Sjáum til lands í baráttunni við verðbólguna

Vextir á Íslandi | 10. september 2024

Sjáum til lands í baráttunni við verðbólguna

„Það eru öll merki um að íslenskt samfélag sé að ná árangri í baráttunni gegn verðbólgu. Við sjáum fram á bjartari tíma með lægri vöxtum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar hann kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2025 í morgun undir yfirskriftinni: Þetta er allt að koma.

Sjáum til lands í baráttunni við verðbólguna

Vextir á Íslandi | 10. september 2024

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 í …
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru öll merki um að íslenskt samfélag sé að ná árangri í baráttunni gegn verðbólgu. Við sjáum fram á bjartari tíma með lægri vöxtum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar hann kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2025 í morgun undir yfirskriftinni: Þetta er allt að koma.

„Það eru öll merki um að íslenskt samfélag sé að ná árangri í baráttunni gegn verðbólgu. Við sjáum fram á bjartari tíma með lægri vöxtum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar hann kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2025 í morgun undir yfirskriftinni: Þetta er allt að koma.

Sigurður Ingi sagði að í fjárlögunum væru sköpuð skilyrði fyrir lægri vexti og verðbólgu. Fjármunum væri forgangsraðað og lögð áhersla á aðhald í útgjöldum.

„Helsta áskorunin okkar er að ná niður verðbólgu og vöxtum,“ sagði ráðherrann og bætti við að vaxtabyrði heimila hefði aukist þrátt fyrir að skuldahlutfallið væri lágt í sögulegu samhengi. „Við erum einhvers staðar í kringum 2017 eins og staðan er í dag hvað varðar vaxtabyrði heimilanna,“ sagði hann. Það hefði til að mynda verið hærra árið 2013.

Hann sagði unga fólkið á húsnæðismarkaði vera stóra áskorun en að við værum á réttri leið til að kæla niður hagkerfið.

„Við erum að ná jafnvæginu eftir gríðarlega mikið þenslutímabil,“ sagði hann. 

Ráðherrann benti á að ráðist hefði verið í 44 milljarða króna húsnæðisstuðning á þessu ári og að á næsta ári yrði upphæðin um 40 milljarðar.

Fjölbreyttur útflutningur

Sigurður Ingi tók fram að mikill kraftur væri í íslensku samfélagi og benti á að aðeins Króatía væri yfir Íslandi þegar kæmi að hagvexti.

Hann sagði fjölbreyttan útflutning hafa einkennt íslenskt samfélag síðustu ár. Á meðan ferðaþjónustan hefði gefið eftir væru nýjar greinar að vaxa hratt á borð við tæknigreinar, lyfjaútflutning og fiskeldi.

Sigurður Ingi Jóhannsson er hann kynnti frumvarpið.
Sigurður Ingi Jóhannsson er hann kynnti frumvarpið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi nefndi að kaupmáttur hefði vaxið hraðar hérlendis en á öllum hinum Norðurlöndunum, þar sem hann hefði ekki náð sér almennilega á strik eftir Covid-19. Hér hefði aftur á mótið orðið kaupmáttaraukning. Bætti hann við að atvinnuleysi væri lítið hér á landi.

4,1% útgjaldavöxtur

Ráðherrann benti á að ríkisstjórnin hefði hækkað barnabætur og að gjaldfrjálsar skólamáltíðir myndu skila um 12 þúsund króna sparnaði á mánuði vegna eins barns í grunnskóla til hverrar fjölskyldu. Verið væri að hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi og að húsnæðisbætur hefðu verið hækkaðar um 25% á þessu ári.

Hann sagði 4,1% útgjaldavöxt verða á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem er undir meðaltali síðustu ára. Hóflegur útgjaldavöxtur styrkti stöðu ríkissjóðs og aðstoðaði við hjöðnun verðbólgu.

Minni umsvif fimmta árið í röð

„Þetta er fimmta árið í röð sem ríkissjóður er að minnka umsvif sín í hlutfalli af stærð hagkerfisins. Toppurinn kemur þar sem Covid er. Síðan höfum við markvisst verið að ná umsvifunum niður án þess að taka kollsteypur,“ sagði Sigurður Ingi og nefndi að afkoma ríkissjóðs myndi batna um 16 milljarða króna en um 70 milljarðar króna færu í vexti á næsta ári.

„Eftir þenslutímabil sjáum við til lands í baráttunni við verðbólgu og þess vegna segjum við: Þetta er allt að koma.“

mbl.is