Fræðir ungu kynslóðina um tannheilsu með TikTok-myndböndum

Instagram | 26. ágúst 2024

Fræðir ungu kynslóðina um tannheilsu með TikTok-myndböndum

Tannlæknirinn Valdís Marselía Þórðardóttir hefur vakið lukku á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram þar sem hún birtir fræðsluefni um tannheilsu undir notendanafninu Skagabros. Nýverið birti hún myndbandaseríu þar sem hún mældi sýrustig ýmissa vinsælla drykkja, en myndböndin hafa slegið í gegn og vakið marga til umhugsunar.

Fræðir ungu kynslóðina um tannheilsu með TikTok-myndböndum

Instagram | 26. ágúst 2024

Tannlæknirinn Valdís Marselía Þórðardóttir hefur vakið athygli á TikTok og …
Tannlæknirinn Valdís Marselía Þórðardóttir hefur vakið athygli á TikTok og Instagram þar sem hún fræðir fólk um tannheilsu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Tannlæknirinn Valdís Marselía Þórðardóttir hefur vakið lukku á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram þar sem hún birtir fræðsluefni um tannheilsu undir notendanafninu Skagabros. Nýverið birti hún myndbandaseríu þar sem hún mældi sýrustig ýmissa vinsælla drykkja, en myndböndin hafa slegið í gegn og vakið marga til umhugsunar.

Tannlæknirinn Valdís Marselía Þórðardóttir hefur vakið lukku á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram þar sem hún birtir fræðsluefni um tannheilsu undir notendanafninu Skagabros. Nýverið birti hún myndbandaseríu þar sem hún mældi sýrustig ýmissa vinsælla drykkja, en myndböndin hafa slegið í gegn og vakið marga til umhugsunar.

Valdís er búsett á Skaganum ásamt eiginmanni sínum, Ingimar Elí Hlynssyni, og sonum þeirra tveimur. Hún starfar sem tannlæknir á Akranesi og er stundakennari við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Valdís segist strax hafa tekið eftir því þegar hún byrjaði í tannlæknisfræðinni í HÍ að það væri vöntun á almennri vitneskju í samfélaginu þegar kemur að tannheilsu.

„Ég gat jú sannarlega frætt fólk sem sat hjá mér í stólnum, en mig vantaði að koma ýmsum upplýsingum lengra. Öll erum við að fylgja fólki á netinu sem nær að hafa áhrif á okkur – mér datt því í hug að byrja sjálf að fræða og hafa áhrif í gegnum þessa miðla. Ég byrjaði fyrst á TikTok og fór svo líka á Instagram þar sem ég veit að þetta er ekki endilega sama fólkið sem ég er að ná til á þessum tveimur miðlum,“ segir Valdís.

Sýrumæling vinsælla drykkja sló í gegn á TikTok

Nýverið festi Valdís kaup á sýrumæli til þess að mæla sýrustig drykkjar sem henni bauðst samstarf með. Sýrumælingin sló rækilega í gegn og fljótlega fóru að hrannast inn beiðnir til Valdísar um að sýrumæla hina ýmsu vinsælu drykki og ræða áhrif þeirra á tannheilsu.

„Ég hef alltaf viljað koma rétt fram á mínum miðlum, skapa traust við þá sem fylgja mér og þegar mér bjóðast samstarfstækifæri þá vil ég skoða vörurnar vel áður en ég, sem tannlæknir, sýni frá þeim. Mér bauðst samstarf með Happy Hydrate og vildi vera viss um að sá drykkur væri ekki að hafa slæm áhrif á tennurnar áður en ég myndi taka því samstarfi. Það varð til þess að ég keypti mér sýrumæli og tók upp myndband þar sem ég mældi sýrustig drykkjarins og útskýrði af hverju þessi drykkur skaðaði ekki tennurnar,“ segir Valdís.

„Ég fékk mikil og sterk viðbrögð við þessu myndbandi og í kjölfarið óskuðu margir af fylgjendum mínum eftir því að ég myndi mæla sýrustig í fleiri vinsælum drykkjum,“ bætir hún við.

@skagabros Replying to @Gudjon J. 🥶🥶🥶🥶 afhverju eru fyrirtæki ekki að leiðbeina meira með þetta???? 🦷🦷 allt í boði í hófi, en gott að passa sig samt 💔 #skagabros ♬ original sound - Skagabros 🦷

Aðspurð segir Valdís sýrustig (pH) vera mælikvarða á hversu súr eða basísk lausn er og að það sé mælt á kvarða frá 0 og upp í 14. „Sýrustig pH 7 þýðir algjört hlutleysi, en kranavatn og munnvatn er oftast í kringum hlutleysi. Þá er pH 7-14 basískt á meðan pH <7 er súrara, en eftir því sem talan lækkar er lausnin súrari,“ segir hún.

Af hverju er mikilvægt að vera meðvitaður um sýrustig drykkja?

„Glerungurinn er sterkasti vefur líkamans. Hann þolir alls konar áreiti og munnvatnið hjálpar okkur að verja hann og tennurnar í heild sinni. Sýrustig undir pH 4,5/5 þýðir að við erum komin í hættu á að verða fyrir glerungseyðingu, en vegna samsetningar og virkni munnvatns náum við að viðhalda heilbrigði glerungsins.

En ef við erum að útsetja munninn oft fyrir sýru, til dæmis með súrum drykkjum, þá ná varnir munnsins ekki eins auðveldlega að viðhalda hlutleysinu, sem er pH í kringum 7, og glerungurinn okkar getur byrjað að eyðast. Hér á málshátturinn „það eyðist sem af er tekið“ ansi vel við þar sem við fáum glerunginn ekki aftur þegar hann er farinn.“

@skagabros Replying to @Guðrún(taylors version)💋 harsh truth í lokinn 😳🥶 #skagabros ♬ original sound - Skagabros 🦷

„Vatn er alltaf best“

Valdís hefur nú birt fjölda myndskeiða á miðlum sínum þar sem hún sýrumælir hina ýmsu drykki sem eru á íslenskum markaði, en drykkina velur hún eftir beiðnum frá fylgjendum.

Voru einhverjir drykkir sem komu þér á óvart?

„Já, það kom mér á óvart að einn nýjasti steinefnadrykkurinn á markaði skar sig úr með pH-gildi vel undir 4, sem þýðir að við eigum á hættu að verða fyrir glerungseyðingu. Aðrir steinefnadrykkir á markaði mældust ekki með svo lágt sýrustig.“

@skagabros Replying to @Braveboy Binfest collab hydro - ekki drykkjr til að vera að sötra - ekkk að banna ykkur að drekka hann, en ef þessi er ekki drukkinn hratt þá eyðir hann glerungnum 🦷 #skagabros ♬ original sound - Skagabros 🦷

Hvaða drykkir eru skástir fyrir tannheilsu?

„Vatn er alltaf best. Þeir orkudrykkir sem innihalda koffín og komu bestu út fyrir tennurnar eru kaffi og 105 Koffínvatn. Aðrir orkudrykkir valda auknum líkum á glerungseyðingu.

Bestu gosdrykkirnir voru hreinn Kristall, Klaki og Bonaqua, en um leið og búið er að blanda ávaxtasykri og annarri sýru við drykkina, þá byrja þeir að lækka í sýrustigi og hér voru langflestir gosdrykkir að skora lágt.“

Valdís viðurkennir að sér leiðist boð og bönn og því séu skilaboð hennar þau að hún vilji að fólk sé meðvitaðra um áhrif þessara drykkja, en hún vill einnig fræða fólk um hvernig hægt sé að minnka skaðann sem þeir geta valdið.

„Það að drekka þessa drykki yfir matmálstíma er til dæmis betra en á milli mála. Sýrustig í munni lækkar þegar við borðum og þá er betra að drekka drykkina þá, frekar en að lækka sýrustigið eingöngu vegna drykkjarins. Það að skola munninn aðeins með vatni eftir að hafa drukkið súran drykk hjálpar til við að flýta fyrir hlutleysingunni. Einhverjar rannsóknir benda til þess að það geti hjálpað að drekka með röri,“ útskýrir hún.

Valdís bendir einnig á að það sé verra að sötra lengi á drykkjum með lágt sýrustig. „Ef við erum að sötra þessa drykki lengi þá erum við að láta sýrustig munnsins falla oft niður fyrir æskilegt sýrustig, eða pH undir 4,5, og munnvatnið okkar nær ekki að hlutleysa það nógu hratt, sem þýðir að tennurnar okkar eru lengur í mögulega glerungseyðandi umhverfi – sem eykur þá líkur á glerungseyðingu,“ segir hún.

@skagabros Replying to @mikki_0415 glærir drykkir oft betri, nema þeir seu með avaxtasykri og sitronusýru 🦷✨ #skagabros ♬ original sound - Skagabros 🦷

Er skortur á tannvænum orkudrykkjum á Íslandi?

„Miðað við óformlega rannsókn, þar sem ég hef verið að mæla sýrustig drykkja heima hjá mér og skoða úrval í búðum; þá já, mér finnst vera skortur á tannvænum orkudrykkjum. Eini jákvæði koffíndrykkurinn á landinu sem hægt er að kaupa úti í búð hefur verið 105 Koffínvatn. Ölgerðin framleiðir hann og var að hætta með aðra bragðtegundina, þannig að nú er bara einn orkudrykkur á markaði sem telst til drykkja sem fylgir lítil hætta á glerungseyðingu.

Ef við berum það til dæmis saman við aðra vinsæla orkudrykki sem mældust með mjög lágt sýrustig, þá getum við verið að horfa upp á vörumerki sem eru að bjóða upp á allt að tíu mismunandi bragðtegundir af sama drykknum. Þannig að fyrirtækin mættu klárlega hugsa vöruúrval og framleiðslu á drykkjum örlítið meira út frá sjónarhorni tannheilsu.“

Nær bæði til barnanna og foreldranna

Valdís hefur ekki einungis vakið athygli fyrir myndböndin þar sem hún sýrumælir drykki þó svo að sú myndbandasyrpa hafi vakið mikla athygli. „Myndbönd þar sem ég hef einblínt á tannheilsu hjá börnum hafa einnig virkað vel. Myndböndin eru bæði að ná vel til barnanna sjálfra en einnig foreldra,“ segir hún.

Er einhver algengur misskilningur um tannheilsu í samfélaginu í dag sem þyrfti að leiðrétta?

„Tannþráðarnotkun. Algengustu skemmdir sem fólk fær eru á milli tannanna, sem væri hægt að minnka með því að nota tannþráð daglega. Um leið og tennur byrja að snertast þá nær tannburstinn ekki að fara með burstahárin á milli tannanna lengur. Þá þarf að nota tannþráð til að fjarlægja bakteríur sem annars ná að vera í felum og skemma tennurnar í friði. Þetta á bæði við um barnatennur og fullorðinstennur.

Það ætti ekki að bursta tennurnar þegar sýrustig munnsins er lágt því þannig erum við að gera glerungnum óleik með því að nudda hann meira upp úr sýrunni. Sýrustig í munni getur verið lágt eftir neyslu súrra drykkja, uppköst eða neyslu á eplaediki, svo einhver dæmi séu nefnd.

Það ætti ekki að nota munnskol beint eftir tannburstun. Munnskol innihalda lægri flúorstyrk heldur en tannkrem, sem þýðir að við erum að skola í burtu góða eiginleika flúortannkrems fyrir skolið sem er með minni vörn. Það er í góðu lagi að nota skolið aukalega á öðrum tíma dags, ef fólk kýs það.

Það á bara að skyrpa en ekki skola eftir tannburstun – annars erum við að skola varnir tannkremsins af tönnunum.

Veip og nikótínpúðar hafa bæði slæm áhrif á almenna heilsu og einnig tannheilsu.“

@skagabros Fyrir eða eftir mat? #skagabros ♬ SOS - dmvtark

Hvað gerir þú dagsdaglega til að viðhalda góðri tannheilsu?

„Ég bursta mig kvölds og morgna með flúortannkremi. Ég reyni að koma tannþráðarnotkun inn einu sinni á dag. Sjálf er ég að flytja inn og nota mikið svokallað tannhreinsibað. Ég læt bæði tannréttinga- og hvíttunarskinnurnar mínar liggja í baðinu til að minnka magn baktería sem ég set upp í mig og auðvelda mér þrifin.

Munnurinn er fyrsti viðkomustaðurinn inn í líkamann, það gefur því augaleið að tannheilsa skiptir miklu máli til að vera með góða almenna heilsu.“

Hver eru þín bestu ráð til að viðhalda góðri tannheilsu?

„Finndu tannbursta sem hentar þér og mundu að skipta um hann um leið og burstahárin svigna. Ef þau svigna hratt hjá þér, þá ertu líklegast að bursta of fast og það getur verið að eyða tönnunum og valda því að tannholdið hörfi hjá þér. Æfðu þig þá endilega að bursta lausar.

Finndu tannkrem sem inniheldur réttan styrk af flúori fyrir þig (börn 0-5 ára 1.000 ppm, fullorðnir 1.450 ppm, stendur aftan á tannkreminu), sumir gætu þurft að fá uppáskrifað sterkari lausn frá tannlækni, þ.e. Duraphat-tannkrem. Svo er mikilvægt að skyrpa, en ekki skola.

Það að nota flúor daglega styrkir tennurnar okkar og gerir okkur kleift að leyfa okkur aðeins meira hvað varðar neysluvenjur.

Mættu til tannlæknis einu sinni á ári.“

Valdís gefur lesendum góð ráð fyrir tannheilsuna.
Valdís gefur lesendum góð ráð fyrir tannheilsuna. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is