Stelpur sláist en drengir beiti oftar vopnum

Stelpur sláist en drengir beiti oftar vopnum

„Mér finnst ekki bara vopnaburður hafa aukist heldur líka skipulögð slagsmál,“ segir Rúna Ágústsdóttir, fjölskylduráðgjafi Foreldrahúss.

Stelpur sláist en drengir beiti oftar vopnum

Hnífstunguárás á Menningarnótt | 2. september 2024

Fjölskylduráðgjafi segir virðast sem ofbeldi sé orðið mun eðlilegra í …
Fjölskylduráðgjafi segir virðast sem ofbeldi sé orðið mun eðlilegra í menningu ungmenna. Samsett mynd/Hari/Aðsend

„Mér finnst ekki bara vopnaburður hafa aukist heldur líka skipulögð slagsmál,“ segir Rúna Ágústsdóttir, fjölskylduráðgjafi Foreldrahúss.

„Mér finnst ekki bara vopnaburður hafa aukist heldur líka skipulögð slagsmál,“ segir Rúna Ágústsdóttir, fjölskylduráðgjafi Foreldrahúss.

Segir Rúna svo virðast sem ofbeldi sé orðið mun eðlilegri hlutur í menningu ungmenna og ýmsar óskrifaðar reglur og venjur séu meðal þeirra um hvernig slagsmálin skuli fara fram.

„Þá eru þau búin að ákveða að hittast í einvígi og búin að skipuleggja hvar og hvenær og hver eigi að taka það upp,“ segir Rúna.

„Þegar maður talar við unglingana er stundum eins og maður sé bara að tala við fólk úr gengjahópum eða mafíunni.“

Refsingar og hefndir tengdar tilhugalífi

Segir Rúna orsök slagsmálanna oftast vera þau sömu og þau hafa verið í aldanna rás – tilhugalífið. Það snúist oftast um hefnd eða refsingu vegna þess að einhver hafi gert hosur sínar grænar fyrir fyrrverandi kærustu eða frænku einhvers.

„Einhver sendir frænku einhvers skilaboð sem gætu þótt óviðeigandi. Þá er viðkomandi álitinn perri og það er komið veiðileyfi á hann. Það er viss hópur sem er mikið í því að refsa fyrir alls konar svoleiðis og fara í skipulagðar refsiaðgerðir.“

Segir Rúna það þó hafa stigmagnast allverulega að undanförnu og suma – mestmegnis drengi, byrjaða að ganga með eða beita vopnum. Stelpur sláist líka en beiti yfirleitt ekki vopnum að sögn Rúnu. Margir krakkar beri að hennar mati vopn af hræðslu við aðrir beiti þá ofbeldi.

„Þau verða kannski vitni að þessu, sjá svona á netinu og hugsa bara ég ætla að geta varið mig ef ég lendi í einhverju. Þau ætla kannski ekki að gera neitt,“ segir Rúna.

Aðspurð segir hún þau börn sem beiti ofbeldi iðulega eiga við erfiðleika að stríða hvort sem það sé heima við, lærdómstengt eða félagslegt.

Táningar með allt of mikið frelsi 

Engin auðveld svör liggi fyrir um hvernig megi sporna við þróuninni en Rúna segir mikilvægt að styrkja innviði sem stuðli að geðheilsu og líðan barna og ungmenna.

Sömuleiðis þurfi foreldrar einfaldlega að sinna börnum sínum betur. Að mati Rúnu sé það  óeðlilegt hversu mikið frelsi íslensk ungmenni hafi og lítið eftirlit sé með þeim.

„Þau eru ekki að fá næga athygli og ekki næg mörk. Þau fá allt of mikið frelsi.“

Með því kveðst Rúna alls ekki vera að kenna foreldrum um en segir það ákveðið grandvaraleysi að leyfa börnum að gera það sem þeim sýnist og vera síðan steinhissa þegar þau komast í klandur.

„Það tíðkast ekki í borgum í öðrum löndum að 13-14 ára gömul börn fari að hitta vini beint eftir skóla og séu síðan úti til klukkan 10 á kvöldin án afskipta,“ segir Rúna.

Foreldrar vilji ekki horfast í augu við líðan barna sinna

Stunguárásin sem varð hinni 17 ára Bryndísi Klöru Birgisdóttur að bana ætti að mati Rúnu að vera vitundarvakning fyrir foreldra og samfélagið allt en kveðst hún þó óttast að samtalið fjari hratt út þegar talið fer að berast að lausnum, sem snúi óneitanlega að átaki meðal foreldra.

„Það er eins og fólk vilji ekki horfast í augu við það að börnum og unglingum líður ekki nógu vel í dag. Við höfum sleppt á þeim hendinni og höfum ekki sinnt þeim nógu vel.“

Mikilvægt sé að halda samtalinu og vitundarvakningunni áfram. Hún telji það ekki ýta undir ofbeldið eða vopnaburðinn að ræða það. Slíkum hugmyndum svipi til hugmynda sem voru uppi á tímabili um að vitundarvakning um sjálfsvíg gæti leitt til fleiri sjálfsvíga en það hafi ekki reynst rétt.

„Það fer náttúrulega alveg eftir því hvernig umræðan er og það er að sjálfsögðu vandmeðfarið.“

Aukin áhættuhegðun þvert á hópa

Kveðst Rúna ekki geta sagt til um hvað liggi að baki þessarar þróunar en að augljóslega eigi það ríkan þátt hve áhrifagjörn ungmenni séu. 

Ofbeldishegðun sé smitandi og þau verði vitni að slíku víða á netinu og í sjónvarpinu. Mörg þeirra horfi jafnvel á slagsmál á netinu.

Það sama gildi almennt um vímuefnaneyslu sem sé víða orðin meira samþykkt og eðlileg meðal unglinga. Þó nokkur tenging sé á milli ofbeldis og vímuefnanotkunar að sögn Rúnu enda bæði algeng í svokallaðri utangarðsmenningu.

Hún upplifir þó engu að síður aukna áhættuhegðun þvert á ólíka hópa ungmenna þó að hún geti ekki sagt að það sé mikil aukning.

„Ég er alveg farin að sjá unglinga sem nota vímuefni þó að þeir séu ekki að koma úr einhverjum stórkostlegum erfiðleikum,“ segir Rúna.

„Að heyra 14 ára ungling í dag segjast hafa prufað að reykja gras eða að sniffa eitthvað er ekki jafn sjokkerandi og það var áður.“

mbl.is