„Forvitni og þekkingarþorsti er grunnur að heilbrigði og lífsgleði,“ segir Edda Björgvinsdóttir, stórleikkona og hálfgerður eilífðarstúdent. Síðustu ár hefur hún safnað háskólagráðum eins og frímerkjum og lauk nýverið jógakennaranámi hjá Jógasetrinu.
„Forvitni og þekkingarþorsti er grunnur að heilbrigði og lífsgleði,“ segir Edda Björgvinsdóttir, stórleikkona og hálfgerður eilífðarstúdent. Síðustu ár hefur hún safnað háskólagráðum eins og frímerkjum og lauk nýverið jógakennaranámi hjá Jógasetrinu.
„Forvitni og þekkingarþorsti er grunnur að heilbrigði og lífsgleði,“ segir Edda Björgvinsdóttir, stórleikkona og hálfgerður eilífðarstúdent. Síðustu ár hefur hún safnað háskólagráðum eins og frímerkjum og lauk nýverið jógakennaranámi hjá Jógasetrinu.
Þessi aldagamla hugleiðslu- og heilunartækni hefur spilað stóran þátt í lífi Eddu í langan tíma, grætt gömul sár, opnað nýjar víddir og sýnt henni nýja veröld sem hún er þakklát fyrir að fá að tilheyra.
Edda ætlar ásamt dóttur sinni, Margréti Ýrr Sigurgeirsdóttur, að deila þekkingu sinni og reynslu af jógafræðunum í sannkallaðri gleðiferð á Tenerife í október og lofar hún einstakri, sólríkri og ógleymanlegri upplifun.
Blaðamaður mbl.is hafði samband við Eddu og fékk að heyra um jógalífið og heilunarferðina.
Af hverju jóga?
„Ég er ótrúlega ör manneskja, þarf alltaf að vera á miklum hraða og gera mikið. Það getur verið erfitt og slítandi en sömuleiðis skapandi fyrir manneskju eins og mig. Í gegnum allt mitt brambolt, dans, leikfimi og guð má vita hvað fleira, þá fann ég fljótt að jóga gaf mér einhvern klett og magnaði gleðina, sem ég átti að vísu nóg af.
Ég hafði ekki mikla trú á eigin getu í fyrstu, enda hélt ég að það gæti enginn stundað jóga nema vera ofboðslega liðugur og með mikla djúpa innri ró, ég afskrifaði því sjálfa mig snarlega þar sem ég er hvorki liðug né með meðfædda innri ró. En forvitnin leiddi mig þangað og komst ég að því að jóga hefur ekkert með liðleika að gera. Ég fann fljótt að þetta voru töfrabrögð í lífi mínu og visst listform sem kenndi mér að hafa hemil á sjálfri mér. Jóga kenndi mér sjálfsaga,“ segir Edda.
Aðspurð segist Edda haldin óslökkvandi lærdómsþörf og fróðleiksfýsn.
„Ég er með meistaragráðu í menningarstjórnun og diplómagráðu í bæði jákvæðri sálfræði og sálgæslu og hef bara þessa stöðugu þörf til þess að læra eitthvað nýtt. Ég finn fyrir innri titringi í hvert sinn sem ég sé auglýst nýtt nám og þá sérstaklega eitthvað sem snýr að andlegri vellíðan,“ útskýrir Edda sem skráði sig nýverið í nám í stólajóga.
Hvað varð til þess að þú fórst í jógakennaranám?
„Það hafði verið ofarlega á dagskrá í langan tíma og hlaut ég loksins tækifærið þegar samningur minn við Þjóðleikhúsið rann út. Það er víst í ríkislögum að maður má ekki vera samningsbundinn eftir ákveðinn aldur og þá myndaðist aðeins meira rými og ég ákvað að skella mér í þetta nám. Ég hélt að ég myndi eingöngu gera þetta fyrir sjálfa mig en svo finnst mér bara svo ofboðslega gaman og spennandi að taka fólk til mín og hjálpa þeim sem eru stirðir, óþolinmóðir og telja sig ekki geta þetta. Það er hópurinn minn, fólkið mitt.“
Edda segir kjarnann í jógafræðunum vera gleði og þakklæti.
„Ég hef alltaf grúskað í andlegum fræðum og þakklæti varð fljótt partur af lífi mínu. Þegar ég var nemandi í leiklistarskólanum ákvað ég að þakka ofboðslega vel fyrir öll tækifæri, hlutverk og allar gjafir lífsins og hefur það ávallt fylgt mér. Ofarlega á þakklætislistanum er vinkonusambandið við dætur mínar. Við eigum ótal hluti sameiginlega og erum sannkallað kvennagengi. Ég á yndislegt samband við öll börnin mín, drengina tvo líka, og bardúsa ýmislegt með þeim öllum og er óendanlega þakklát fyrir það, enda ekki sjálfgefið.
Edda og Margrét Ýrr fóru saman í jógakennaranám og ákváðu svo í framhaldi að bjóða upp á kvennaferð til Tenerife.
„Þetta verður alveg hreint yndislegt. Við verðum með eitthvað ofboðslega fallegt og uppbyggjandi fyrir sálina, alls kyns jóga, teygjur í sjávarmálinu og djúpslökun sem er að mínu mati besta heilameðal sem þú getur fengið.
Eva skvísa dóttir mín verður vonandi sérlegur gleðigjafi og skrípill í ferðinni. Við erum að hamast í henni, við Margrét, að reyna að fá hana með.
Það eru ekki mörg pláss í boði enda viljum við mæðgurnar geta einbeitt okkur að þeim konum sem fara með okkur í sólina.“
Af hverju varð Tenerife fyrir valinu?
„Mig langar rosalega að fara á exótíska staði í framtíðinni en það varð ofan á beint flug þangað sem við vitum að er heitt og það er á Tenerife. Við verðum á pínulítilli strönd á litlu lúxushóteli fjarri dúndrandi hávaða og þvögu ferðamanna.
Ég hlakka mikið til að upplifa þetta með þessum yndislega kvennahópi enda magnað að sjá hvað það er hægt að ná ótrúlegri slökun á þessum tíma. Jóga er sannkallaður fjársjóður.“