Tugir kennara hröktust úr starfi vegna myglu

Mygla í húsnæði | 5. september 2024

Tugir kennara hröktust úr starfi vegna myglu

Tugir starfsmanna hafa þurft að fara í veikindaleyfi eða látið af störfum í Laugarnesskóla vegna veikinda sem tengja má við mygluvandamál í skólanum.

Tugir kennara hröktust úr starfi vegna myglu

Mygla í húsnæði | 5. september 2024

Kennararnir sem mbl.is ræddi við segjast ýmist sorgmæddir, reiðir eða …
Kennararnir sem mbl.is ræddi við segjast ýmist sorgmæddir, reiðir eða finna til vanmáttar sökum þess að þeir upplifa að umkvartanir þeirra hafi árum saman ekki verið teknar alvarlega. Samsett mynd

Tugir starfsmanna hafa þurft að fara í veikindaleyfi eða látið af störfum í Laugarnesskóla vegna veikinda sem tengja má við mygluvandamál í skólanum.

Tugir starfsmanna hafa þurft að fara í veikindaleyfi eða látið af störfum í Laugarnesskóla vegna veikinda sem tengja má við mygluvandamál í skólanum.

mbl.is ræddi við vel á annan tug starfsmanna sem hafa á síðustu tveimur til þremur árum farið tímabundið í veikindaleyfi, eru í veikindaleyfi, starfa nú í öðrum skólum eða hafa horfið á annan starfsvettvang. 

Í ljósi reynslu þeirra af veikindum og slappleika sem sumir hafa glímt við árum saman lýsa þau áhyggjum af heilsufari barna í skólanum. Að sögn núverandi skólastjóra liggur ekki fyrir samanburður á veikindadögum nemenda í skólanum og í öðrum skólum.

Tveir skólastjórnendur votta hins vegar fyrir háa veikindatíðni í starfshópnum. Annar þeirra, Sigríður Heiða Bragadóttir, lét af störfum í lok skólaárs 2023 vegna veikinda sem hún tengir við myglu í húsnæði skólans. 

Kennararnir sem mbl.is ræddi við segjast ýmist sorgmæddir, reiðir eða finna til vanmáttar sökum þess að þeir upplifa að umkvartanir þeirra hafi árum saman ekki verið teknar alvarlega. Í fyrstu af hálfu skólastjórnenda en það hefur hins vegar breyst síðustu misserin.

Margir tala hins vegar um að borgaryfirvöld hafi brugðist við með tómlæti og að fulltrúi þeirra hafi reynt að gera lítið úr veikindum fólksins. Framkvæmdir hafa farið fram í skólanum en þær hafa ekki skilað tilætluðum árangri að sögn kennaranna. Sigríður Heiða, fyrrum skólastjóri, segir eilíft vera reynt að „plástra“ á vandamálin í stað þess að taka skólann í heildar yfirhalningu. 

Hluti hópsins fyrir utan Laugarnesskóla.
Hluti hópsins fyrir utan Laugarnesskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölbreyttur hópur 

Hópurinn sem nú stígur fram er fjölbreyttur. Fólk sem hefur áratugareynslu af kennslu í skólanum en kennir sér meins og ýmist hefur verið eða er í veikindaleyfi eða í öðrum störfum. Ungt og hraustlegt fólk sem horfið hefur til annarra skóla, til annarra starfa eða er í veikindaleyfi og fyrrverandi skólastjórnendur sem þurftu að fara í leyfi eða hættu vegna veikinda.

Allur gangur er á því hvort fólk telji sig heilsuhraust eftir að það hættir að kenna í skólanum og sumir segjast hafa glímt við heilsubrest árum saman eftir að hafa starfað þar.

Kennarar gera krossa sem tákna þá sem hafa þurft að …
Kennarar gera krossa sem tákna þá sem hafa þurft að láta af störfum vegna veikinda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enginn sem vildi hætta“

„Enginn af þeim sem hafa þurft að hætta vildi hætta. Við erum stolt af skólanum og því starfi sem hér er unnið en því miður er það sárt þetta tómlæti sem okkur hefur verið sýnt,“ segir Katla Þórarinsdóttir sem er í veikindaleyfi frá skólanum.

Hún er ein þeirra 15 kennara og skólastjórnanda sem hafa hætt eða verið frá í lengri tíma vegna veikinda tengdum myglu í Laugarnesskóla á undanförnum tveimur til þremur árum.

Katla Þórarinsdóttir.
Katla Þórarinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Gunnlaugsson skólastjóri Laugarnesskóla segir að tugir starfsmanna hafi hætt vegna þessa hjá skólanum á síðustu tíu árum. Sjálfur þekkir hann að lágmarki til tíu manns sem hætt hafa á tiltölulega skömmum tíma af þessum orsökum, en eru ekki hluti af þeim hópi sem mbl.is ræddi við.

„Það er því erfitt að segja nákvæmlega hve margir hafa hætt vegna veikinda eða hafa ekki viljað vera í þessu umhverfi því hluti var fyrir mína tíð. En það er orðinn stór hópur,“ segir Björn. Hann segir elstu frásagnir sem hann þekki til vera orðnar 20 ára. 

Björn Gunnlaugsson er núverandi skólastjóri í Laugarnesskóla.
Björn Gunnlaugsson er núverandi skólastjóri í Laugarnesskóla. Ljósmynd/Aðsend

Meðal þeirra sem hætt hafa vegna heilsubrests eru tveir skólastjórnendur. Það eru þau Sigríður Heiða Bragadóttir skólastjóri sem hætti við skólaslit árið 2023 og Kristinn Svavarsson aðstoðarskólastjóri sem fór í árs leyfi frá störfum vegna veikinda fyrir nokkrum árum.

Tugir kennara hafa hrakist úr starfi frá Laugarnesskóla.
Tugir kennara hafa hrakist úr starfi frá Laugarnesskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Plástrað á vandann 

„Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað olli þeim né læknirinn minn. Þetta kom hins vegar í ljós þegar ég var send til sérfræðings í kjölfarið á heilsufarsskoðun starfsmanna skólans vegna ástands á húsnæðinu,“ segir Sigríður Heiða.

Skrifstofa hennar var á svæði sem var lagfært á sínum tíma og nú er búið að lagfæra hana þrisvar.

Sigríður Heiða Bragadóttir.
Sigríður Heiða Bragadóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var alltaf með hita, höfuðverk, hósta, sýkingar og almennan slappleika. Mjög ólík sjálfri mér í alla staði,“ segir Sigríður Heiða.

„Reykjavíkurborg hefur brugðist við með því sem ég kalla „plástraaðferðina“. Hlustað, greint, lagað til bráðabirgða, nemendur og starfsfólk flutt til á meðan. Á meðan veikist starfsfólk og hættir. Dýrmætur mannauður neyðist til að yfirgefa vinnustaðinn og hefur tapað heilsu í kjölfarið. Þeim sem starfa í skólanum, jafnt nemendum og starfsfólki, er boðið að starfa í húsnæði sem er heilsuspillandi. Þetta er eins og að eltast við skottið á sjálfum sér í stað þess að lagfæra skólann eins og vera ber. Flytja alla tímabundið úr húsnæðinu á meðan,“ segir Sigríður Heiða.

Á yfirstandandi skólaári er hluti nemenda í bráðabirgðaaðstöðu á skólalóðinni en stærstur hluti nemenda er innan veggja skólans. Í skólanum voru framkvæmdir í sumar líkt og undanfarin ár

Hvert á nemandi að fara ?

Rúna Björg Garðarsdóttir er ein þeirra sem glímt hafa við heilsubrest eftir kennslu í skólanum. Hún hefur starfað við skólann í 26 ár.

„Hins vegar ganga hér 560 börn í skóla og hafa ekki val um að fara annað. Ólíkt okkur starfsfólkinu, við getum kosið að fara annað eða í veikindaleyfi. Hvert á nemandi í grunnskóla að fara? Eigum við að bjóða 6-12 ára börnum upp á það að slíta sig frá félagahópnum og örygginu sem þau búa við í sínum heimaskóla vegna heilsubrests? Hvað vitum við um langtímaáhrif þess að vera í óheilnæmu húsnæði í sex ár?“ spyr Rúna en nemendur ganga í Laugarnesskóla frá 6-12 ára.

Rúna Björg Garðarsdóttir.
Rúna Björg Garðarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafði ekki skilning á mygluveikindum 

Katla Þórarinsdóttir segir hafa verið erfitt að horfast í augu við það að heilsan væri að bresta

„Það tekur ógurlega langan tíma að viðurkenna fyrir sjálfum sér að vera ekki heilsuhraustur. Að maður sé að láta í minni pokann fyrir myglu, að geta ekki staðið þetta af sér. Þrátt fyrir að margir hafi þurft að hætta vegna myglu á undan mér þá trúði ég því ekki að það kæmi fyrir mig. Ég hafði sjálf ekki skilning á veikindum annarra vegna myglu, þar sem ég hafði ekki lent í þessu,“ segir Katla

„Tilfinningin að við séum að bregðast börnunum“ 

Árni Kristjánsson var kennari við skólann um hríð en fann fljótlega fyrir veikindum. Brá hann á það ráð að geyma fötin sín í plastkassa fyrir utan heimili sitt að vinnudegi loknum.

„Ég fékk fastráðningu í Laugarnesskóla haustið 2017 og fann strax fyrir reglulegum og vaxandi heilsubresti,“ segir Árni.

Árni Kristjánsson.
Árni Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vona að skólastjórnendur og borgaryfirvöld hafi sömu sáru tilfinningar og við sem höfum þurft að hætta að kenna í óheilnæmum skólum vegna heilsubrests. Það er tilfinningin um að við séum að bregðast nemendum okkar, börnum í skólanum, og skilja þau eftir á stað þar sem heilsa þeirra er í hættu,“ segir Árni.

Meðferðir sem ekki virka 

Sólborg Gunnarsdóttir hefur glímt við heilsubrest og hefur verið í veikindaleyfi frá upphafi árs. Hún á ekki von á því að geta snúið til vinnu í bráð. Hún segist mjög veik og vera orðin ofurviðkvæm fyrir loftgæðum hvar sem hún kemur eftir að hafa unnið í þessu starfsumhverfi

„Ég hef eytt ótrúlegum fjárhæðum þessi rúmlega tvö ár í alls kyns lyf, lækna, myndatökur og meðferðir sem ekki virka,“ segir Sólborg.

Þá kveðst hún hafa verið greind með lungnasjúkdóm og segir alls óvíst hvenær hún muni geta snúið aftur til vinnu. Hún er harðorð í garð borgaryfirvalda.

„Borgin hlustar ekki og hundsar kvartanir okkar og dregur á langinn allar framkvæmdir og stendur ekki við gefin loforð,“ segir Sólborg.

Sólborg Guðmundsdóttir.
Sólborg Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dúkaskipti urðu henni til happs 

Helga Gunnarsdóttir, umsjónarkennari á miðstigi, segir að upphaflega hafi ekki verið hlustað á hana.

„Ég leitaði til skólastjórnenda sem sögðu að ekkert væri að í stofunni minni, en það varð mér til happs að það þurfti að skipta um gólfdúk á stofunni minni um sumarið og þá kom í ljós mikil mygla. Eftir það hafa skólastjórnendur tekið mark á því þegar ég viðra áhyggjur mínar vegna einkenna sem ég finn fyrir, en ég hef ekki alltaf verið í sömu kennslustofunni en það skiptir ekki máli þar sem myglan er úti um allt. Reykjavíkurborg hefur svikið hvert einasta loforð á milli þess sem starfsmenn hennar segja okkur að það sé ekkert að og neita að trúa að vandinn sé til staðar. Þetta er mjög alvarlegt, það er verið að spila með heilsu bæði barna og starfsmanna og enginn veit hvað það mun kosta í framtíðinni,“ segir Helga.

Helga Gunnarsdóttir.
Helga Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Borginni þótti sýnataka óþarfi 

„Þegar ég fór í veikindaleyfi núna í febrúarbyrjun og skilaði inn veikindavottorði hafði stjórnandinn, sem tók við vottorðinu, orð á því að það góða við að ég væri að fara í veikindaleyfi væri að þá væri loksins hægt að fá vilyrði fyrir því hjá Reykjavíkurborg að tekið yrði myglusýni úr nýbyggingunni [þar er stofan hennar núna]. Stjórnendur skólans höfðu þá farið fram á að það yrðu tekin sýni úr öllum skólanum en Reykjavíkurborg þótti það óþarfi vegna þess að að þeirra mati var vandinn mun minni en við töldum. Eftir að ég fór í veikindaleyfi voru svo tekin sýni úr öllum skólanum og öllum rýmum og þá kom fram að bæði sýnin sem voru tekin úr minni stofu voru rauð,“ segir Helga.

Sýni sem Efla tekur til þess að kanna hvort það sé mygla sýna grænan lit (engin mygla), gulan (einhver mygla), appelsínugulan (meiri mygla) og rauðan lit (mikil mygla). 

Borgarstarfsmaður efast um veikindin

„Þrátt fyrir að Efla sýndi okkur á fundi, þar sem voru líka fulltrúar frá Reykjavíkurborg, að það væru svo sannarlega ennþá mörg rými skólans sem innihéldu myglu þá hélt einn starfsmaður Reykjavíkurborgar samt ræðu yfir okkur beint á eftir sem innihélt meðal annars orðin: „Það er ekkert sem sannar það að þið séuð veik vegna myglu.“ Hann sagði það sama við okkur í byrjun haustsins, en þá var hann líka viss um að engin mygla væri í skólanum sem var lygi,“ segir Helga.

Eins og við séum móðursjúk 

„Reykjavíkurborg kemur bara fram við okkur eins og við séum móðursjúk en við vitum öll að ef við værum að vinna með peninga en ekki börn þá væri fyrir löngu búið að finna leið til þess að laga húsið eða í það minnsta reisa meint bráðabirgðahúsnæði svo hægt væri að laga skólann. Því bráðabirgðahúsnæði hefur verið haldið fyrir okkur sem gulrót síðan haustið 2019, ef ekki fyrr. Á meðan fer heilsu starfsfólks hrakandi og án efa nemenda líka og því miður hefur fullt af mannauði horfið. Reykjavíkurborg gerir sér ekki grein fyrir því að við erum þarna enn þá vegna þess að þetta er frábær vinnustaður. En það er hart að þurfa að missa heilsu sína, mögulega fyrir fullt og allt, vegna þess að Reykjavíkurborg finnst við bara vera móðursjúk og sér ekki vandann. Við vitum að við erum ekki ein í þessum vanda en það gerir okkar ástand ekkert betra,“ segir Helga

Ekki raunhæft að vinna annars staðar

Ágústa Jónsdóttir hefur verið frá störfum vegna veikinda um nokkra hríð eftir störf í skólanum um áratugaskeið. 

Ágústa Jónsdóttir.
Ágústa Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er því ekki raunhæfur möguleiki fyrir mig að sækja um vinnu annars staðar. Það ræður enginn kennara sem kemur kannski til starfa og kannski ekki. Ef ég má mæta til vinnu í Laugarnesskóla í haust veit ég ekki hvað ég kem til með að gera. Ég hef verið umsjónarkennari í rúm 20 ár en eins og málin standa er ekki hægt að skrá mig sem umsjónarkennara því það er með öllu óvíst hvort ég mæti,“ segir Ágústa í samtali í sumar. 

mbl.is fékk þær upplýsingar nýlega að Ágústa ætlaði að prófa að hefja störf í mánuð á þessu skólaári en tæki ekki að sér umsjón yfir bekk.

Sá svarta tauma leka niður veggina 

Kristinn Svavarsson fyrrverandi aðstoðarskólastjóri var sá fyrsti sem fór í veikindaleyfi vegna myglunnar fyrir nokkrum árum. Raunar færði hann sig til í starfi og starfaði á skólaskrifstofu þar sem hann gat ekki hugsað sér að sitja aðgerðalaus.

Kristinn Svavarsson.
Kristinn Svavarsson. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var sá fyrsti sem fór í veikindaleyfi vegna þessa. Ég fékk í öndunarfærin eftir að hafa setið á skrifstofunni í þessari drullu. Í stað þess að menn skiptu út míglekum gluggum þá var alltaf verið að tjasla upp á gluggana. Svo einn daginn gerðist það að við sáum svarta tauma leka niður veggina. Þá áttaði maður sig á því að eitthvað væri verulega að,“ segir Kristinn. 

Kristinn er saxófónleikari.
Kristinn er saxófónleikari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hann fór í veikindaleyfi í eitt ár. Kom svo til baka að nýju og kláraði starfsævina. Kristinn er saxófónleikari og hefur alla tíð haft sterk lungu.

„Ég var alltaf með hósta og einhver veikindi en ég hef alla tíð verið heilsuhraustur. En svo fór ég að lokum til læknis og hann skrifaði upp á leyfi fyrir mig. Ég er að vísu svo ofvirkur að það hentaði mér illa þannig að ég fór að vinna á skólaskrifstofunni niðri í bæ,“ segir Kristinn í gamansömum tón

Segir lækninn hafa vitað betur 

Soffía Björg Sveinsdóttir er fyrrverandi starfsmaður í Laugarnesskóla sem þurfti að hætta vegna heilsubrests. Raunar er hún með skemmd í lungum og hjartavandamál sem hún getur ekki annað en hugsað að tengist myglunni.

„Ég var ekki búin að vinna lengi þegar ég spurði skólastjórann hvort það gæti verið mygla í skólanum. Ég fékk strax svarið nei, hér er engin mygla. Þetta var afgerandi svar og því gerði ég ráð fyrir að sá möguleiki hefði verið útilokaður og ég leitaði svara við einkennum mínum og hélt áfram í vinnunni.“

Soffía Björg Sveinsdóttir.
Soffía Björg Sveinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hún leitaði til ofnæmislæknis vegna mikillar þreytu og sífelldra veikinda.

„Læknirinn spyr mig hvort það sé mygla í kringum mig því þetta líti þannig út. Ég svara því neitandi. Stuttu seinna greinist mygla í skólanum og ég fer aftur til ofnæmislæknisins sem sagðist hafa vitað hvað ég væri að fara að segja þegar hún sá að ég pantaði aftur tíma. Hún vissi að einkennin væru vegna myglu,“ segir Soffía.

Hún fékk í framhaldinu vottorð um að hún gæti ekki farið inn í skólann. Þar vildi hún starfa áfram og segir skólann góðan. Hún fékk því að kenna sund utan húsnæðisins í fyrstu. Vegna aðstæðna sem kröfðust þess að hún mætti á fundi í skólanum ákvað hún hins vegar að segja upp. „Ég fann mig knúna til að segja upp,“ segir Soffía.

Var ekki trúað 

Guðný Pétursdóttir vann sem þroskaþjálfi í skólanum á árunum 2016-2020. Hún segist enn glíma við afleiðingar af því að hafa unnið í húsnæði skólans.

„Ég var send í ofnæmispróf sem sýndi að ég hafði ekki ofnæmi fyrir myglu. Svörin sem ég fékk frá skólanum voru: „Þú ert ekki með ofnæmi fyrir myglu.“ Ofnæmislæknirinn sagði að hann væri að prófa fyrir fjórum tegundum af myglu en það væru til óteljandi afbrigði sem hann væri ekki að prófa fyrir. Samt voru niðurstöðurnar úr þessu prófi teknar gildar um að enn og aftur væri það ég sem væri vandamálið, ekki skólinn,“ segir Guðný sem kveðst hafa neyðst til að segja upp starfi sínu.

Finnst ég hafa brugðist nemendum og foreldrum 

„Verst af öllu er að þrátt fyrir heilsubrestinn finnst mér ég hafa brugðist nemendum mínum og foreldrum þeirra, ég lagði mikinn metnað í starf mitt og mér fannst mjög erfitt að geta ekki fylgt þeim eftir,“ segir Guðný.

Guðný Pétursdóttir.
Guðný Pétursdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er sorglegt að kvartanir mínar voru ekki teknar alvarlega því ég er alveg viss um að það hefði getað komið í veg fyrir heilsubrest annarra starfsmanna, svo ekki sé minnst á möguleg áhrif á nemendur sem hafa gleymst í þessari umræðu.“

Ekki allir sem vildu koma fram 

mbl.is  hefur fengið að heyra sögur um fleira starfsfólk sem glímt hefur við heilsubrest vegna aðstæðna í skólanum. Eru þær frá núverandi starfsfólki sem vinnur í skólanum, fyrrverandi starfsfólki sem glímir enn við heilsubrest og þeim sem hafa fengið heilsuna til baka eftir að hafa hætt kennslu við skólann.

Sumir vildu ekki koma fram undir nafni og vildu ekki segja sögu sína í fjölmiðlum. Aðrir gáfu einungis leyfi fyrir myndbirtingu. Nær allir hafa þó komið á framfæri stuðningi við kennara í skólanum. Þá hefur fólkinu orðið tíðrætt um áhyggjur sínar af heilsufari barnanna.

mbl.is