Ungir sem aldnir voru saman komnir við Hallgrímskirkju í dag til að taka þátt í svokallaðri „Göngu gegn þjóðarmorði“.
Ungir sem aldnir voru saman komnir við Hallgrímskirkju í dag til að taka þátt í svokallaðri „Göngu gegn þjóðarmorði“.
Ungir sem aldnir voru saman komnir við Hallgrímskirkju í dag til að taka þátt í svokallaðri „Göngu gegn þjóðarmorði“.
Gangan, sem er á vegum Félagsins Ísland-Palestína, hófst með hópsöng á laginu Lifi Palestína eftir sænsk-palestínsku hljómsveitina Kofia.
Höfðu fjölmargir mótmælendur skilti meðferðis en skipuleggjendur hvöttu fólk innan vissra starfstétta til að sýna samstöðu með kollegum sínum á Gasa sem eigi sérstaklega undir högg að sækja, þ.á.m. kennara, heilbrigðisstarfsfólk og blaðamenn.
Lagði fólk sömuleiðis rósir við vegglistaverkið Frjáls Palestína við Vegamótastíg til minningar um öll þau sem hafa látist í árásunum, m.a. þriggja daga gömlu tvíburana Aser og Ayssal sem létu lífið í sprengjuárás Ísraelsmanna í vikunni.
Blaðamaður mbl.is fór á vettvang og ræddi við mótmælendur.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir skipuleggjandi göngunnar segir þrautseigju mótmælenda undanfarna tíu mánuði hafa verið mikla þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sýnt lítil viðbrögð og ástandið á Gasa fari versnandi með hverjum deginum.
„Þó að manni líði máttlausum þá er hægt að gera eitthvað og stjórnvöld verða að hlusta á vilja almennings,“ segir Salvör.
Segir hún magnað að sjá að mótmælendur séu ekki að missa móðinn heldur haldi ótrauðir áfram að krefjast frekari viðbragða frá stjórnvöldum.
„Ég hugsa að þetta svipi til, þó að ég hafi ekki verið uppi þá, Víetnamstríðsins. Það þurfti að mótmæla mjög lengi og Palestínufólk er búið að vera að berjast fyrir sínu frelsi í 76 ár þannig við getum alveg haft þrautseigju í 10, 12 eða 14 mánuði. Bara eins lengi og það tekur.“
Margrét Sigurðardóttir Blöndal barnalæknir segir óviðunandi hversu mörg börn þjáist vegna stríðsins og hvernig því hefur verið háttað.
Mikilvægt sé að hún og aðrir málsvarar barna standi gegn stríðinu sem fari fram með ómannúðlegum hætti. Kollegar hennar á svæðinu lýsi skelfilegum aðstæðum þar sem lyf og sjúkragögn séu af skornum skammti.
„Ég þekki mjög mikið af fólki sem er að vinna á Gasasvæðinu með hjálparsamtökum þar og bæði í gegnum fréttaflutning og þeirra sögur hef ég áttað mig á því hversu alvarlegt ástand þetta er.“
Hrefna Guðmundsdóttir og Sóley Dröfn Davíðsdóttir sálfræðingar voru mættar til að láta í sér heyra og í von um að stjórnvöld fari brátt að taka til hendinni í afstöðu sinni gagnvart árásum Ísraelsmanna á Gasasvæðið.
„Þetta gengur algjörlega gegn gildum okkar sálfræðinga sem erum að stuðla að velferð fólks,“ segir Sóley.
Aðspurðar kveðast þær vart getað ímyndað sér hvaða áhrif stríðsástand sem þetta kunni að hafa á fólkið sem lifi það af.
„Þetta er eitthvað sem mun taka þá sem á annað borð lifa af restina af ævinni að vinna úr,“ segir Hrefna. „Og bara næstu kynslóðir,“ bætir Sóley við.
Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir, kveðst vera komin í gönguna til að mótmæla þjóðarmorðinu á Gasa. Kristbjörg kennir flóttafólki, m.a. frá Palestínu og segir málefnið því nálægt sínum hjartastað. Sem kennari geti hún ekki staðið hjá og þagað.
„Það er búið að sprengja alla háskólana í Gasa, það er búið að sprengja 90% af skólum á Gasasvæðinu og krakkarnir eru núna búnir að missa af menntun í heilt ár og fjöldi kennara drepnir, sérstaklega frá UNRWA.“
Lea María Lemarquis framhaldsskólakennari segir taka á að verða vitni að ástandinu á Gasa fara versnandi með hverjum deginum.
„Það er mjög erfitt að horfa upp á morð á konum, börnum og mönnum dag eftir dag og það er mjög skrítið að kenna eðlisfræði við þessar aðstæður,“ segir Lea.
„Það er smá dystópískt að mæta í vinnuna og kenna ungmennum þegar svona hræðilegir hlutir eru að eiga sér stað.“
„Ísraelsher er markvisst að myrða blaðafólk og fjölmiðlafulltrúa og hefur gert það lengi. Eins eru þeir að skjóta á heilbrigðisstarfsfólk, lækna og hjúkrunarfræðinga,“ segir Karl Héðinn Kristjánsson inntur eftir því hvers vegna hann væri mættur til mótmæla.
„Við krefjumst þess að stjórnvöld stígi fastar gegn þessu, fordæmi það sem er að gerast, styðji málssókn Suður-Afríku og loki á diplómatísk tengsl við Ísrael.“
Sæþór Benjamín Randalsson segir mikilvægt að sýna samstöðu með fólkinu í Palestínu sem sjái stuðninginn í fréttaflutningi af mótmælunum, þrátt fyrir að stefna stjórnvalda endurspegli ekki vilja fólksins.
„Stefna Íslands er ólýðræðisleg og styður bara allt sem Ísrael er að gera. Við hér á Íslandi getum sýnt að þetta er ekki okkar skoðun og að við stöndum með Palestínu,“ segir Sæþór.
„Þau eru ekki ein og við viljum að þau viti að okkur stendur ekki á sama,“ bætir Karl við.
„Mér finnst þetta bara svo hræðilegt,“ segir Júlía Birgisdóttir spurð hvers vegna hún gangi í göngunni.
Hún segir gríðarlega mikilvægt að láta í sér heyra, sýna samstöðu og sniðganga Ísrael í lengstu lög.
„Maður er svo hjálparlaus og heimurinn er svo þögull og samsekur. Þessar hörmungar eru í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum, við vitum alveg hvað er í gangi og fólk kýs að líta fram hjá því.