Það eru tískustraumar í heilsuheiminum eins og annars staðar. Gerjuðu ávextirnir frá Share eru á margra vörum núna en þeir eiga aðallega að hjálpa fólki með vandamál tengd meltingarveginum.
Það eru tískustraumar í heilsuheiminum eins og annars staðar. Gerjuðu ávextirnir frá Share eru á margra vörum núna en þeir eiga aðallega að hjálpa fólki með vandamál tengd meltingarveginum.
Það eru tískustraumar í heilsuheiminum eins og annars staðar. Gerjuðu ávextirnir frá Share eru á margra vörum núna en þeir eiga aðallega að hjálpa fólki með vandamál tengd meltingarveginum.
En hvað er þetta? Gerjaðir ávextir koma úr aldagamalli aðferð frá asískri menningu. Ávextirnir eru stútfullir af góðgerlum sem eiga að stuðla að eðlilegri þarnaflóru og meltingu. Uppskriftin sem notast er við er talin vera í kringum 1.200 ára gömul. Japanska apríkósan frá Share hefur verið gerjuð í viðartunnum í þrjátíu mánuði og velt upp úr jurtablöndu sem inniheldur meðal annars aloe vera, gulrætur, trönuber og rauðbeður. Hinn ávöxturinn sem er í boði er pomelo-greipaldin sem þykir hafa meiri áhrif.
Á heimasíðu Share á Íslandi kemur fram að fólk finni yfirleitt fljótt fyrir virkni ávaxtarins. Mælt er með því að taka lítinn bita af honum á hverjum degi og þannig viðhalda góðri meltingu. Sumir gætu farið of geyst í upphafi og mega þá búast við tíðum klósettferðum. Guðrún Kristjánsdóttir, annar eigenda heilsuverslunarinnar Systrasamlagsins, segir það hið besta mál að borða gerjaða ávexti en hvetur fólk til að fara varlega af stað. Eyrún Telma Jónsdóttir segir einnig frá reynslu sinni af ávextinum en hún segist mun léttari á sér og er hætt að nota önnur meltingarlyf.
Guðrún Kristjánsdóttir, annar eigandi Systrasamlagsins, segir ávextina vera skemmtilegt heilsutrend fyrir haustið.
„Líkt og glúkósagyðjan var í fyrra og laxerolían einu sinni o.s.frv. Það kemur vonandi eitthvað gott úr þessu á endanum,“ segir Guðrún. „Það er í sjálfu sér hið besta mál að borða gerjaða ávexti ekki síður en grænmeti. Við þurfum flest kröftugri þarmaflóru, fjölbreyttari fæðu og minna gjörunnið.“
Henni heyrist þó að margir séu stanslaust á klósettinu með niðurgang vegna plómuáts. „Það veit aldrei á gott. Þá hendir maður barninu út með baðvatninu og getur farið á mis við upptöku næringar og þá sérstaklega steinefna. En eins og með allt henta plómurnar sumum sjálfsagt betur en öðrum. Við erum ólík. Munum það.“
Hún mælir með að fólk fari varlega og taki þetta í tímabilum frekar en stanslaust. „Svo má benda á það að stundum er gott að horfa til Asíu þaðan sem plómurnar koma. Asía hefur svo margt gott fram að færa með mat og lækningajurtir. Fara varlega er kannski það sem ég myndi helst vilja segja.“
Eyrún Telma Jónsóttir hefur tekið alls konar hægðalosandi lyf í gegnum tíðina en ákvað að prófa ávöxtinn frá Share eftir að sjúkraþjálfari hennar benti henni á hann.
„Ég hafði heyrt um þetta frá mörgum vinkonum mínum áður en aldrei pælt meira í því. Ég hugsaði að ég væri nú þegar að taka alls konar magnesíum og önnur hægðalosandi lyf, því það er eitthvað sem ég hef þurft að gera daglega, og hef haft litla trú á öllu öðru. En svo benti sjúkraþjálfarinn minn mér á þetta og sagði að konur með sömu kvilla og ég væru að dásama þetta. Ég prófaði og hef ekki hætt síðan því ég var eiginlega bara í sjokki hvað þetta virkaði vel fyrir mig,“ segir Eyrún.
Hún hefur tekið bita af ávextinum daglega síðustu sex mánuði og er hætt að taka öll önnur hægðalyf sem hún notaði áður. „Það hefur ekkert virkað betur fyrir mig en þetta.“
En hverju hefur þetta breytt? „Mestu áhrifin sem ég finn er að ég næ að fara á klósettið daglega en það er nokkuð sem ég hef átt í mestu vandamálum með og hefur verið í mörg, mörg ár, eiginlega síðan ég man eftir mér. Ég er vanalega mjög stífluð þótt ég hreyfi mig daglega og passi upp á mataræði og vatnsdrykkju. Svo helst það í hendur við að ég finn fyrir miklu minni uppþembu, er mun minna útblásin og ég finn líka mun á vökva í líkamanum eins og bjúg. Húðin er betri, bæði í andlitinu og á líkamanum, en ég held að það sé út af góðgerlunum,“ segir Eyrún.
„Þetta er stútfullt af góðgerlum og eftir því sem ég hef lesið og lært í gegnum árin að því betri sem flóran er í meltingarveginum því jákvæðari áhrif hefur það á allt annað. Ég er mun léttari á mér og ég man að þegar ég byrjaði fyrst að taka þetta þá léttist ég um fjögur kíló á einni viku. Það var ekki vegna þess að ég væri að reyna að grennast heldur að ég hafi verið svona stífluð. Það er ekki eins og ég sé alltaf ólétt því maður er svo stíflaður, sem er svo leiðinlegt. Fólk var nánast farið að spyrja,“ segir hún og hlær.
Eyrún hefur átt í vanda með hægðatregðu, exem, þurrkbletti og bólur síðustu árin en hefur fundið mun á sér. „Þó svo að ég fái tímabil þar sem breyting er á hormónalyfjum þá hefur húðin haldist merkilega fín svo ég held að þetta hafi haft jákvæð áhrif á það.“
Hún segir það hafa tekið sig nokkra daga að fikra sig áfram í hæfilegu magni og hvenær hún ætti að taka bita af ávextinum. „Ég fann mun eftir svona tvo daga og þá fannst mér þetta byrja ágætlega. Ég tek einn fjórða af ávextinum á kvöldin og finn á morgnana að ég næ að losa vel og fer ferskari inn í daginn.“