Nýr vettvangur Spursmála á facebook

Spursmál | 14. ágúst 2024

Nýr vettvangur Spursmála á facebook

Umræðuþátturinn Spursmál hefur haslað sér völl á facebook. Þar geta áhorfendur tekið virkan þátt í að móta þáttinn og þær spurningar sem lagðar eru fyrir viðmælendur hans.

Nýr vettvangur Spursmála á facebook

Spursmál | 14. ágúst 2024

Jón Gnarr var meðal viðmælenda Spursmála á liðnu vori. Hverju …
Jón Gnarr var meðal viðmælenda Spursmála á liðnu vori. Hverju hefðu áhorfendur viljað spyrja hann að, hefði þeim gefist kostur á að leggja orð í belg? mbl.is/Eyþór Árnason

Umræðuþátturinn Spursmál hefur haslað sér völl á facebook. Þar geta áhorfendur tekið virkan þátt í að móta þáttinn og þær spurningar sem lagðar eru fyrir viðmælendur hans.

Umræðuþátturinn Spursmál hefur haslað sér völl á facebook. Þar geta áhorfendur tekið virkan þátt í að móta þáttinn og þær spurningar sem lagðar eru fyrir viðmælendur hans.

Stefán Einar Stefánsson, stjórnandi þáttarins, segir að með þessu sé ætlunin að virkja áhorfendur til þátttöku í samtalinu sem Spursmálum er ætlað að halda uppi.

Hægt er að nálgast facebook-síðu Spursmála hér.

Gríðarlega góðar viðtökur

„Við höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur við þættinum allt frá því að hann fór í loftið í byrjun desember í fyrra. Við höfum fundið fyrir því að fólk hefur sterkar skoðanir á þættinum sem slíkum en ekki síst efnistökunum,“ útskýrir hann.

Bendir hann á að facebook virki vel til þess að efna til samtals með ýmsum hætti. Þar geti fólk brugðist við fréttum sem verði til upp úr þáttunum, sagt álit sitt á þeim eða bætt við umræðuna. Hins vegar sé ekki síður mikilvægt að geta haft áhrif á þættina áður en þeir fara í loftið.

Stefán Einar stýrir Spursmálum og eru gestir hans frá því …
Stefán Einar stýrir Spursmálum og eru gestir hans frá því í byrjun desember orðnir nærri 100 talsins. mbl.isEggert Jóhannesson

Betur sjá augu en auga

„Ég hef lagt á það áherslu að mæta vel undirbúinn í þættina þannig að viðmælendur mínir fái krefjandi og um leið sanngjarnar spurningar. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu víða ég get leitað fanga fyrir hvern þátt og með þessu erum við í raun að kalla fleiri að borðinu til þess að tryggja að viðtölin nýtist sem best,“ segir Stefán.

Hann viðurkennir að stundum hafi gustað um þáttinn og stjórnanda hans. Ekki hafi allir verið á því að sú stefna sem mörkuð hefur verið með þættinum hafi átt rétt á sér.

Of hart fram gengið?

„Auðvitað er það þannig að einhverjum finnst of hart gengið fram og það fer í taugarnar á einhverjum að ég skuli grípa fram í fyrir viðmælendum mínum á stundum. Staðreyndin er hins vegar sú að þáttum sem þessum er afmörkuð stund og krafan er sú að við fáum greinargóð og stutt svör, þannig að það fari ekki allur tíminn í að ræða hluti sem alls ekki er verið að spyrja út í. Þess vegna höfum við þennan háttinn á, fyrst og fremst af virðingu fyrir markmiðinu sem við höfum sett okkur og þá um leið áhorfendum sem eiga heimtingu á að fá skýr svör sem ekki er búið að pakka inn í umbúðir sem enginn getur losað um án mikillar fyrirhafnar,“ segir Stefán.

Hvetur hann áhorfendur Spursmála til þess að fylgja með á facebook-síðu þáttarins, facebook.com/spursmal, og taka þátt, sjái þeir færi á að leggja orð í belg. 

mbl.is