Heildarfjárheimild til málaflokksins Samstarf um öryggis- og varnarmál fyrir árið 2025 er áætluð um 6,8 milljarðar króna og hækkar hún um tæpa 1,5 milljarða króna frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum.
Heildarfjárheimild til málaflokksins Samstarf um öryggis- og varnarmál fyrir árið 2025 er áætluð um 6,8 milljarðar króna og hækkar hún um tæpa 1,5 milljarða króna frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum.
Heildarfjárheimild til málaflokksins Samstarf um öryggis- og varnarmál fyrir árið 2025 er áætluð um 6,8 milljarðar króna og hækkar hún um tæpa 1,5 milljarða króna frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 sem var kynnt í morgun.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru þær að framlög hækka um 1,5 milljarða króna vegna aukins varnartengds stuðning við Úkraínu, á grundvelli þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, sem var samþykkt á Alþingi í apríl.
„Horft verður sérstaklega til þess að öll framlög til Úkraínu mæti óskum og þörfum Úkraínu hverju sinni. Varnartengdur stuðningur Íslands mun áfram hverfast um framlög í fjölþjóðlega sjóði sem kaupa hergögn og birgðir og tvíhliða verkefni sem grundvallast á beiðnum úkraínskra stjórnvalda eða bandalagsríkja þar sem óskað er eftir sértækum stuðningi og þjálfunarverkefnum sem flest eru unnin í samstarfi við önnur ríki,“ segir í fjárlagafrumvarpinu.
Í fjárlagafrumvarpinu hækka einnig framlög til utanríkismála og alþjóðlegrar þróunarsamvinnu um 4,6 milljarða króna að raunvirði frá fjárlögunum í fyrra eða sem nemur 15,8%. Upphæðinni er að stórum hluta ætlað í stuðning við Úkraínu vegna stríðsins við Rússland.
Alls er heildarfjárheimild til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu fyrir árið 2025 áætluð 15 milljarðar króna og hækkar hún um 1,9 milljarða frá gildandi fjárlögum.
„Markmiðið er að styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í Úkraínu,“ segir í fjárlagafrumvarpinu.
Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru m.a. þær að framlög til málaflokksins hækka um 2,5 milljarða króna vegna aukins stuðnings við mannúðar- og uppbyggingarstarf í Úkraínu á grundvelli þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem samþykkt var á Alþingi í apríl.
„Framlögunum verður varið til verkefna í Úkraínu sem talist geta til þróunarsamvinnu samkvæmt skilgreiningu þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) og þannig stuðla að því að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar varðandi framlög til þróunarsamvinnu eins og kveðið er á um í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028,“ segir í frumvarpinu.