Ljósanótt verður haldin með gleði í hjarta og verður ekki frestað þrátt fyrir auknar ógnir í samfélaginu.
Ljósanótt verður haldin með gleði í hjarta og verður ekki frestað þrátt fyrir auknar ógnir í samfélaginu.
Ljósanótt verður haldin með gleði í hjarta og verður ekki frestað þrátt fyrir auknar ógnir í samfélaginu.
Þetta segir Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is.
„Reykjanesbær ætlar ekki að draga úr eða hætta við hátíðina, við ætlum ekki að hætta að lifa góðu lífi þrátt fyrir breyttar ógnir í samfélaginu. Ofbeldi verður ekki liðið á okkar bæjarhátíð þar sem gleðin og ljósin eiga að ríkja,“ segir Guðný.
Hátíðin var formlega sett í gær og má segja að ballið byrji í kvöld með glæsilegri dagskrá. Ofbeldi að undanförnu, þá sérstaklega meðal ungmenna, hefur þó valdið áhyggjum meðal margra og var til að mynda tónlistarhátíð frestað í Árbænum.
Ljósanótt er iðulega ein fjölsóttasta útihátíð landsins. Aukinn viðbúnaður verður hjá lögreglunni, barnavernd og Flotanum – flakkandi félagsmiðstöð.
Guðný segir að þétt gæsla verði á svæðinu og hvetur hún íbúa og gesti til að koma og njóta ljósanna.
Það er þéttpökkuð dagskrá fram undan um helgina í Reykjanesbæ og eitthvað um að vera alls staðar. Hafnargatan verður iðandi af lífi alla daga og tvö fyrirtæki munu halda úti tívolí ásamt því að opið verður í verslanir og á söfn.
Sem dæmi má nefna að í kvöld verða tónleikar á kjötsúpusviðinu þar sem m.a. Jón Jónsson, Magnús Kjartansson og Nostalgía munu spila.
Síðustu aldamótatónleikarnir verða haldnir í Hljómahöll og skemmtistaðir í bænum verða þá einnig með þjóðþekkta listamenn að spila. Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson taka helstu slagara Stjórnarinnar á Brons, Club Dub og Daði Ómars verða á Paddy's og Ingó veðurguð verður á Ránni.
Á morgun verður svo hápunkturinn á hátíðinni en hægt er að nálgast ítarlega dagskrá hér.