Ivan Litvinovich frá Hvíta-Rússlandi varð í dag ólympíumeistari á trambólíni í fimleikum karla en þjóðfáninn fór ekki á loft og verðlaunin eru ekki skráð á þjóð hans í metabókum Ólympíuleikanna í París.
Ivan Litvinovich frá Hvíta-Rússlandi varð í dag ólympíumeistari á trambólíni í fimleikum karla en þjóðfáninn fór ekki á loft og verðlaunin eru ekki skráð á þjóð hans í metabókum Ólympíuleikanna í París.
Ivan Litvinovich frá Hvíta-Rússlandi varð í dag ólympíumeistari á trambólíni í fimleikum karla en þjóðfáninn fór ekki á loft og verðlaunin eru ekki skráð á þjóð hans í metabókum Ólympíuleikanna í París.
Litvinovich varð með þessu fyrsti „hlutlausi íþróttamaðurinn“ til að vinna gullverðlaun á leikunum í París.
Íþróttafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi fær að taka þátt í Ólympíuleikunum, að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum, og verður að keppa undir hlutlausum fána en þjóðirnar eru í banni hjá alþjóðlegum íþróttasamböndum vegna innrásar og stríðsreksturs Rússa í Úkraínu frá því í febrúar 2022.
Alþjóða ólympíunefndin, IOC, gefur „hlutlausum einstaklingum“ færi á að keppa á leikunum, hafi þeir náð tilskyldum lágmörkum og uppfylli önnur skilyrði. Alþjóðasambönd viðkomandi og IOC ganga úr skugga um að íþróttamaðurinn hafi ekki sýnt stuðning við stríðið í Úkraínu eða tengst her þjóðar sinnar á nokkurn hátt.
Fimmtán Rússar og 17 Hvít-Rússar þáðu boð um að keppa á leikunum.
Litvinovich fékk ekki að heyra hvítrússneska þjóðsönginn eftir sigurinn í dag, heldur lag án texta sem IOC valdi sérstaklega.
„Hvað get ég sagt, þetta er öðruvísi. Þjóðsöngurinn okkar er betri en þetta og vonandi fáum við að hlýða á hann á mótum síðar meir," sagði fimleikamaðurinn við AFP en hann neitaði að svara spurningum sem sneru að öðru en íþróttinni sjálfri.
„Ég vil ekki svara þessum spurningum. Þið spyrjið til að æsa mig upp. Ég svara bara spurningum um íþróttina," sagði Hvít-Rússinn.