Þótt gert sé ráð fyrir að samgöngusáttmálinn nýundirritaði muni kosta 300 milljarða mun verkefnið sennilega kosta stórum meira. Þar er ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði og heldur ekki Sundabraut.
Þótt gert sé ráð fyrir að samgöngusáttmálinn nýundirritaði muni kosta 300 milljarða mun verkefnið sennilega kosta stórum meira. Þar er ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði og heldur ekki Sundabraut.
Þótt gert sé ráð fyrir að samgöngusáttmálinn nýundirritaði muni kosta 300 milljarða mun verkefnið sennilega kosta stórum meira. Þar er ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði og heldur ekki Sundabraut.
Þetta kemur fram í máli Eyþórs Arnalds, fyrrum oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en hann er gestur í nýjasta þætti Spursmála. Þar er hann gestur ásamt Hólmfríði Maríu Ragnhildardóttur, blaðamanni á Morgunblaðinu.
Segir hann að fyrirætluð gjaldtaka af verkefninu kunni að leiða nokkur hundruð þúsunda króna reikning á ári yfir hverja fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu. Stærðargráða verkefnisins sé af þeim toga. Það sé kostnaður sem leggjast muni ofan á aðra gjaldtöku af umferðar- og vegakerfinu.
Bendir Eyþór á að verkefnið sé enn að stórum hluta ófjármagnað og að það vanti stóra þætti inn í heildarmyndina til þess að draga upp rétta mynd af kostnaði við það að koma samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu í rétt horf.
Umræðuna um þessi mál má sjá í spilaranum hér að ofan en hún er einnig dregin saman í textanum hér að neðan.
Ný áætlun í sambandi við borgarlínu og samgöngusáttmála var kynnt núna í þessari viku. Þetta er orðið tröllaukið verkefni, ekki bara framkvæmdalega séð heldur peningalega séð. Þeir stefndu á 120 milljarða í upphaflegum samningi. Núna eru þetta 300 milljarðar. Það er búið að lengja áætlunina til 2040. Eyþór, þú varst í borgarstjórn, verða þetta 300 milljarðar eða verða þetta 600 milljarðar?
„Þetta verður örugglega meira og það var nú varað við því að þetta væri léleg áætlun í upphafi. En í raun og veru er stærðargráðan orðin slík að það er ágætt að setja hana í samhengi. Þessir 300 milljarðar eru svipaðir og Icesave-samningarnir voru verðtryggðir og ef við horfum á þetta miðað við stórkostleg áföll sem þjóðir hafa lent í þá er framúrkeyrslan, bara framúrkeyrslan, bara ef við tökum þessa 120 milljarða og setjum 160, að framúrkeyrslan er billjón dollarar. Það er billjón dollara framúrkeyrsla miðað við verðtryggðan samning. Og það er álíka stærðargráða og miðað við fólksfjölda og björgunarpakki bandaríska þingsins var hérna í bankahruninu 2009. Þannig að bara framúrkeyrslan á milli þessara tveggja samninga á fimm árum er af þessari stærðargráðu.“
„Nú það var mikill samhljómur og fögnuður og gleði í kringum þessa undirritun á endurskoðun samgöngusáttmála og þá rifjast svona svipaðar myndir upp fyrir manni, ekki bara 2019 þegar samningurinn vanreiknaði var kynntur með lúðrablæstri, heldur líka fyrsti samningurinn sem er ágætt að rifja upp sem er frá 2012. Þá var nefnilega gerður 10 ára samningur milli ríkisins, þegar ríkisstjórn Jóhönnu var, og sveitarfélaganna um að stöðva allar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Mislæg gatnamót og allt svoleiðis sett á ís. Og í staðinn færi peningurinn, vegaféð beint inn í almenningssamgöngur.“
Strætó.
„Já strætó. Og þá átti að tvöfalda hlutdeild strætó úr 4% í 8% á 10 árum. Síðan var þetta tilraun með mælanlegum markmiðum. Og það var farið á hverju ári og athugað hvernig gengi og það gekk akkúrat ekki neitt. Enginn árangur.“
Samt hættu menn ekki, héldu bara á sömu braut.
„Menn voru þarna með milljarð á ári. Svo fara menn í 120 milljarða. Nú fara menn í 300 milljarða. Hættan er sú að það skiptir engu máli hversu mikla peninga þú setur í málið að ef þú setur þetta ekki í rétta staði þá mun þetta ekki lagast.“
Við höfum nú verið að fjalla um framúrkeyrslur í verkefnum ýmiskonar, t.d. við Hornafjarðarfljót. Gríðarleg framúrkeyrsla sem veldur því að aðrar framkvæmdir sitja á hakanum. Hólmfríður, þú fylgist nú með þessum fréttaflutningi. Hvað er þetta með áætlanagerð og fjármál ríkisins. Getur maður ekki alltaf bara næstum tvöfaldað fjárhæðina miðað við það sem menn gefa upp.
„Jú, maður einhvern veginn er löngu hættur að gera ráð fyrir að þetta standist. við verðum að fara að taka viðtöl við þetta fólk sem sér um þessar áætlanagerðir. Hvort það sé í lagi með þessa vasareikna sem þeir eru að styðjast við.“
Kannski er þetta spurning um lesskilninginn margfræga?
„Já, maður spyr sig og þá er þetta ekki að fara að batna.“
Áætlanirnar munu versna og versna miðað við PISA-kannanirnar. En það er búið að undirrita þetta, erum við ekki föst í þessu neti. Er hægt að vinda ofan af þessu?
„Já, þetta er undirritað eins og fait accompli en þetta er ófjármagnað því þarna vantar meira en 100 milljarða þrátt fyrir að Keldnalandið sem var sett inn. Keldnalandið sem átti að nota í lífskjarasamningnum en er núna maxímerað inn í þennan samning.“
Þeir hafa hagsmuni af því að pumpa eins mikið lóðaverð út úr Keldnalandinu og hægt er.
„Og Keldnalandið var sérstaklega tilgreint, það var eina landsvæðið sem var sérstaklega tilgreint í lífskjarasamningunum að þar væri hægt að byggja upp hagstætt húsnæði. Það var ekki gert. Í staðinn var það sett inn til að reyna að fjármagna gatið í Borgarlínumálinu. Og síðan núna er gat sem enginn ætlar að borga og það eiginlega liggur í loftinu að eftir nokkur ár verði lagður á sérstakur skattur á höfuðborgarsvæðið umfram almenna gjaldtöku af akstri. ÞAnnig að menn borgi almenna gjaldið og síðan annað gjald sem getur orðið nokkur hundruð þúsund á ári fyrir fjölskyldu?“
Nokkur hundruð þúsund?
„Já. Það er gatið. Og síðan vantar í pakkann, þetta er svolítið eins og naglasúpan, ef menn muna þá sögu þegar ferðalangur ætlaði að bjóða bónda upp á súpu og kom með nagla og sagði að það vantaði ekkert nema nokkrar kartöflur og smá krydd og bóndinn kom með allt saman og svo vantaði bara smá kjöt. Og bóndinn borðaði súpuna og sagði, þetta er ótúlegt og allt af einum nagla. Og þetta er pínulítið þannig, að pakkinn, þótt hann sé nú í 300 milljörðum þá er ekki Sundabraut inni í þessu, það er ekki rekstur almenningssamgangna sem munu kosta tugi milljarða á tímabilinu og enginn er búinn að lýsa sig tilbúinn að fjármagna og ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum. Þannig að það vantar ennþá fullt af atriðum inn í þetta og síðan er annað sem er mjög slæmt og það er hvenær, hvenær kemur kakan mín um jólin eins og segir í kvæðinu. Stóru framkvæmdirnar, sem fólk er mest að kalla eftir, eins og Bústaðavegurinn eða að laga ljósastýrðu gatnamótin á Miklubrautinni eru færð aftast. Í fyrri samningnum átti að klára Bústaðaveginn 2023 og núna er verið að henda þessu inn í framtíðina og maður óttast að það sem síðast er í biðröðinni muni bíða enn lengur.“
Kannski til eilífðar?
Viðtalið við Eyþór og Hólmfríði Maríu Ragnhildardóttur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: