Hreppti þrjá Íslandsmeistaratitla eftir þrettán ára pásu og fjögur börn

Meðganga | 25. ágúst 2024

Hreppti þrjá Íslandsmeistaratitla eftir þrettán ára pásu og fjögur börn

Hin 35 ára gamla Íris Anna Skúla­dótt­ir hef­ur náð frá­bær­um ár­angri í hlaup­um á ferli sín­um sem hófst þegar hún var níu ára göm­ul hjá íþrótta­fé­lag­inu Fjölni. Hún átti far­sæl­an fer­il og vann til fjölda verðlauna, en í kring­um tví­tugt lenti hún í þrá­lát­um meiðslum sem urðu til þess að áhug­inn fór dvín­andi. Stuttu síðar varð hún ófrísk að sínu fyrsta barni og skráði sig í há­skóla­nám og því færðist fókus­inn úr hlaup­un­um yfir í aðra hluti.

Hreppti þrjá Íslandsmeistaratitla eftir þrettán ára pásu og fjögur börn

Meðganga | 25. ágúst 2024

Íris Anna Skúladóttir hefur náð frábærum árangri í hlaupum á …
Íris Anna Skúladóttir hefur náð frábærum árangri í hlaupum á ferli sínum. Samsett mynd

Hin 35 ára gamla Íris Anna Skúla­dótt­ir hef­ur náð frá­bær­um ár­angri í hlaup­um á ferli sín­um sem hófst þegar hún var níu ára göm­ul hjá íþrótta­fé­lag­inu Fjölni. Hún átti far­sæl­an fer­il og vann til fjölda verðlauna, en í kring­um tví­tugt lenti hún í þrá­lát­um meiðslum sem urðu til þess að áhug­inn fór dvín­andi. Stuttu síðar varð hún ófrísk að sínu fyrsta barni og skráði sig í há­skóla­nám og því færðist fókus­inn úr hlaup­un­um yfir í aðra hluti.

Hin 35 ára gamla Íris Anna Skúla­dótt­ir hef­ur náð frá­bær­um ár­angri í hlaup­um á ferli sín­um sem hófst þegar hún var níu ára göm­ul hjá íþrótta­fé­lag­inu Fjölni. Hún átti far­sæl­an fer­il og vann til fjölda verðlauna, en í kring­um tví­tugt lenti hún í þrá­lát­um meiðslum sem urðu til þess að áhug­inn fór dvín­andi. Stuttu síðar varð hún ófrísk að sínu fyrsta barni og skráði sig í há­skóla­nám og því færðist fókus­inn úr hlaup­un­um yfir í aðra hluti.

Íris er fædd og uppalin í Grafarvogi og býr þar í dag ásamt eiginmanni sínum, Sigurgísla Gíslasyni, og börnunum þeirra fjórum. Hún er með BS-gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og vann til fjölda ára í Birtu lífeyrissjóði, en í ársbyrjun 2022 tóku þau hjónin við rekstri rótgróins fyrirtækis.

„Ég tók stökkið með honum og fór á fullt í reksturinn og hef verið í því síðan. Fyrirtækið sérhæfir sig í alhliða fasteignaviðhaldi en mitt starf felst einkum í því að sinna því sem viðkemur daglegum rekstri skrifstofu, skipulagi, fjármálum, tilboðs- og reikningagerð, innkaupum og ýmsu fleiru. Starfsstöðin er nálægt heimilinu og það gerir það auðveldara að samræma vinnu og annasamt fjölskyldulíf. Ég get einnig unnið að heiman ef á reynir og á öllum tímum sólarhringsins, ef ég kæri mig um. Engir tveir dagar eru eins og ég finn mig vel í þessu fjölbreytta starfi,“ segir Íris.

Sigurgísli og Íris ásamt börnunum sínum, þeim Skúla, Hildi, Gísla …
Sigurgísli og Íris ásamt börnunum sínum, þeim Skúla, Hildi, Gísla og Unni. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Fann sig í lengri hlaupunum

Íris byrjaði að æfa frjálsar íþróttir þegar hún var níu ára gömul hjá Fjölni eftir að góð vinkona hennar sem æfði frjálsíþróttir hvatti hana til að prófa. „Mér þótti mjög gaman frá fyrsta degi en var reyndar ekkert sérstök í neinu framan af. Þar eignaðist ég margar af mínum bestu vinkonum og þjálfarinn, Jónína Ómarsdóttir, eða Ninna eins og hún er oftast kölluð, var einstaklega lagin við að útfæra skemmtilegar æfingar og stuðla að góðum liðsanda innan sem utan vallar,“ segir Íris.

„Það var síðan um 12-13 ára aldurinn að fókusinn hjá mér fór að færast yfir í lengri hlaupin, svokölluð millivegalengdahlaup, þá aðallega 800 og 1.500 metra hlaup, en það var svona það sem virtist liggja best fyrir mér af því sem í boði var. Ég komst í úrvalshóp og svo í afrekshóp, sem varð hvatning til þess að stefna ennþá lengra í hlaupunum. Þá komst ég í landsliðið 14 ára og það hélt mér vel við efnið árin á eftir,“ bætir hún við.

Íris upplifði feril sinn sem bæði viðburðaríkan og farsælan, en þegar hún horfir til baka viðurkennir hún þó að hann hefði eflaust getað orðið lengri hefði hún haldist heil, verið barnlaus lengur og ef viljinn hefði verið fyrir hendi. „Ég fékk að ferðast mjög víða í keppnisferðir og upplifði mjög margt skemmtilegt, krefjandi og þroskandi á þessu ferðalagi. Ég keppti á tveimur heimsmeistaramótum í unglingaflokkum, á Norðurlandamótum, Evrópubikarkeppnum og Smáþjóðaleikum svo eitthvað sé nefnt,“ segir Íris.

„Það var um og upp úr tvítugu sem ég var, að mér fannst, alltaf hálfmeidd og eyddi töluverðum tíma í sjúkraþjálfun. Áhuginn og eldmóðurinn fóru dvínandi samhliða því. Ég verð síðan ólétt stuttu síðar, á meðan ég var við nám í háskólanum, og lítill tími vannst til þess að spá í hlaupin, auk þess sem fókusinn var kominn á annað mikilvægara,“ segir hún.

„Ég hafði snúið mér að crossfit á þessum tíma með það að markmiði að breyta til, ná mér af meiðslum og styrkja mig. Fyrst í Kringlunni en svo í Crossfit Reykjavík frá árinu 2013 og hef verið partur af því frábæra samfélagi í rúman áratug núna. Ég hljóp þó alltaf eitthvað með og hætti aldrei að upplifa mig sem hlaupara,“ bætir hún við.

Eftir meðgönguna sneri Íris sér að crossfit en var þó …
Eftir meðgönguna sneri Íris sér að crossfit en var þó alltaf að hlaupa eitthvað samhliða því. Ljósmynd/Sigurður P. Sigmundsson

Byrjaði að mæta í mömmutíma hjá Crossfit Reykjavík

Íris á í dag fjögur börn ásamt eiginmanni sínum, en fyrst í röðinni er Unnur Karen sem kom í heiminn árið 2012. Skúli Páll er næstelstur, fæddist árið 2014, svo kom Hildur Freyja í heiminn árið 2016 og að lokum Gísli 2019.

„Ég átti nokkuð góðar meðgöngur heilt yfir. Mér hefur gengið vel að koma mér aftur af stað að hreyfa mig eftir barneignir og regluleg hreyfing á meðgöngu hefur hjálpað við það. Ég lagði upp úr því að hlusta á líkamann og gaf mér þann tíma sem þurfti hverju sinni. En ferlið var aðeins ólíkt á milli meðganga. Eins er það ólíkt á milli kvenna, bæði líkamlega og andlega, og því er ekkert eitt rétt sem virkar fyrir allar konur. Eins eru aðstæður í lífi kvenna breytilegar svo það sem virkar vel á einni meðgöngu getur verið að passi ekki eins vel á þeirri næstu. Lykillinn er að vera þolinmóður og halda áfram þó að á móti kunni að blása,“ segir Íris.

Þegar Íris var að koma sér aftur af stað í hreyfingu eftir barneignir byrjaði hún á því að skrá sig í mömmutíma hjá Crossfit Reykjavík. „Mér þótti virkilega notalegt að komast út af heimilinu og hitta aðrar mömmur með börnin með og taka styrktaræfingar sem var auðvelt að aðlaga sinni líkamlegu getu hverju sinni. Eftir einhverjar vikur eða mánuði í mömmutímum fann ég að mér þótti tímabært að færa mig yfir í almenna tíma, en það var yfirleitt eftir að börnin voru byrjuð hjá dagmömmu. Hlaupin komu svo inn aðeins á eftir styrktaræfingunum,“ segir hún.

„Mér fannst í raun bara gaman að koma til baka með hreinan skjöld í hlaupunum ef svo má segja, enda svo langt um liðið frá því ég var áður á fullu að keppa í hlaupum. Það hafði blundað í mér lengi að bæta aðeins í hlaupin og sjá hvað ég gæti, því mér fannst ég eiga eitthvað inni. Ég hafði svo sem ekki hætt að upplifa mig og skilgreina mig að einhverju leyti sem hlaupara og aldrei sagt alveg skilið við hlaupin,“ segir Íris.

„Til dæmis var ég fengin til að keppa á Norðurlandamótum í víðavangshlaupum fyrir landsliðið árin 2013 og 2018, þegar sú keppni var haldin hér heima, en 2018 keppti ég einnig í hálfmaraþoni í Kaupmannahöfn með ágætum árangri, eða á 1:23:55, sem var bæting á þeim tíma þrátt fyrir lítið hlaupamagn. En það var í raun ekki fyrr en 2021 að ég fer aftur að hlaupa skipulega að einhverju ráði. Það ár skráði ég mig í Laugavegshlaupið með Arndísi Ýri vinkonu minni, en við höfum hlaupið mjög mikið saman í gengum tíðina og vorum spenntar fyrir þessari áskorun. Sem lið í þeim undirbúningi fór ég að mæta á hlaupaæfingar hjá Sigga P. og hef ekki hætt að mæta síðan í rauninni,“ bætir hún við.

Aðspurð segir Íris að það sem hafi breyst einna helst eftir barneignirnar sé hvernig hún æfir.

„Á mínum yngri árum reyndi ég að lyfta sem allra minnst og hlaupa sem allra mest og hraðast á öllum æfingum. Í dag finnst mér mikilvægt og það sem meira er, skemmtilegt, að stunda styrktaræfingar samhliða hlaupum og hef áttað mig á því að meira og hraðar er ekki alltaf betra – fyrir mig allavega. Eins er ég mun minna stressuð en ég var sem barn og nýt þess betur að bæði æfa og keppa í hlaupum. Þá hef ég einnig fært mig töluvert yfir í utanvega- og fjallahlaupin og keppt á heimsmeistaramóti í fjallahlaupum síðastliðin þrjú ár í Taílandi, Austurríki og nú síðast í Frakklandi. Það hefur verið virkilega skemmtileg og gefandi viðbót við götu- og brautarhlaupin,“ segir hún.

Á síðustu árum hefur Íris einnig fundið sig í utanvega- …
Á síðustu árum hefur Íris einnig fundið sig í utanvega- og fjallahlaupum. Ljósmynd/Sigurjón Ernir Sturluson

Varð þrefaldur Íslandsmeistari eftir þrettán ára pásu

Árið 2023 keppti Íris aftur á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum eftir þrettán ára pásu og fjórar barneignir, en hún gerði sér lítið fyrir og vann þrjá Íslandsmeistaratitla, í 5.000 og 1.500 metra hlaupi ásamt 4x400 metra boðhlaupi með boðhlaupssveit FH.

„Það var fyrst og fremst ótrúlega skemmtilegt að keppa aftur á MÍ eftir 13 ára pásu. Þetta var nokkuð sem ég var fyrir löngu búin að afskrifa. Mér gekk ótrúlega vel en ég varð Íslandsmeistari í öllum þeim greinum sem ég keppti í. Tilfinningin að koma til baka og að ganga svona vel var ótrúlega góð. Ég hugsa reglulega að nú ætli ég að fara að minnka þessi brautarhlaup, en svo finnst mér þau svo skemmtileg að ég hef enn ekki tímt því að setja gaddaskóna aftur á hilluna. Ég ætla að leyfa mér að sprikla í þessu á meðan ég hef gaman af því. Hugarfarið í seinni tíð er allt annað og afslappaðara að mörgu leyti. Ég er búin að finna mína hillu í lífinu, á yndislega fjölskyldu og góða vini. Hlaupin veita mér viðbótarhamingju og lífsfyllingu en þau eru í dag minni hluti af mínu lífi ólíkt því sem áður var,“ útskýrir Íris.

Íris gerði sér lítið fyrir og varð þrefaldur Íslandsmeistari á …
Íris gerði sér lítið fyrir og varð þrefaldur Íslandsmeistari á MÍ 2023. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson

Hver heldur þú að sé lykillinn að árangri þínum í dag?

„Ég er viss um að lykillinn sé sá að ég hef mjög gaman af því sem ég geri. Ég hef gaman af að styrkja mig í crossfit á þeim tímabilum sem þær æfingar eru á planinu og ég hef gaman af að mæta á hlaupaæfingar og skokka. Í því felst ákveðin hugleiðsla og ekki skemmir fyrir að ég hef góðan æfingafélaga í Sigurgísla, manninum mínum, en við æfum mjög mikið saman auk fleiri góðra hlaupavina og æfingafélaga, og virkilega góðan þjálfara sem heldur vel utan um okkur.“

Íris og Sigurgísli eru dugleg að æfa saman.
Íris og Sigurgísli eru dugleg að æfa saman. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Hvað leggur þú mesta áherslu á þegar kemur að lífsstílnum?

„Ég get ekki með góðri samvisku haldið því fram að ég sé heilög þegar kemur að þessum þáttum. Ég reyni að borða þokkalega hollan heimilismat en leyfi mér það gotterí sem mig langar í hverju sinni en reyni þá að gæta hófs. Ég reyni að sofa þokkalega vel en hef í gegnum árin kannski vanrækt svefninn. Ég æfði í mörg ár klukkan sex á morgnana alla virka daga og svaf sennilega ekki nóg. Þá var ég einnig samhliða með ungbörn og þeim árum fylgir alltaf ákveðið svefnleysi.

Í dag er ég hætt að þurfa að æfa alltaf klukkan sex á morgnana svo dæmið gangi upp og það hefur gefið mér kost á lengri nætursvefni en áður. Ég er í það minnsta hætt að sofna í tíma og ótíma á ólíklegustu stöðum eins og ég átti til hér á árum áður, svo sennilega er svefninn kominn í gott horf. Ég tel hvíld frá æfingum líka mikilvæga og hvíli samviskusamlega þá daga sem þjálfarinn setur fyrir en hann þekkir orðið vel inn á mig og veit hvað ég þoli og hvað virkar vel fyrir mig þegar kemur að samspili æfinga og hvíldar. Ég er fjögurra barna móðir í fullri vinnu og ekki að stefna á Ólympíuleikana – hann tekur mið af því heildarálagi sem maður er undir hverju sinni og leggur mikið upp úr því að halda sínum iðkendum meiðslalausum.

Hlaupin eru mjög andlegt sport og mikilvægt að hlúa einnig að andlegu hliðinni samhliða líkamlegum æfingum. Ég reyni að vera jákvæð og gríp inn í ef mér þykir hausinn vera farinn að leita í neikvæðar hugsanir. Ef maður er meðvitaður um það, þá æfist maður í því með tímanum. Ég tel þó sérstaklega mikilvægt að hlúa vel að andlegri heilsu yngri iðkenda sem eru efnilegir í sinni íþrótt. Því getur fylgt mikil pressa sem ekki allir eru búnir undir. En hlaupin eru mjög þroskandi og styrkjandi einstaklingsíþrótt og ég er viss um að mín uppvaxtarár í frjálsum hafa styrkt mig sem einstakling og fært mér ákveðna þrautseigju sem hefur reynst mér vel í lífinu.“

Andlega heilsan skiptir gríðarlega miklu máli í íþróttinni og leggur …
Andlega heilsan skiptir gríðarlega miklu máli í íþróttinni og leggur Íris mikið upp úr því að hlúa að henni. Ljósmynd/Marta Siljudóttir

Hvernig er hefðbundin æfingavika hjá þér?

„Það er mjög breytilegt eftir tímabilum en ég æfi oftast sex daga vikunnar og hvíli einn dag, en stundum oftar ef mikið er um keppnir. Oftast eru tvær gæðaæfingar á viku og svo rólegra skokk, crossfit eða hvíld þess á milli. Flestar æfingar taka mjög hóflegan tíma en svo eru gjarnan lengri rólegri túrar um helgar, á vissum tímabilum, sem taka tvo til þrjá tíma. Það hefur reynst mér vel að keyra á hóflegu hlaupamagni ef ég tek styrktaræfingar samhliða hlaupunum.“

Ertu með einhver góð ráð fyrir þá sem vilja ná lengra í hlaupum?

„Það fer aðeins eftir því hvar fólk er statt almennt hlaupalega. Fyrir byrjendur sem lengra komna myndi ég mæla með að finna sér góðan þjálfara og/eða skokkhóp sé maður ekki þegar búinn að því. Góður þjálfari veitir gott aðhald og sér um að hjálpa þér að ná þínum hlaupamarkmiðum, hver sem þau kunna að vera, eða hjálpar þér að setja þér raunsæ markmið ef þú þarft aðstoð með það.

Góður skokkhópur eða jafnvel bara góður hlaupafélagi getur gert hlaupin mun ánægjulegri. Hlauparar eru ótrúlega góður félagsskapur fyrir aðra hlaupara, því þeir hafa gaman af því að ræða hin ýmsu hlaupatengdu málefni sem aðrir kunna að hafa takmarkaðan áhuga á að ræða.

Fyrir þá sem eru þegar með þjálfara og í hlaupahóp en vilja ná lengra getur verið gott að skrá sig í einhver af þeim fjölmörgu hlaupum sem í boði eru. Keppnir geta verið virkilega góð æfing og oft nær maður meiru út úr sér í keppni en á góðri æfingu.“

Íris mælir með því að fólk finni sér góða æfingafélaga …
Íris mælir með því að fólk finni sér góða æfingafélaga og þjálfara. Ljósmynd/Úr einkasafni

En fyrir mæður sem eru að koma sér aftur af stað í hreyfingu eftir barneignir?

„Ég mæli með því að fara rólega af stað og hlusta á líkamann. Sumar konur þola að byrja aftur að hreyfa sig þremur til fjórum vikum eftir barneignir en aðrar konur eru lengur að komast á þann stað að vera tilbúnar að byrja að æfa. Mikilvægast er að hlusta á líkamann og fara ekki fram úr sér. Hreyfing er af hinu góða, ekki síður fyrir andlega líðan eftir barnsburð, og því tel ég jákvætt að byrja að hreyfa sig eitthvað um leið og maður treystir sér til. Fyrst bara létta göngutúra eða styrktaræfingar og byggja svo ofan á það með tímanum.“

Íris mælir með því að mæur fari rólega af stað …
Íris mælir með því að mæur fari rólega af stað þegar kemur að hreyfingu eftir barneignir. Ljósmynd/Eyþór Árnason
mbl.is