„Ef maður er ungur í dag þá á maður að gera bara það sem mann langar að gera,“ segir Gullsmíðaneminn Helgi Líndal Elíasson. Helgi, sem er 24 ára, hefur lengi haft ástríðu fyrir hönnun en hann stóð á tímamótum árið 2021 þegar hann ákvað að skrá sig í gullsmíði í Tækniskóla Íslands. Síðan þá hefur námið gengið vonum framar og hann hefur verið að hanna skartgripi fyrir tónlistarfólk á borð við Emmsjé Gauta, Reyni Snæ Magnússon og Sigfríði Rut Gyrðisdóttur, betur þekkt sem Fríd. Helgi er hrifnastur að því að vinna með gull og demanta en draumur hans er að opna sitt eigið verkstæði og vera með þar sérsmíði.
„Ef maður er ungur í dag þá á maður að gera bara það sem mann langar að gera,“ segir Gullsmíðaneminn Helgi Líndal Elíasson. Helgi, sem er 24 ára, hefur lengi haft ástríðu fyrir hönnun en hann stóð á tímamótum árið 2021 þegar hann ákvað að skrá sig í gullsmíði í Tækniskóla Íslands. Síðan þá hefur námið gengið vonum framar og hann hefur verið að hanna skartgripi fyrir tónlistarfólk á borð við Emmsjé Gauta, Reyni Snæ Magnússon og Sigfríði Rut Gyrðisdóttur, betur þekkt sem Fríd. Helgi er hrifnastur að því að vinna með gull og demanta en draumur hans er að opna sitt eigið verkstæði og vera með þar sérsmíði.
„Ef maður er ungur í dag þá á maður að gera bara það sem mann langar að gera,“ segir Gullsmíðaneminn Helgi Líndal Elíasson. Helgi, sem er 24 ára, hefur lengi haft ástríðu fyrir hönnun en hann stóð á tímamótum árið 2021 þegar hann ákvað að skrá sig í gullsmíði í Tækniskóla Íslands. Síðan þá hefur námið gengið vonum framar og hann hefur verið að hanna skartgripi fyrir tónlistarfólk á borð við Emmsjé Gauta, Reyni Snæ Magnússon og Sigfríði Rut Gyrðisdóttur, betur þekkt sem Fríd. Helgi er hrifnastur að því að vinna með gull og demanta en draumur hans er að opna sitt eigið verkstæði og vera með þar sérsmíði.
„Áhuginn byrjaði á YouTube en ég var staddur á smá tímamótum og ég vissi ekki alveg hvað ég vildi fara að gera. Amma mín Didda stakk þá upp á því að prófa að sækja um í gullsmiðinum. Mér leist vel á það en ég held að ég þurfti alveg á því að halda að einhver stakk upp á því. Ég hefði líklega aldrei farið út í þetta alveg einn,“ segir Helgi.
Nú er Helgi að klára þriðja árið í gullsmíði en nóg er að gera í starfsnámi hans þar sem hann er að læra hjá Georgi V. Hannah í Keflavík.
„Ég er að læra hjá Georgi V. Hannah en Eggert Hannah er meistarinn minn. Það eru algjör forréttindi að fá að vera hjá honum, hann er mjög flinkur. Ég fæ að nota verkstæðið hans ef ég er að smíða eitthvað auka en annars er ég að sinna viðgerðum fyrir hann og það er bara partur af starfsnáminu. Ef fólk biður mig um að smíða fyrir sig þá hef ég alveg verið að taka það að mér. Þetta er meira kannski fólk í kringum mig sem ég þekki en svo hef ég alveg verið að fá fyrirspurnir frá bláókunnugum,“ segir Helgi.
Helgi fær flesta steinana sína frá Taílandi, t.d. tópassteina en mikið úrval af gimsteinum er þar að finna. Gullið fær hann hinsvegar auðveldlega í gegnum heildsala á netinu. Ýmsar aðferðir eru svo í boði til að búa til gullfallega skartgripi.
„Mig langar mest að vinna með steina, gull og demanta. Mér finnst steinaísetning mjög áhugaverð, þá að festa steina í gull og skartgripi. Það er svona það sem mig langar að tileinka mér í framtíðinni. Ég er mjög hrifinn af einu hálsmeni sem hún amma mín Didda á sem er gullhálsmen með bláum tópasstein. Svo er ég líka hrifinn af aðferð sem kallast gróp. Ég er búinn að gera einn þannig hring en þá situr steinninn alveg sléttur í efninu. Þá notar maður sérstaka bora til að gera pláss fyrir steininn og svo ýtir maður efninu bara smá yfir steininn til að hann haldist,“ segir Helgi.
Þrátt fyrir að íslenski skartgripamarkaðurinn geti verið erfiður stefnir Helgi hátt og dreymir um að opna eigið verkstæði í framtíðinni. Hann bætir því við að hann hafi það á tilfinningunni að ungt fólk í dag sé opnara en áður fyrir því að fjárfesta í vönduðum skartgripum.
„Draumurinn er að vera í sérsmíði. Það er erfiður markaður, ég veit það alveg, en það má láta sig dreyma. Það eru ekki mjög mörg íslensk verkstæði sem eru bara með sérsmíði og eru ekki selja eftir aðra skartgripahönnuði. Það eru samt klárlega einhver tækifæri til að skera sig úr á íslenskum skartgripamarkaði, en ég þarf persónulega aðeins meiri æfingu áður en ég fer að tækla það. Ég hef ekki verið lengi í þessum bransa, bara þessi þrjú ár en mér finnst samt að ungt fólk sé meira tilbúið að kaupa sér vandaðri skartgripi,“ segir Helgi.
„Ég held að við séum svolítið að komast yfir „fast fashion“ og kaupa eitthvað ódýrt af því bara. Ég held að fólk er tilbúið að setja aðeins meiri pening í vandaðri hluti sem endast lengur,“ bætir Helgi við.
Árið 2016 fór Helgi á námskeið í Los Angeles hjá skóhönnuðinum Dominic Ciambrone sem hefur unnið með stórstjörnum á borð við Lebron James, Justin Bieber, Odell Beckham og Will.i.am en Ciambrone sérhæfir sig í hönnun á Air Jordan-skóm. Tveimur árum seinna fór hann aftur á námskeið hjá sama hönnuði í New York-borg til að sækja sér enn meiri reynslu. Eftir að Helgi var búinn að læra réttu handtökin hannaði hann takkaskó fyrir landsliðsmanninn Arnór Ingva Traustason og fór í samstarf með Emmsjé Gauta við Húrra Reykjavík.
„Þetta var algjör draumur, það var svo gaman að fá að vinna með Emmsjé Gauta. Hann langaði að gefa út skó samhliða plötunni sinni Fimm og var búinn að tala við skósmiðinn Daníel Má Magnússon sem benti honum á mig. Þannig byrjaði þetta samstarf einhvernveginn alveg óvart,“ segir Helgi.
Helgi segir að skóhönnunarævintýrið hafi aðeins byrjað sem draumórar en hvatning frá fjölskyldunni hafi hjálpað honum að láta drauminn verða að veruleika.
„Þetta byrjaði sem ævintýri sem mamma og pabbi hvöttu mig út í. Öll þessi skósmíði byrjaði sem einhverjir draumórar, að fara á eitthvað námskeið úti í nokkra daga til að læra að smíða skó. Ég var rosalega heppinn að fá talsvert af styrkjum, það var rosalega mikið af einstaklingum og fyrirtækjum sem hvöttu mig áfram og veittu mér styrki til að fara út og gera þetta. Námskeiðið snerist um að læra að smíða Air-Jordan-skó. Ciambrone hefur unnið með allskonar stórstjörnum og það var mjög gaman að læra af honum. Ég hef samt ekki náð að sinna þessu almennilega hérna heima. Það var bara svo erfitt að sérhæfa sig í þessu hérna heima þannig að ég setti skósmíðina á ís. Mig langar samt að byrja aftur ef ég fæ tækifæri til þess,“ segir Helgi.
Aðspurður hvaða ráð Helgi hafi til ungs fólks sem er að íhuga að fara í gullsmiðinn eða aðra hönnun, segir hann að það sé ekki spurning um annað en að prófa.
„Það er svo ótrúlega mikið af tækifærum í dag, þannig að það er ekki spurning um annað en að prófa. Við lifum á svolítið skrítnum tímum þar sem alheimurinn er aðgengilegur í einu litlu tæki þannig að það er bara ekkert mál að auglýsa sig. Ef þetta klúðrast þá eigið þið örugglega mörg ár eftir þar sem þið getið rétt úr ykkur. Ef maður er ungur í dag þá á maður að gera bara það sem manni langar að gera,“ segir Helgi.