Margt í kringum ferðaþjónustu sem þarf að ræða

Ferðamenn á Íslandi | 4. ágúst 2024

Margt í kringum ferðaþjónustu sem þarf að ræða

Halla Tómasdóttir forseti telur mikilvægt að þjóðhöfðinginn tali fyrir hagsmunum þjóðarinnar og þar er ferðaþjónustan ekki undanskilin. Það sé margt sem þurfi að ræða hvað ferðaþjónustuna varðar, til dæmis verðlagning.

Margt í kringum ferðaþjónustu sem þarf að ræða

Ferðamenn á Íslandi | 4. ágúst 2024

„Það er margt í kringum ferðaþjónustu sem ég held að …
„Það er margt í kringum ferðaþjónustu sem ég held að við þurfum að ræða um sem samfélag,“ segir Halla Tómasdóttir forseti. mbl.is/Eyþór

Halla Tómasdóttir forseti telur mikilvægt að þjóðhöfðinginn tali fyrir hagsmunum þjóðarinnar og þar er ferðaþjónustan ekki undanskilin. Það sé margt sem þurfi að ræða hvað ferðaþjónustuna varðar, til dæmis verðlagning.

Halla Tómasdóttir forseti telur mikilvægt að þjóðhöfðinginn tali fyrir hagsmunum þjóðarinnar og þar er ferðaþjónustan ekki undanskilin. Það sé margt sem þurfi að ræða hvað ferðaþjónustuna varðar, til dæmis verðlagning.

Um miðjan júlí fór Halla í viðtal hjá Christiane Amanpour á CNN þar sem hún ræddi m.a. baráttumál sín í embætti og markmið um að brúa bilið á milli kynslóða. Reyndar ræddu þær stuttlega um skotárásina á kosningafundi Donalds Trump, enda sennilega óumflýjanlegt umræðuefni þar sem hún gerðist deginum áður.

En þar sá hún sér einnig leik á borði að taka sérstaklega fram að Ísland væri öruggur áfangastaður fyrir ferðamenn, en færri ferðamenn komu hingað til landsins en í fyrra og ferðaþjónustan hefur lýst þungum áhyggjum af þróuninni.

„Það er nú þannig að Christiane Amanpour er með fleiri áhorf en allir slíkir þættir og ein ástæða þess að ég vildi ekki sleppa þessu tækifæri er að ég hef lengi talið að það skipti máli að koma því á framfæri, sérstaklega í Norður-Ameríku núna, að það sé óhætt á Ísland,“ segir forsetinn í samtali við mbl.is.

Hún segist hafa orðið vör við orðræðu í sínum störfum á alþjóðlegum vettvangi að það sé hættulegt að vera á Íslandi.

Ekki að gera lítið úr raunum Grindvíkinga

Er það mikilvægt að forseti beiti sér fyrir því að áhugi á Íslandi dvíni ekki?

„Ég tel kannski að þetta skipti ekki bara máli fyrir einn geira. Ég tel að að forseti Íslands sé málsvari fyrir Ísland og Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Halla.

Hún er gift Grindvíkingnum Birni Skúlasyni og tekur fram að fjölskyldan hafi ekki farið varhluta í kringum hans vini og fjölskyldu af þeim erfiðleikum sem steðja að sveitungum hans.

Halla og eiginmaður hennar, Björn Skúlason.
Halla og eiginmaður hennar, Björn Skúlason. mbl.is/Eyþór

„En þegar að erlendir aðilar huga að því að heimsækja Ísland og heyra að það ríkir „neyðarástand“ þá slá margir hlutum á frest. Stundum hefur verið umræða um þetta í samfélaginu,“ segir hún.

Þurfum að ræða verðlagningu

Halla heldur áfram:

„Það er margt í kringum ferðaþjónustu sem ég held að við þurfum að ræða um sem samfélag.“

Eins og hvað?

„Til dæmis að verðlagning er kannski farin að verða ákveðin áskorun – og það hef ég heyrt frá ferðaþjónustunni sjálfri – sérstaklega ef verð og gæði passa ekki saman,“ svarar forsetinn.

„Það er auðvitað ekki hlutverk forseta að hafa einhverja beittar skoðanir á því en það er hlutverk forseta að tala fyrir hagsmunum Íslands og Íslendinga hér heima og að heiman. Og ég vil sem forseti leggja mitt af mörkum þegar slík mál koma upp.“

„Þetta hefur haft afleiðingar á horfur í ferðaþjónustu,“ segir hún. „En þetta er örugglega ekki það eina sem þetta hefur áhrif á.“

Íslenskri fjölmiðlar þurfi ekki að mæta afgangi

Halla hafði vissulega sætt gagnrýni fyrir að svara ekki íslenskum fjölmiðlum síðasta mánuðinn og sagðist taka sér hlé frá fjölmiðlaviðtölum af virðingu við fráfarandi forseta sem gegndi enn embætti.

En á þessum tíma fór hún, sem fyrr segir, í viðtal á CNN en ekki íslenska fjölmiðla sem reyndu margir að ná orði af Höllu eftir skotárásina á Trump.

Er þetta eitthvað sem íslenskir fjölmiðlar ættu að fara að venjast?

„Nei, alls ekki,“ svarar forsetinn, sem kveðst ætla sér að vera í afar góðu sambandi við alla fjölmiðla landsins.

Halla útskýrir að viðtalið á CNN hafi verið skipulagt nokkrum vikum áður, í raun þegar hún var nýkjörin til embættis.

Halla á kosningavöku sinni 1. júní ásamt börnum sínum.
Halla á kosningavöku sinni 1. júní ásamt börnum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„[Amanpour] og hennar fólk hafði samband eftir kjördag og bað mig um að fara í viðtal. Þá sagði ég við hana að ég gæti ekki gert það fyrr en bara rétt áður en ég færi í nýja embættið,“ sagði hún.

En sem fyrr segir sá hún einnig fyrir sér að reyna að fullvissa Bandaríkjamenn um að Ísland væri öruggur áfangastaður og því tók hún á skarið. „Ég bað reyndar um að fresta því eins lengi og ég gat,“ segir hún og varð dagsetningin 15. júlí fyrir valinu.

mbl.is