Diplómatar frá franska sendiráðinu og iðkendur frá íþróttafélaginu Ösp ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til þess að styrkja og veita íþróttafélaginu athygli.
Diplómatar frá franska sendiráðinu og iðkendur frá íþróttafélaginu Ösp ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til þess að styrkja og veita íþróttafélaginu athygli.
Diplómatar frá franska sendiráðinu og iðkendur frá íþróttafélaginu Ösp ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til þess að styrkja og veita íþróttafélaginu athygli.
Helga Hákonardóttir, formaður og þjálfari Aspar, segir að þetta einstaka samstarf sé liður í að vekja athygli á Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics, sem fer fram í Frakklandi núna á næstunni, en við Íslendingar erum með fimm fulltrúa sem keppa fyrir okkar hönd í ár.
„Við erum búin að vera í samstarfi við sendiráðið í eitt og hálft ár til þess að vekja athygli á Paralympics,“ segir Helga.
„Þetta samstarf hefur leitt til ýmissa viðburða, og nú taka starfsmenn sendiráðsins, þar á meðal sendiherrann sjálfur, þátt í Reykjavíkurmaraþoninu.“ segir Helga.
Franska sendinefndin mun hlaupa 10 km vegalengdina, en þrír þátttakendur frá Íþróttafélaginu Ösp ætla að hlaupa skemmtiskokkið.
Hins vegar mun stærsti hluti starfsfólks félagsins einbeita sér að skipulagi og framkvæmd maraþonsins, þar sem það hefur lykilhlutverki að gegna við að halda öllu gangandi á viðburðinum og geta því ekki tekið þátt í hlaupinu.
Íþróttafélagið Ösp, sem leggur áherslu á íþróttir án aðgreiningar, hefur unnið hörðum höndum að því að skapa umhverfi þar sem allir, óháð fötlun eða sérþörfum, geta tekið þátt.
„Við sérhæfum okkur í þjónustu fyrir fólk með sérþarfir og fatlanir, en allir eru velkomnir til okkar,“ segir Helga. „Okkar einkunnarorð er að enginn getur allt en allir geta eitthvað.“
Meðal iðkenda Aspar eru einstaklingar í hjólastólum sem taka þátt í íþróttum eins og skautum og fótbolta.
„Við finnum leiðir til að laga íþróttina að einstaklingnum,“ útskýrir Helga.
„En í staðinn erum við með mun hærri þjálfarakostnað heldur en ófötluðu félögin af því að við þurfum að vera með miklu fleira starfsfólk, en við fáum samt ekkert hærri styrki.“
Helga nefnir að innan við 4% fatlaðra barna og ungmenna á Íslandi stundi íþróttir og það telur hún áhyggjuefni: „Þetta er svo gott fyrir þennan hóp. Þeir sem eru hjá okkur fara til dæmis mun minna í sjúkraþjálfun og annað slíkt af því að þeir græða svo mikið á hreyfingunni,“ segir hún.
„Mig langar að breiða út boðskapinn og tryggja að fleiri viti af okkur,“ bætir hún við.