Vonar að sjálfstæðismenn hlaupist ekki undan merkjum

Vonar að sjálfstæðismenn hlaupist ekki undan merkjum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að Viðreisn taki vel í uppfærðan samgöngusáttmála og segir fegurð fólgna í því að hann hafi verið gerður á þverpólitískum grunni.

Vonar að sjálfstæðismenn hlaupist ekki undan merkjum

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins | 22. ágúst 2024

Þorgerður Katrín kveðst jákvæð gagnvart samgöngusáttmálanum.
Þorgerður Katrín kveðst jákvæð gagnvart samgöngusáttmálanum. mbl.is/Óttar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að Viðreisn taki vel í uppfærðan samgöngusáttmála og segir fegurð fólgna í því að hann hafi verið gerður á þverpólitískum grunni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að Viðreisn taki vel í uppfærðan samgöngusáttmála og segir fegurð fólgna í því að hann hafi verið gerður á þverpólitískum grunni.

Hún vonast þó til þess að sjálfstæðismenn hlaupist ekki undan merkjum ef flokkurinn fer í stjórnarandstöðu. 

„Það var löngu kominn tími á samgönguumbætur og uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is.

Þverpólitísk samstaða ánægjuleg

Hún segir að það sé fagnaðarefni að sjá að ríkisstjórnin sé „loksins búin að finna mál sem að þau vonandi ganga nokkurn veginn í takt í“.

Hún segir ánægjulegt að sjá pólitíska samstöðu þvert á flokka á höfuðborgarsvæðinu og nefnir hún sérstaklega í því samhengi bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og Seltjarnanesbæ.

„Það er ákveðin fegurð í þessu þegar kemur að pólitíkinni, að núna átta sig allir á því að það verður að fara í þetta. Það er kominn tími til þess að fara í verkin, ekki bara að tala. Það hafa meira og minna allir flokkar komið að þessu sem einhverju máli skipta,“ segir hún en bætir við:

„Ég vona að hann [Sjálfstæðisflokkurinn] fari ekki að hlaupast undan merkjum strax og hann er kominn í stjórnarandstöðu. Ég vona að hann styðji bæjarstjórana sína í þessu verkefni, enda eru fáir flokkar sem hafa komið jafn mikið að verkefninu og Sjálfstæðisflokkurinn.“

Treystir orðum Bjarna

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að það gæti vel verið að áætlaður kostnaður við sam­göngusátt­mál­ann, sem nú er 311 millj­arðar, muni hækka. Í fyrra var gert ráð fyr­ir að kostnaður­inn yrði um 170 millj­arðar.

„Það er áhyggjuefni út af fyrir sig hvernig fjárlögum og áætlunum ríkisins, hvernig hefur verið haldið á þeim á umliðnum 10-12 árum. Það er áhyggjuefni að menn skuli ekki hafa komið sér upp betri verkferlum,“ segir Þorgerður.

Á hinn bóginn, nefnir hún, er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra búinn að segja að útreikningarnir séu áreiðanlegri nú en áður.

„Ég ætla leyfa mér að ganga út frá því að svo sé. Eftir stendur að það þarf að fjármagna þetta og það þarf meðal annars að standa við stóru orðin og losa Keldnalandið,“ segir hún.

Gagnrýnir ríkisfjármálin

Hún gagnrýnir þó stöðu ríkisfjármálanna almennt og bendir á að vaxtakostnaður ríkisins sé orðinn næststærsti útgjaldaliður ríkissjóðs.

„Ég myndi gjarnan vilja sjá þá 80 milljarða frekar fara í samgöngur, menntun og heilbrigðismál. Þetta er líka spurning um það hvenær við förum að taka á stóru myndinni þannig við getum raunverulega forgangsraðað fjármunum ríkisins í þau verkefni sem skipta máli,“ segir hún.

Skattgreiðendur borga fyrir reksturinn einnig

Auk þess að fjármagna 87,5% af samgöngusáttmálanum þá mun ríkið fjár­magna þriðjung af rekst­ri al­menn­ings­sam­gangna á höfuðborg­ar­svæðinu um ókomna tíð.

Nú er Viðreisn almennt talinn frjálslyndur miðju-hægri flokkur. Er það skynsöm nýting á skattfé að t.d. einhver skattgreiðandi í Reykjanesbæ borgi fyrri rekstur almenningssamganga í Reykjavík?

„Það er alltaf hægt að fara í svona hártogun og ég held að við verðum að horfa þar á stóru myndina. Almenningssamgöngur eins og verið er að byggja upp er raunhæft á höfuðborgarsvæðinu. Þetta skiptir máli upp á að taka þátt í að ná loftlagsmarkmiðum, skiptir líka máli til að mynda með borgarlínuna að losa um svæði fyrir einkabílinn og fyrir öll þau sem sækja til höfuðborgarinnar fyrir ýmsa þjónustu,“ segir hún og bætir við:

„Þannig já þetta mun gagnast öllum, ekki bara fólkinu sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Já, það er rétt að Viðreisn er frjálslyndur hægriflokkur og það eru einmitt þeir flokkar sem hafa verið í fararbroddi í skynsemi um aðgerðir og leiðir, bæði þegar kemur að umhverfismálum en ekki síður í að leita lausna þannig að við getum létt fólki róðurinn. Hluti af því er að hafa öflugar almenningssamgöngur.“

mbl.is