Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri félagsins Betri samgangna, segir að ýmsar hugmyndir hafi verið í þróun síðustu ár varðandi umferðar- og flýtigjöld sem verða tekin upp eftir rúmlega 5 ár. Segir hann að Alþingi eigi lokaorðið á hvernig útfærsla gjaldanna verður, en reiknar með að gjöldin verði nokkur þúsund krónur á mánuði.
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri félagsins Betri samgangna, segir að ýmsar hugmyndir hafi verið í þróun síðustu ár varðandi umferðar- og flýtigjöld sem verða tekin upp eftir rúmlega 5 ár. Segir hann að Alþingi eigi lokaorðið á hvernig útfærsla gjaldanna verður, en reiknar með að gjöldin verði nokkur þúsund krónur á mánuði.
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri félagsins Betri samgangna, segir að ýmsar hugmyndir hafi verið í þróun síðustu ár varðandi umferðar- og flýtigjöld sem verða tekin upp eftir rúmlega 5 ár. Segir hann að Alþingi eigi lokaorðið á hvernig útfærsla gjaldanna verður, en reiknar með að gjöldin verði nokkur þúsund krónur á mánuði.
Nefnir hann að lög þurfi að vera komin um gjaldtökuna tveimur árum áður en hún hefst og telur hann að gjöldin muni hafa jákvæð áhrif á umferðarflæði höfuðborgarsvæðisins.
„Við erum búin að vera að skoða þetta síðustu árin í samstarfi við innviðaráðuneytið og fjármála-og efnahagsráðuneytið og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og erum búin að þróa ýmsar hugmyndir að því hvernig er hægt að útfæra þetta,“ segir Davíð
Uppfærður samgöngusáttmáli var kynntur og undirritaður á miðvikudaginn af ríkinu og sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Í sáttmálanum má sjá að ríkið mun fjármagna 87,5% af sáttmálanum og verður hluti af því fjármagnaður með umferðargjöldum.
Í fjárstreymisáætlun uppfærðs samgöngusáttmála má sjá að frá árunum 2030 til 2040 munu umferðar- og flýtigjöld skil 13 milljörðum á ári til framkvæmda sáttmálans.
Davíð segir í samtali við mbl.is að félagið Betri samgöngur hafi verið í samstarfi við International Transport Forum, sem er stofnun innan OECD og hefur skoðað útfærslur gjaldtökunnar rækilega.
„En nánari útfærslur á því hvar gjaldhliðin væru og hver fjárhæðin yrði, það er eitthvað sem að liggur ekki fyrir og er eitthvað sem að Alþingi þarf að ákveða,“ segir Davíð.
Nefnir hann þá að fjármála- og efnahagsráðuneytið og innviðaráðuneytið hafi í fyrra stofnað sameiginlega verkefnastofu um gjaldtöku af bílaumferð.
„Það er sú verkefnastofa sem að hefur aðeins verið að vinna þessi kílómetragjöld sem að núna er verið að leggja á. Þau eru líka að skoða þessa hluti þannig að við svona sendum boltann yfir til þeirra. Við sendum þeim allar okkar rannsóknir og gögn þannig að boltinn er svolítið hjá þeim varðandi útfærslu á þessu.“
Eins og fyrr segir er gert ráð fyrir að umferðar- og flýtigjöldin muni skila 13 milljarða króna fjármagni á ári til framkvæmda sáttmálans. Gera má ráð fyrir að auk íbúa höfuðborgarsvæðisins munu ferðamenn, fólk utan að landi sem heimsækir höfuðborgarsvæðið og fyrirtækjabílar einnig greiða gjöldin.
Spurður um hvernig var komist að þeirri niðurstöðu að 13 milljarðar á ári fengust greiddir frá umferðar- og flýtigjöldum segir Davíð að miðað væri við nokkur hundruð krónur á dag.
„13 milljarðarnir, þá voru menn að tala um að þetta væri kannski það að keyra inn í eitthvað miðsvæði sem þá væri skilgreint eins og þetta er útfært á Norðurlöndunum. Svíþjóð, Noregi og auðvitað í Bretlandi og eitthvað víðar. Þá skilgreina menn eitthvað miðsvæði sem að er svo sjálfkrafa tekið gjald þegar þú keyrir inn eða út af svæðinu og þetta svona miðað við einhverjar nokkur hundruð krónur á dag.
Spurður hvort um væri að ræða há mánaðargjöld á fjölskyldu innan höfuðborgarsvæðisins segir Davíð að betra sé að tala um gjald á hvern bíl.
„Það er líka svolítið villandi að tala um per fjölskyldu myndi ég segja, þá ertu alltaf kominn með hærri tölu frekar en að það er talað um per bíl eða per einstakling,“ segir Davíð og bætir við.
„Ef við miðum við per bíl til dæmis. Bíll sem að færi á hverjum virkum degi úr úthverfi og inn í höfuðborgina eða öfugt væri að borga, myndi ég segja, einhverja tugi þúsunda á ári. Þetta væri þá einhver nokkur þúsund krónur á mánuði.“
Segir þó Davíð að um skatt sé að ræða og samkvæmt stjórnarskránni sé það bara Alþingi sem geti lagt á skatta.
„Þannig að á endanum verður þetta alltaf ákvörðun Alþingis hvað þetta verður hátt.“
Nefnir framkvæmdastjórinn að lög verði að fást frá þingi að minnsta kosti tveimur árum áður en gjaldtaka hefst. Um sé að ræða flóknara ferli en kílómetragjald og að það þurfi að fara í útboð á gjaldhliðum.
„Þetta er allt sjálfkrafa. Þetta er ekki bókstaflegt hlið. Þetta er bara eins og þegar fólk keyrir inn í bílastæðahús, þá er bara myndgreiningarbúnaður sem les af númeraplötunni og svo ertu rukkaður einu sinni í mánuði eða eitthvað svoleiðis. Þannig þetta á ekkert að tefja fyrir för manna. En þetta er tæknilega flókið þannig það þarf að fara í útboð á þessum búnaði og uppsetningu og það er ferli sem getur tekið tíma,“ segir Davíð og telur að um þrjú ár séu þangað til að lög fari að sjást um umferðargjöldin og hægt verði þá að sjá nánari útfærslur á gjaldtökunni.
Hvar væri línan dregin á höfuðborgarsvæðinu þegar kæmi að gjaldheimtuhliðum?
„Það er líka eitthvað sem að löggjafinn þyrfti að ákveða en Reykjavíkurborg er til dæmis á nesi þannig að þetta er þægilegra fyrir okkur heldur en til dæmis í London sem er inni í miðju landi. Það er oft talað um þetta sem tollhringi en hjá okkur er til dæmis ein möguleg útfærsla og það væri að miða við Elliðaárnar og Fossvoginn. Þá ertu kominn með hálfgerða skeifu þar. Það eru ekki margir vegir sem að liggja þar inn og út þannig að það væri til dæmis tæknilega einfalt.“
Segir hann að þar sé þó bara um eina mögulega útfærslu að ræða. Aðrar útfærslur væru til dæmis að gjaldtaka yrði þegar farið væri inn eða út af höfuðborgarsvæði eða þegar keyrt yrði á milli sveitarfélaga.
Davíð nefnir að félagið sé með samgöngulíkan af höfuðborgarsvæðinu sem var útbúið af danskri verkfræðistofu fyrir Vegagerðina og sveitarfélögin. Getur líkanið metið áhrif af gjaldtöku af mismunandi stöðum og áætlað tekjur. Þá getur það líka áætlað hvernig gjaldtaka leggst á mismunandi hópa.
„Við höfum til dæmis skoðað það eftir póstnúmerum, af því að fljótt á litið myndi kannski einhver líta á þetta sem einhverskonar úthverfaskatt, að þarna sé verið að leggja skatt á fólk sem að býr í úthverfum en vinnur miðsvæðis. En það er hægt að útfæra þetta, og við höfum séð í samgöngulíkaninu, að það sé hægt að leggja þetta nokkuð jafnt eftir póstnúmerum yfir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins,“ segir Davíð og bætir við.
„Það er þá alltaf eitthvað hámark. Þannig er þetta útfært á Norðurlöndunum, að það sé eitthvað hámark á hvern og einn, og líka með því að rukka fólk fyrir, ekki bara að fara inn í miðsvæðið heldur líka út af miðsvæðinu. Þá líka nærðu þessum áhrifum að þetta leggist svona jafnara yfir alla.“
Segir Davíð að lokum að rökin á bakvið umferðar- og flýtigjöldin séu að það þurfi að fjármagna með einhverjum hætti þær samgöngubætur sem á að ráðast í.
„Í mínum huga er það bara sanngjarnast að þeir sem að nota mannvirkin og eru að keyra á þeim borgi fyrir þau og líka það að þeir sem eru að valda umferðartöfum greiði fyrir það, því umferðartafir eru auðvitað mjög dýrar fyrir samfélagið. Þess vegna er þetta yfirleitt á Norðurlöndunum útfært þannig að það er hærra gjald á háannatíma. Partur af þessu er þá líka að reyna að stýra fólki í það að hugsa út í hvort það geti keyrt á öðrum tíma en háannartíma eða getur það fækkað ferðum.“
Segir hann að niðurstöður frá Norðurlöndum hafi sýnt að gjöldin hafi ekki einungis skilað tekjum heldur hafi einnig haft jákvæð áhrif á umferðarflæði og umferðartafir. Nefnir hann jafnframt að oft sé leitað töfralausna þegar kemur að umferðartöfum og að upptaka umferðar- og flýtigjalda væri kannski það sem kæmist því næst að kallast töfralausn.
„Því að þetta er líka eina framkvæmdin sem að kostar ekkert. Allt annað sem við erum að gera, byggja upp borgarlínu og mislægt gatnamót og allskonar stofnvega framkvæmdir, eru mjög dýrar en þetta hefur jákvæð áhrif á umferðina og skilar tekjum,“ segir Davíð og bætir við.
„Þannig þetta er eiginlega algjörlega brilljant og myndi hafa mjög jákvæð áhrif á umferðina á höfuðborgarsvæðinu.“