Yfirgnæfandi meirihluti forystumanna stjórnmálaflokka á Alþingi eru jákvæðir í garð uppfærðs samgöngusáttmála sem var undirritaður í gær.
Yfirgnæfandi meirihluti forystumanna stjórnmálaflokka á Alþingi eru jákvæðir í garð uppfærðs samgöngusáttmála sem var undirritaður í gær.
Yfirgnæfandi meirihluti forystumanna stjórnmálaflokka á Alþingi eru jákvæðir í garð uppfærðs samgöngusáttmála sem var undirritaður í gær.
Aðeins tveir voru neikvæðir í garð sáttmálans.
mbl.is hefur rætt við forystumenn og þingmenn í öllum flokkunum á Alþingi frá því að sáttmálinn var undirritaður á miðvikudag.
Fram hefur komið í máli Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í samtali við mbl.is að hún væri ekki sátt við sáttmálann
„Þetta er bara kosningaloforð. Þeir eru byrjaðir að lofa milljörðum. Talandi um 16 milljarða á ári. Ríkissjóður er rekinn með gríðarlegum halla eins og við vitum og við erum að glíma hér við verstu efnahagsstjórn í heimi,“ sagði Inga Sæland í samtali við mbl.is.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, kvaðst hvorki vera sáttur við samgöngusáttmálann né útgjöld ríkissjóðs í tengslum við hann.
„Við teljum að þessi áhersla á að þrengja að almennri umferð fjölskyldubílsins sé úr öllu hófi gengin. Við höfum séð á þessu fyrstu fimm árum [eftir fyrstu undirritun] að það er þrengt að og tafið fyrir stofnbrautaframkvæmdunum á meðan reynt er að ýta borgarlínuhlutanum hraðar áfram heldur en skynsamlegt getur talist,“ sagði Bergþór Ólason í samtali við mbl.is.
Eðli málsins samkvæmt eru forystumenn í ríkisstjórninni sáttir með undirritun sáttmálans.
„Það er svo langt frá því að vera sjálfsagt að ríki og sveitarfélög geti náð sér saman um svona langtímasýn í jafn miklu grundvallarmáli eins og samgöngumál fyrir allt höfuðborgarsvæðið til 2040 eru. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þetta sé gífurlega mikill áfangi,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, í samtali við mbl.is.
Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og oddviti Vinstri grænna í Reykjavík suður, var ánægð með undirritunina er mbl.is náði af henni tali.
„Þetta er náttúrulega bara mjög dýrmætur og mikilvægur áfangi fyrir samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu en líka bara fyrir framtíðarsýn uppbyggingar samfélagsins,“ sagði hún.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar, var ánægður eftir undirritunina en sagði að honum þætti eðlilegt að sáttmálinn yrði tekinn til endurmótunar með reglubundnum hætti og nefndi til dæmis á fimm ára fresti.
„Mér kæmi ekkert á óvart ef í þeim fasa þá muni jafnvel einhver verkefni sem við erum búin að móta núna jafnvel breytast í að stækka eða jafnvel að það bætist við verkefni.“
Stjórnarandstöðuflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Píratar lýstu yfir mikilli ánægju með sáttmálann. Á sveitarstjórnarstiginu mynda þessi þrír flokkar meirihluta í borgarstjórn ásamt Framsókn.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði flokkinn fagna því að loksins væri búið að uppfæra samgöngusáttmálann.
„Í mínum huga skiptir mjög miklu máli að það sé samstaða á milli allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um þessa uppfærslu og ekki síður að ríkið skuldbindi sig til að stíga sterkar inn meðal annars með þátttöku í rekstri almenningssamgangna. Það er krafa sem að hefur verið uppi mjög lengi og mikilvægt að svara,“ sagði Þórunn í samtali við mbl.is.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að Viðreisn tæki vel í uppfærðan samgöngusáttmála og að fegurð væri fólgin í því að hann hafi verið gerður á þverpólitískum grunni.
„Það var löngu kominn tími á samgönguumbætur og uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Þorgerður í samtali við mbl.is.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði að flokkurinn væri ánægður með að uppfærður sáttmáli væri kominn í höfn.
„Mér finnst kannski sérstaklega muna um samgöngurnar sem eru þarna. Borgarlínan mun stökkbreyta því hvernig almenningssamgöngur virka og göngu- og hjólastígar sem við sjáum strax hvað þeir geta breytt miklu hvaða varðar samgöngumynstrið á svæðinu,“ sagði hann í samtali við mbl.is.