Skráði sig í lögfræði eftir vesen vegna galla í fyrstu fasteign

Framakonur | 25. ágúst 2024

Skráði sig í lögfræði eftir vesen vegna galla í fyrstu fasteign

Síðustu ár hafa verið annasöm hjá Ýri Guðjohnsen, framkvæmdastjóra og stofnanda verslunarinnar Attikk. Hún tók óvænta u-beygju fyrir þremur árum og skráði sig í nám við lagadeild Háskóla Íslands, en sama ár eignaðist hún sitt fyrsta barn.

Skráði sig í lögfræði eftir vesen vegna galla í fyrstu fasteign

Framakonur | 25. ágúst 2024

Ýr Guðjohnsen og kærasti hennar, Daníel Jörgensen, á útskriftardaginn.
Ýr Guðjohnsen og kærasti hennar, Daníel Jörgensen, á útskriftardaginn.

Síðustu ár hafa verið annasöm hjá Ýri Guðjohnsen, framkvæmdastjóra og stofnanda verslunarinnar Attikk. Hún tók óvænta u-beygju fyrir þremur árum og skráði sig í nám við lagadeild Háskóla Íslands, en sama ár eignaðist hún sitt fyrsta barn.

Síðustu ár hafa verið annasöm hjá Ýri Guðjohnsen, framkvæmdastjóra og stofnanda verslunarinnar Attikk. Hún tók óvænta u-beygju fyrir þremur árum og skráði sig í nám við lagadeild Háskóla Íslands, en sama ár eignaðist hún sitt fyrsta barn.

Á þessum tíma var Ýr einnig nýlega búin að opna eigið fyrirtæki og sinnti því rekstri á verslun sinni Attikk, sem býður upp á lúxusmerkjavörur í endursölu, samhliða náminu og móðurhlutverkinu.

Eftir að Ýr hafði lokið við framhaldsskólanám var hún staðráðin í því að mennta sig í heilbrigðisvísindum og skráði sig í nám á því sviði. Stuttu síðar festi hún kaup á sinni fyrstu eign með kærasta sínum, en galli í eigninni varð til þess að hún tók óvænta u-beygju og skráði sig í lögfræðinám.

„Við lentum í smá gallaveseni með fyrstu fasteignina okkar og var þá sannfærð af lögfræðingnum okkar um að lagadeildin ætti miklu betur við mig og það reyndist hárrétt. Ég fann mig algjörlega þar,“ segir Ýr.

„Ég var tiltölulega nýbúin að opna Attikk en reksturinn sjálfur var þó ekki beint áhrifavaldur, menntunin hefur þó komið að góðum notum frá upphafi,“ bætir hún við.

Ýr er stofnandi og framkvæmdastjóri verslunarinnar Attikk.
Ýr er stofnandi og framkvæmdastjóri verslunarinnar Attikk.

Með of marga bolta á lofti

Aðspurð segir Ýr námið í raun hafa gengið óeðlilega vel miðað við aðstæður, en hún viðurkennir þó að það hafi ekki verið án hindrana. „Með ungbarn, fyrirtæki og tilheyrandi var þetta vissulega erfitt, en að minnsta kosti aldrei leiðinlegt. Auðvitað fylgdu þessu líka ákveðnar fórnir, til dæmis í félagslífi,“ segir hún.

„Á tímum átti ég mjög erfitt með álagið og fannst ég ekki geta lagt mig alla fram í neinu af því að boltarnir voru of margir til að halda þeim öllum á lofti. Sú tilfinning leið þó hjá eins og allar aðrar ef ég passaði að hlúa aðeins að sjálfri mér,“ bætir hún við.

Hvernig gekk að tvinna saman nám, fyrirtækjarekstur og barneignir?

„Vitur maður sagði mér eitt sinn að ehf. (einkahlutafélag) stæði fyrir „ekkert helvítis frí“. Ég ætla ekki að rengja það. En með sterku baklandi er allt hægt og ég er heppin þar.

Ég mannaði fyrirtækið með ómetanlegu fólki sem stóð yfirleitt vaktina. Maðurinn minn tók heila skólaönn í fæðingarorlofi svo ég þyrfti ekki að taka mér pásu og fjölskyldur okkar voru alltaf reiðubúnar að fylla í skarðið. Ég þurfti alveg reglulega að skreppa frá skóla vegna dóttur minnar og fyrirtækisins, en það gerði ekkert til. Bekkjarsystur mínar sendu mér alltaf glósur úr tíma, jafnvel óumbeðnar.“

Ýr segir það hafa gengið furðu vel að tvinna saman …
Ýr segir það hafa gengið furðu vel að tvinna saman námið, móðurhlutverkið og fyrirtækjareksturinn, en hún er þakklát fyrir að eiga gott bakland.

Hvernig skipulagðir þú dagana þína?

„Ég er mikil skipulagskona en með allri þeirri ábyrgð sem fylgdi náminu, foreldrahlutverki og fyrirtækjarekstri var nær ómögulegt að fylgja plani. Mér fannst það mjög erfitt.

Ég reyndi eftir fremsta megni að gefa mér að minnsta kosti tvær klukkustundir, tvisvar í viku, sem voru bara fyrir mig. Mér fannst eiginlega erfiðara að skipuleggja hvenær og hvernig ég ætti að lesa utan skólatíma. Ef ég var ekki í tíma var ég nánast undantekningarlaust að vinna eða með dóttur mína.

Fyrsta árið gekk ágætlega að svæfa hana með dómareifunum en það hætti svo að vera spennandi. Með þessu öllu neyddist ég til að vera pínu náttugla. Ég reyni að skipuleggja kvöldin eftir verkefnum. Einhver kvöld vikunnar er ég að búa til markaðsefni fyrir Attikk og önnur kvöld er ég að lesa fyrir próf. Næsta kvöld er ég svo að merkja leikskólafötin og þar á eftir fara yfir starfsumsóknir. Lífið er að minnsta kosti ekki einhæft.“

Hér má sjá týpískt skipulag hjá Ýri þegar dóttir hennar …
Hér má sjá týpískt skipulag hjá Ýri þegar dóttir hennar var yngri.

Hvernig tókstu á við mikla álagspunkta?

„Lokaprófin voru erfiðust. Í prófatíð átti ég líka mjög erfitt. Þá svaf heimilið og reksturinn á næturnar – allir nema ég. Þessar fjórar klukkustundir á viku sem ég lofaði sjálfri mér í upphafi annar fóru á hilluna. Allt skipulag fór út um gluggann og heimilið fór yfirleitt á hvolf.

Eftir hvert próf tók ég yfirleitt pásu, setti í vél og eyddi tíma með fjölskyldunni. almennt þraukaði ég bara þessar vikur, og fólkið mitt reyndi að þrauka mig, og svo gat ég andað. Með hverri önninni urðu lokaprófin samt alltaf aðeins auðveldari – kannski var það líka af því barnið varð eldra.“

Kom á óvart hve óbarnvænt háskólanám er

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart í náminu segir Ýr það vera hve óbarnvænt sumt háskólanám er. „Heimapróf eru til dæmis haldin utan skólatíma, um helgar eða á „úlfatíma“ og það sama á við um upprifjunarnámskeið fyrir lokapróf. En ómetanlegir vinir og skemmtileg menning í lagadeildinni standa klárlega upp úr,“ segir hún.

Hvaða fannst þér skemmtilegast?

„Ég á alltaf jafn erfitt með þessa spurningu. Skemmtilegustu áfangarnir reyndust vera þeir sem mér fannst leiðinlegastir í byrjun annar. Flest er skemmtilegt um leið og maður skilur efnið og það er margt innan hvers fags sem er sérstaklega áhugavert.“

En mest krefjandi?

„Mér fannst annað árið í lögfræðinni klárlega erfiðast.“

Það kom Ýri á óvart hve óbarnvænt sumt háskólanám er.
Það kom Ýri á óvart hve óbarnvænt sumt háskólanám er.

Hvernig ætlar þú að nýta námið?

„Ég er að fara beint í mastersnám í haust og er að hefja störf sem laganemi á lögmannsstofu. Ég hef svolítið vanist álaginu og held að ég nái fljótt að „balansera“ þetta allt. Ég hef ekki gert upp hug minn um framtíðina að öðru leyti, en það hefur reynst mér vel að vera með opinn hug og þora að taka á móti þeim tækifærum sem bjóðast.“

Ertu með einhver góð ráð fyrir þá sem eru að hefja nám í haust?

„Ekki vera feimin og tengið ykkur inn í deildina ykkar. Allt verður svo fimmfalt auðveldara í góðum félagsskap. Og aldrei segja nei við fríi.“

Ertu með einhver lærdóms- eða skipulags„trix“ fyrir skólafólk?

„Í bóklega þungu námi eins og lögfræði er ekkert mikilvægara en að lesa – algjör klisja sem ég fylgdi ekki alltaf, en það að lesa námsefnið fyrir tíma margborgar sig. Allra mikilvægast er þó að finna sér góðan félagsskap í náminu – fólk sem grípur þig ef þú kemst ekki í tíma og öfugt. Það gerir það líka auðveldara að mæta ef þú ert í góðra vina hópi.“

Hvað er fram undan hjá þér?

„Ég mun halda áfram að lesa og læra samhliða fjölskyldulífinu og nýju starfi. Að sjálfsögðu mun ég áfram bjóða Íslendingum traustan vettvang til að kaupa upprunavottaðar merkjavörur í Attikk.“

Það er margt spennandi framundan hjá Ýri!
Það er margt spennandi framundan hjá Ýri!
mbl.is