir.

Undirsátar Írans heita hefndum

Ísrael/Palestína | 1. ágúst 2024

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hótar því að refsa …
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hótar því að refsa Ísrael fyrir drápið á leiðtoga Hamas. AFP/Khameini.ir

Undirsátar Írans í Mið-Austurlöndunum heita hefndum gegn Ísrael eftir að leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Hamas og háttsettur leiðtogi í Hesbolla-hryðjuverkasamtökunum voru felldir.

Undirsátar Írans í Mið-Austurlöndunum heita hefndum gegn Ísrael eftir að leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Hamas og háttsettur leiðtogi í Hesbolla-hryðjuverkasamtökunum voru felldir.

Undirsátar Írans í Mið-Austurlöndunum eru meðal annars Hamas í Palestínu, Hisbollah í Líbanon, uppreisnarhópur Húta í Jemen ásamt nokkrum hryðjuverkahópum í Írak sem eru hluti af bandalagi sem gengur undir nafninu „Íslömsk andspyrna“.

Þeirra á meðal er íraski hryðjuverkahópurinn Al-Nujaba sem hefur gefið út yf­ir­lýs­ingu þar sem meðal ann­ars kemur fram að „síon­ist­ar og Banda­ríkja­menn hafi opnað dyr hel­vít­is“.

Hútar hóta hernaðaraðgerðum

Abdul Malik al-Huthi, leiðtogi Húta, sagði í ræðu í dag að farið yrði í hernaðaraðgerðir gegn Ísrael eftir að Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, var drepinn í Tehran, höfuðborg Írans.

„Það verður að vera hernaðarlegt svar við þessum glæpum, sem eru skömmustulegir og hættulegir og eru meiriháttar stigmögnun af hálfu Ísraels,“ sagði Malik.

Hútar eru studdir af klerkastjórninni í Íran og hafa stundað ítrekaðar árásir á flutningaskip í Rauðahafi, sem þeir segjast gera til stuðnings Palestínumanna, frá því að stríðið á milli Hamas og Ísraels hófst 7. október. Í síðasta mánuði lést einn Ísraeli í drónaárás Húta á Tel Avív í Ísrael.

Han­iyeh var skil­greind­ur sem hryðju­verkamaður af Banda­ríkj­un­um og alþjóðlegi glæpa­dóm­stóll­inn gaf út hand­töku­skip­un á hendur hon­um fyr­ir stríðsglæpi og glæpi gegn mann­kyn­inu vegna hryðju­verka Ham­as í Ísra­el 7. októ­ber, þar sem um 1.200 manns voru myrt­ir og um 250 manns tekn­ir gísl­ingu.

Hisbollah ætla að veita „alvöru svar“

Á dögunum felldi Ísraelsher einnig Fuad Shukr sem hef­ur leitt aðgerðir Hisbollah gegn Ísra­el í suður Líb­anon, hvar Hesbolla hef­ur ít­rekað stundað árás­ir á Ísra­el síðan 7. októ­ber.

Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah, sagði í dag að Hesbolla myndi svara Ísraelum fyrir að hafa fellt Shukr og sagði Ísrael hafa farið yfir strikið.

Hann varaði við því að Hesbolla myndi veita „alvöru svar, ekki táknrænt“.

Íranir hóta „hörðum refsingum“

Þá hefur Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hótað „hörðum refsingum“ gegn því að Haniyeh hafi verið felldur í Tehran.

„Með þess­ari aðgerð und­ir­bjó glæpa- og hryðju­verka­stjórn síon­ista grunn­inn að hörðum refs­ing­um fyr­ir sig og við telj­um það skyldu okk­ar að leita hefnda fyr­ir blóð hans þar sem hann var myrt­ur á yf­ir­ráðasvæði íslamska lýðveld­is­ins Írans,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu Khamenei.

Hamas hafa einnig sagt að drápið á Haniyeh verði ekki látið ósvarað.

Ali Khamenei ásamt Haniyeh.
Ali Khamenei ásamt Haniyeh. AFP/Khameini.ir
mbl.is