Matargerð fyrir líkama og sál

Uppskriftir | 9. ágúst 2024

Matargerð fyrir líkama og sál

Matarvenjur Miðjarðarhafsins – suðurítalskar uppskriftir er matreiðslubók eftir hinn ítalska Valerio Gargiulo sem býr hér á landi. Hann segir bókina vera virðingarvott við merkilega matargerðararfleifð þar sem hollusta er höfð í fyrirrúmi.

Matargerð fyrir líkama og sál

Uppskriftir | 9. ágúst 2024

Valerio Gargiulo hefur gefið út kokkabók með uppskriftum frá Napólí.
Valerio Gargiulo hefur gefið út kokkabók með uppskriftum frá Napólí. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Matarvenjur Miðjarðarhafsins – suðurítalskar uppskriftir er matreiðslubók eftir hinn ítalska Valerio Gargiulo sem býr hér á landi. Hann segir bókina vera virðingarvott við merkilega matargerðararfleifð þar sem hollusta er höfð í fyrirrúmi.

Matarvenjur Miðjarðarhafsins – suðurítalskar uppskriftir er matreiðslubók eftir hinn ítalska Valerio Gargiulo sem býr hér á landi. Hann segir bókina vera virðingarvott við merkilega matargerðararfleifð þar sem hollusta er höfð í fyrirrúmi.

Valerio Gargiulo er Ítali, fæddur og uppalinn í Napólí, en hefur verið búsettur hér á landi frá árinu 2002. Á síðasta ári gaf hann út matreiðslubókina Uppskriftir Valerios frá Napólí og nú er komin út ný bók Matarvenjur Miðjarðarhafsins – suðurítalskar uppskriftir.

„Miðjarðarhafsmataræðið er talið mikil heilsubót, er almennt viðurkennt sem eitt besta mataræði í heiminum. Mamma og amma og vinkonur þeirra elduðu þennan mat og uppskriftirnar koma frá þeim. Þessi matur er ekki erfiður í matreiðslu og alls ekki dýr. Matreiðslubókin mín er virðingarvottur við matargerðararfleifð þar sem sólin, sjórinn og jörðin gefa af sér afburðavörur af einstökum gæðum og með fjölbreyttu bragði. Þetta er matur sem er góður fyrir líkama og sál. Þar er ólífuolía mikið notuð, sömuleiðis grænmeti og baunir en ekki er mikið um kjöt,“ segir Valerio.

Hann á sinn uppáhaldsmat, finnst gaman að búa til salöt og sitt eigið pasta. Hann hefur unun af að bjóða fólki heim í mat og leikur sér stundum að því að blanda saman matarhefðum ólíkra landa. Valerio á fjölmarga fylgjendur á Facebook og þar er hægt að festa kaup á bókinni.

Valerio er lögfræðingur að mennt og hefur sinnt ýmsum verkefnum. Hann vinnur á leikskóla og sinnir ritstörfum. Hann hefur sent frá sér bækur, skáldsögur og ljóðabækur og er félagi í Rithöfundasambandi Íslands.

Valerio deilir hér með lesendum MorgunblaðsinsS girnilegum uppskriftum sem er að finna í nýju bókinni hans. Þetta er annars vegar ofnbakapur kjúklingur með rósmaríni og kartöflun og hins vegar grillað eggaldin með myntu.

Girnilegur ofnbakaður kjúklingur með rósmarín og kartöflum.
Girnilegur ofnbakaður kjúklingur með rósmarín og kartöflum. mbl.is/Ásdís
Grilluð eggaldin með myntu.
Grilluð eggaldin með myntu. mbl.is/Ásdís

Ofnbakaður kjúklingur með rósmaríni og kartöflum

Erfiðleikar: auðvelt

Undirbúningur: 20 mín.

Matreiðsla: 80 mín.

Fyrir 4

  • 800-900 g blanda af kjúklingalærum og leggjum
  • 6 meðalstórar kartöflur
  • 4 greinar af fersku rósmaríni
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 4 msk. jómfrúarólífuolía
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið í teninga. Gott er að skola kartöflurnar í köldu vatni og þurrka vel til þess að ná sterkjunni úr.
  2. Setjið kartöflurnar í skál og hellið matskeið af ólífuolíu, saltið og piprið eftir smekk og bætið við rósmaríni af einum stöngli. Blandið vel saman og forhitið ofninn í 200°C.
  3. Skolið kjúklingalæri undir köldu vatni og þerrið þau með eldhúspappír.
  4. Nuddið kjúklinginn með einni matskeið af ólífuolíu, salti og pipar.
  5. Setjið kjúklinginn í ofnfast mót. Merjið hvítlauksgeirana og bætið við ásamt restinni af rósmaríninu.
  6. Raðið kartöflunum umhverfis kjúklinginn.
  7. Setjið mótið í forhitaðan ofninn og bakið í um það bil 1 klst. eða þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Snúið kartöflunum og kjúklingnum við, setjið vökvann úr mótinu yfir kjúklinginn og kartöflurnar þegar u.þ.b. helmingseldunartími er eftir.
  8. Athugið hvort kjúklingurinn sé fulleldaður að innan en húðin á að vera gullinbrún og stökk. Kartöflurnar ættu einnig að vera gullinbrúnar og stökkar að utan en mjúkar að innan.
  9. Þegar rétturinn er tilbúinn, takið mótið úr ofninum og látið kjúklinginn hvíla í nokkrar mínútur áður en þið berið hann fram.
  10. Raðið kjúklingnum og kartöflunum á diska og munið að setja einnig hvítlaukinn og rósmaríngreinarnar með til skrauts. Gott að bera fram eitt og sér eða með fersku salati.

Grilluð eggaldin með myntu

Erfiðleikar: auðvelt

Undirbúningur: 10 mín.

Matreiðsla: 15 mín.

Fyrir 4

  • 2 stór eggaldin
  • 4 msk. jómfrúarólífuolía
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 18-20 fersk myntulauf
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Þvoið eggaldin og skerið í um það bil 1 cm þykkar sneiðar. Ef þið viljið getið þið skorið það í hringi eða langar ræmur, allt eftir því hvernig þið viljið hafa það.
  2. Blandið saman ólífuolíu, söxuðum hvítlauk, sítrónusafa, söxuðum myntulaufum, salti og pipar í skál.
  3. Hitið grill eða grillpönnu yfir miðlungsháum hita.
  4. Raðið eggaldinsneiðunum á heitt grill eða grillpönnu og grillið þær í um það bil 5-7 mín. á hvorri hlið, þar til þær eru mjúkar og hafa fengið fallegar grillrendur.
  5. Þegar eggaldinið er tilbúið, setjið sneiðarnar á disk.
  6. Notið pensil eða skeið til að setja olíublönduna á eggaldinsneiðarnar.
  7. Berið fram grillað eggaldin með myntu, heitt eða við stofuhita. Þið getið skreytt með nokkrum ferskum myntulaufum. Gott sem hliðarréttur eða sem léttur hádegisverður.
mbl.is