Ekki lagt áherslu á PISA til þessa

Skólakerfið í vanda | 14. ágúst 2024

Ekki lagt áherslu á PISA til þessa

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að borgin hafi til þessa ekki lagt áherslu á að taka mið af niðurstöðum PISA-kannana.

Ekki lagt áherslu á PISA til þessa

Skólakerfið í vanda | 14. ágúst 2024

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir það geta verið …
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir það geta verið mjög ófaglegt að bera skóla saman með samræmdum mælingum. Samsett mynd

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að borgin hafi til þessa ekki lagt áherslu á að taka mið af niðurstöðum PISA-kannana.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að borgin hafi til þessa ekki lagt áherslu á að taka mið af niðurstöðum PISA-kannana.

Þær hafa þó hver á fætur annarri sýnt versnandi frammistöðu íslenskra grunnskólabarna.

Raunar eru PISA-kannanirnar eina heildstæða mælitækið í grunnskólum landsins eftir að skólayfirvöld gáfust upp á að leggja samræmdu könnunarprófin fyrir nemendur.

Ekkert land hrundi meira

Borgin stefnir á að byrja í þessum mánuði að undirbúa svokallaða innleiðingaráætlun menntastefnu fyrir árin 2025 til 2027.

Með hluta áætlunarinnar er ætlunin að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem nemendur tóku árið 2022, en niðurstöðurnar voru birtar í desember á síðasta ári.

Ekkert land hrundi þar meira á milli kannana en Ísland, sem mældist einnig næstlægst allra Evrópuríkja sem tóku þátt.

Hrunið var þó aðeins hluti af lengri þróun, þar sem frammistöðu íslenskra grunnskólabarna hefur sífellt hrakað á mælikvarða PISA undanfarin ár.

Leggja nú fyrst áherslu á að taka mið af PISA

Sviðsstjórinn Helgi Grímsson segir að stefnt sé að því að umrædd áætlun verði tilbúin í nóvember, en borgin mótar slíka áætlun á þriggja ára fresti.

Að sögn Helga verður þetta í fyrsta sinn sem borgin leggur áherslu á að taka mið af niðurstöðum PISA við gerð slíkrar áætlunar.

Áætlunin felst að sögn Helga í stuttu máli í að velja hvaða viðfangsefni og verkefni það eru sem starfsmenn og kennarar í skólum muni taka sér fyrir hendur, og hvað borgin muni gera til að veita skólunum miðlægan stuðning.

Helgi segir samræmdu könnunarprófin hafa verið mjög mikilvæg fyrir starf …
Helgi segir samræmdu könnunarprófin hafa verið mjög mikilvæg fyrir starf grunnskólanna. Skólayfirvöld gáfust upp á að leggja prófin fyrir og ekkert hefur komið í stað þeirra. mbl.is/Hari

Ómarkvisst að vaða í verkið

Nú velta margir fyrir sér – niðurstöður PISA bárust í desember og þið ætlið ekki að gera innleiðingaráætlun fyrr en í haust, er þetta ekki of seint í rassinn gripið fyrir til dæmis þetta skólaár?

„PISA er að mæla tíu ára skólagöngu. Allt sem heitir að kasta frá sér rekunni og vaða í eitthvað annað, það er bara ómarkvisst og þess vegna erum við að gefa okkur góðan tíma því allar þessar breytingar krefjast undirbúnings og samtalið þarf að vera markvisst,“ segir Helgi.

„Það hittir þannig á að við erum að taka innleiðingaráætlunina föstum tökum núna í haust, það var bara ekki verkefni vorsins, og við viljum eðlilega gera þetta í samhengi við annað sem við erum að gera varðandi menntun barnanna okkar.“

Eins og mbl.is hefur greint frá tók skólastjóri Rimaskóla þá ákvörðun að skólinn tæki ekki þátt PISA-könnuninni árið 2022, eftir að tæknileg vandamál komu upp.

Samræmdar mælingar skóla geti verið mjög ófaglegar

Finnst þér vont að svona stór skóli hafi tekið ákvörðun um að taka ekki þátt og þið fáið þá ekki rétta mynd af því hvernig sveitarfélagið stendur sig – ef þið fáið þær niðurstöður til baka?

„PISA hefur þann tilgang að meta menntakerfið í heild sinni. Ekki stöðu einstakra sveitarfélaga eða skóla. PISA gefur okkur mikilvægar upplýsingar um hvernig við getum þróað menntakerfið okkar og ég undirstrika að það sem skiptir mestu máli varðandi menntun barna og það sem hefur mesta forspárgildið varðandi menntun þeirra er menntun foreldranna og það næsta sem skiptir máli er síðan tekjubakgrunnur fjölskyldunnar, hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma. Það að bera saman skóla á samræmdum mælingum getur verið mjög ófaglegt.“

En á skólinn ekki að vera jöfnunartæki?

„Jú, hann á að vera það. Við gerum það eins og frekast við getum. En það eru oft ákveðnar breytur sem við ráðum mjög lítið við og það er einfaldlega þannig að skólinn skiptir máli, en það sem hefur mest forspárgildi er menntunarstig foreldranna og síðan hvaðan tekjur foreldra koma,“ segir Helgi.

„Það er alveg fáránlega ófaglegt að bera saman tvo skóla á einkunn ef ekki er tekið tillit til hver bakgrunnur fjölskyldnanna er og það er það sem er það hættulega við samanburð á skólum á prófum. Það er ekki verið að bera saman skólana, í raun og veru, heldur er verið að bera saman fjölskyldurnar.“

Samræmdu könnunarprófin reynst afar mikilvæg

Spurður hvort ekki væri gagnlegt fyrir skólana sjálfa að búa yfir niðurstöðum úr samræmdum mælingum, til dæmis svo hægt væri að gera samanburð á frammistöðu nemenda milli ára, svarar Helgi því játandi.

„Það skiptir mjög miklu máli í allri umræðu um svona próf, hver er tilgangurinn. Ég get fullyrt það að kennarar vilja geta stuðst við samræmd viðmið til þess að meta eigin störf og árangur nemenda sinna. Það er síðan spurning í hvaða tilgangi þessi árangur er skoðaður og jafnvel þá samanburður milli nemenda og skóla.“

Helgi segir að samræmdu könnunarprófin, sem skólayfirvöld gáfust upp á að leggja fyrir eftir að upp komu tæknileg vandamál, hafi verið afar mikilvæg í starfi grunnskólanna. Í fyrra starfi sínu sem skólastjóri hafi niðurstöðurnar veitt honum mjög mikilvægar upplýsingar til að bera saman árangur nemenda í 4. bekk og síðar í 7. bekk.

„Er hópurinn minn að fara fram úr öðrum skólum eða eru hópar sem eru að standa sig verr milli ára? Þetta voru mjög mikilvægar upplýsingar fyrir skólann,“ segir hann.

Styðjast við sex ára gamlar niðurstöður

Hann segir Reykjavíkurborg hafa stuðst við svokallaðan LOI-stuðul sem er reiknaður út fyrir grunnskóla og á að endurspegla þær áskoranir sem er að finna í umhverfi nemendahópsins og geta haft áhrif á árangur hans.

„Þeir skólar sem voru með veikan félagslegan bakgrunn fá aukið fjármagn umfram aðra skóla, til þess að geta verið betra jöfnunartæki vegna þess að þá fá þeir meiri fjármuni til þess að geta stutt við nám nemenda.“

En ef þið eruð ekki með samræmt námsmat og sjáið þar af leiðandi ekki hvaða skólar standa sig verst, hvernig getið þið aðstoðað þá skóla meira?

„Við studdumst við niðurstöður þriggja samræmdra könnunarprófa [árin 2016-2018] til að eyða flökti milli ára og mældum hvað það væri í bakgrunni nemendahópsins í skólanum sem hefði mest forspárgildi um niðurstöður þeirra á prófunum.“

En þetta eru sex ára gamlar upplýsingar.

„Já, þessar bakgrunnsbreytur eru nokkuð stöðugar. Það er almennt ekki mikil breyting á nemendasamsetningu milli ára en við höfum uppfært upplýsingar miðað við breytingar á fjölskyldusamsetningu og þannig minnkað eða aukið það fjármagn sem skólarnir fá.“

Helgi segir að borgin hafi ekki áður lagt áherslu á …
Helgi segir að borgin hafi ekki áður lagt áherslu á að taka mið af niðurstöðum PISA-kannana. Þær hafa þó hver á fætur annarri sýnt versnandi frammistöðu íslenskra grunnskólabarna. mbl.is/Hari

Skiptir máli að kennarar fái svona gögn

Hvernig vitið þið hver staðan er núna?

„Við notuðum þriggja ára meðaltal í prófum og það eru fullnægjandi gögn fyrir okkur því það eru bakgrunnsbreyturnar sem við erum að horfa til en ekki endilega árangurinn á prófum í framhaldinu. Við erum búin að fá staðfestingu á hvort þetta voru raunsönn gögn eða ekki. Þess vegna segjum við – við getum lifað við það að hafa ekki samræmd próf akkúrat núna. Við vitum að Matsferill er að koma í virkni og þá getum við mælt hvort og þá hvernig námsárangur hefur breyst hjá þeim skólum sem hafa fengið meira fjármagn,“ segir Helgi.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að kennarar fái svona gögn í hendurnar til að meta eigin störf og skólarnir – til þess að geta borið sig saman við meðaltöl og þróun skólans milli ára. En ég undirstrika að samræmd próf eru mikilvæg en þau sýna ekki alla myndina.“

En nú er spurningin – ef síðasta mælingin sem þið styðjist við er frá árinu 2018, hvernig vitið þið að þetta er að skila árangri ef þið eruð ekki með samræmt námsmat til að taka púlsinn aftur?

„Þetta er mjög góð spurning hjá þér og enn og aftur – við vitum að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er að þróa þessi próf og síðan þegar þau eru tilbúin þá förum við að nota þau til að fylgjast betur með framvindu og árangri.“

Langt tímabil án samræmdra mælinga

Niðurstöðurnar sem þið styðjist við eru frá árinu 2018. Það er komið eitt verkfæri í matsferlinum, lesfimi, svo núna þetta skólaár á að forprófa próf í tengslum við lesferilinn, svo á næsta skólaári [2025-2026] á að innleiða lesferilinn, og sama skólaár á að forprófa stærðfræðiferilinn og svo hugsanlega 2026-2027 verður hægt að innleiða þann matsferil. Við erum að horfa á svo langt tímabil þar sem ekki eru samræmdar mælingar.

„Það væri óskandi að matstækin væru komin fyrr, það myndi styrkja okkar starf. Enn og aftur, í heildarmyndinni þegar kemur að umbótum í skólastarfi þá erum við alltaf að horfa á tíu ára feril, sem er skólaganga barnsins. Þó svo að það sé eitt eða tvö ár sem við getum ekki speglað beint við.“

Við erum að tala um átta eða níu ár, ekki eitt eða tvö ár, frá því að 2018-mælingin var gerð sem þið styðjist við og þangað til matsferillinn verður innleiddur.

„Núna er 2024 og við erum hins vegar enn og aftur að nota þetta við útdeilingu á fjármagni til þess að styrkja þá skóla sem eru með veikara félagslegt bakland í hópi foreldra og það að við höfum ekki nákvæmar upplýsingar um hvaða árangri þetta hefur breytt á samræmdum prófum – það skiptir ekki alveg öllu máli. Við erum búin að nota þetta til að finna þá skóla sem eru með veikara félagslegt bakland og við styðjum þá til góðra verka.“

Sem dæmi nefnir Helgi að með auknu fjármagni geti skólar skipt nemendum í fleiri bekki, boðið meiri sérkennslu og farið í fleiri vettvangsferðir.

Mörg atriði sem horfa þarf til

Eins og áður sagði mun undirbúningur að næstu innleiðingaráætlun menntastefnu Reykjavíkur hefjast í þessum mánuði.

„Við erum enn þá með innleiðingaráætlun í gangi. Það er bara 2024 og hún er að renna sitt skeið núna og svo tekur við næsta áætlun, þessi áætlun núna. Þegar niðurstöður PISA lágu fyrir lagði meirihlutinn í skóla- og frístundaráði áherslu á að við myndum í næstu innleiðingaráætlun taka niðurstöður PISA inn í myndina.“

En þið hljótið að hafa stuðst við niðurstöður PISA í fyrri innleiðingaráætlunum.

„Það var ekki þung áhersla á það í seinustu innleiðingaráætlunum fyrir utan áherslu á læsi, enda fjölmörg atriði sem horfa þarf til í skólastarfi eins og til dæmis aukin farsæld, félagshæfni, sjálfsefling, heilbrigði og sköpun.“

Umfjöllunin birtist fyrst í Morgunblaðinu á mánudag.

mbl.is