„Verum manneskjur, ekki lítil skítseiði,“ hrópaði Sólveig Arnarsdóttir, leikkona og fundarstjóri, á samstöðufundi fyrir Yazan Tamimi á Austurvelli í gær.
„Verum manneskjur, ekki lítil skítseiði,“ hrópaði Sólveig Arnarsdóttir, leikkona og fundarstjóri, á samstöðufundi fyrir Yazan Tamimi á Austurvelli í gær.
„Verum manneskjur, ekki lítil skítseiði,“ hrópaði Sólveig Arnarsdóttir, leikkona og fundarstjóri, á samstöðufundi fyrir Yazan Tamimi á Austurvelli í gær.
Vísaði Sólveig þar í sögu Astrid Lindgren, Bróðir minn Ljónshjarta, þar sem bræðurnir Snúður og Jónatan ræða saman um hvers vegna Jónatan hyggist hætta sér út í tvísýnu þegar hann gæti hæglega setið heima. Þá segir Jónatan við Snúð að sitthvað þurfi maður að gera jafnvel þó að það sé erfitt og hættulegt.
„Annars er maður ekki manneskja, heldur bara lítið skítseiði.“
Orðin þóttu viðeigandi á fundinum í ljósi þess að Sólveig og fundargestir kölluðu eftir því að stjórnvöld gerðu það sem erfitt væri og stöðvuðu brottvísun Yazans Tamimi til Spánar af mannúðarástæðum, en ræðumenn vísuðu til þess að brottvísunin bryti bæði á barnasáttmálanum sem og samningum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Sagði Sólveig síðustu fregnir herma að lögregla sé enn í fullum gangi að undirbúa flutninga Yazans um leið og hann verði útskrifaður af spítala. Eins heitt og hún og aðrir voni að fallið verði frá flutningunum virðist allar líkur vera á því að þeir gangi í gegn. Þá verði boðað til aðgerða af hálfu stuðningsmanna Yazans.
Yazan er ellefu ára gamall drengur frá Palestínu sem þjáist af taugahrörnunarsjúkdómnum Duchenne. Yazan er illa haldinn á spítala að svo stöddu og hafa læknar hans ítrekað mælt gegn því að hann verði fluttur úr landi þar sem ferðalagið og þjónusturof, sem muni óumflýjanlega verða, geti reynst honum lífshættulegt.
Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, og Bjarni Karlsson, prestur og siðfræðingur, fluttu ræður á fundinum en tónlist fluttu Unnsteinn Manuel Stefánsson og Haraldur Ari Stefánsson ásamt barnakór.
Að sögn viðstaddra voru hátt í 600 manns á Austurvelli til að sýna samstöðu með Yazan.