Síðustu misserin höfum við búið við alltof háa verðbólgu og vexti sem koma tímabundið niður á lífsgæðum okkar. Markviss skref eru stigin í átt að meira jafnvægi í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár og innan skamms munum við sjá árangurinn af erfiðinu sem samfélagið hefur tekið á sig.
Síðustu misserin höfum við búið við alltof háa verðbólgu og vexti sem koma tímabundið niður á lífsgæðum okkar. Markviss skref eru stigin í átt að meira jafnvægi í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár og innan skamms munum við sjá árangurinn af erfiðinu sem samfélagið hefur tekið á sig.
Síðustu misserin höfum við búið við alltof háa verðbólgu og vexti sem koma tímabundið niður á lífsgæðum okkar. Markviss skref eru stigin í átt að meira jafnvægi í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár og innan skamms munum við sjá árangurinn af erfiðinu sem samfélagið hefur tekið á sig.
Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld að lokinni stefnuræðu forsætisráðherra.
„Auðvitað er skiljanlegt að fólk vilji sjá hraðari atburðarás, auðvitað er skiljanlegt að pólitískir andstæðingar vilji nýta þreytu samfélagsins á verðbólgunni til að komast að áður en fólk fer að upplifa auðveldari mánaðamót,“ sagði Sigurður Ingi.
„Það er einfalt að hrópa hæðnislegar athugasemdir til þeirra sem standa í eldlínunni. Einfalt að koma með hnyttnar líkingar. En það eru ekki merkileg stjórnmál sem byggja á hæðni fremur en samvinnu og dugnaði.“
Fjárlög ríkisstjórnarinnar voru kynnt í gær en forsvarsmenn minnihlutans hafa síðan þá gagnrýnt þau harðlega, sérstaklega að ekki væri nægjanlega mikið gert til að vinna á verðbólgunni.
Sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar að ríkisstjórnin hefði misst af síðasta tækifærinu til að vinna á verðbólgunni. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði ekkert benda til þess í fjárlögum að hægt væri að ná lægri verðbólgu og vöxtum og sakaði ríkisstjórnina um að tala sig upp í meistaratitla.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði fjárlögin lituð af kosningaloforðum og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði ríkisreksturinn rót verðbólgunnar.
Í ræðu sinni í kvöld sagði Sigurður Ingi að mikið hefði áunnist síðan ríkisstjórnin tók við fyrir sjö árum síðan en að samfélagið hefði líka þurft að takast á við erfið verkefni á borð við eldsumbrot og heimsfaraldur.
„Í heimsfaraldrinum var ríkissjóði beitt af fullu afli til að milda áhrifin af þeirri fordæmalausu stöðu sem við stóðum frammi fyrir og vissum ekki hvenær tæki enda. Ríkissjóði var beitt til að tryggja afkomu fólks. Þá þótti stjórnarandstöðunni ekki nóg að gert. Nú þykir henni of langt hafa verið gengið í baksýnisspeglinum. Útsýnið af hliðarlínunni er misgott,“ sagði Sigurður Ingi, sem nefndi það fyrr í ræðunni að veðrið í sumar væri líklega það eina sem ríkisstjórninni hefði ekki verið kennt um.
Sigurður Ingi sagðist sjá fram á mjúka lendingu hagkerfisins. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og langtímakjarasamningar réðu þar mestu um.
Honum var einnig tíðrætt um sterkt atvinnulíf og lítið atvinnuleysi hér á landi og sagði þetta tvennt vera grunninn að lífsgæðum Íslendinga.
„Það er nefnilega svo að þegar talað er um lága verðbólgu á Spáni þá búa Spánverjar við tæplega 12 prósent atvinnuleysi þegar atvinnuleysi á Íslandi er 3,3 prósent. Atvinnuleysi í Svíþjóð er 8,5 prósent og það er svipað í Finnlandi. Atvinnuleysi yngsta hópsins hér á Íslandi er milli átta og níu prósent – býsna hátt. Á Spáni er það hins vegar 27% og í Svíþjóð og Finnlandi um og yfir 20 prósent. Myndum við sætta okkur við slíkar atvinnuleysistölur? Það held ég ekki. Af því að atvinnuleysi fylgir vanmáttartilfinning sem er óholl fólki og samfélögum,“ greindi Sigurður Ingi frá í ræðu sinni.
Loks sagði hann samfélagsmiðla hafa breytt samskiptum fólks og að við værum orðin tvístraðri sem samfélag. Slíkt ýtti undir skautun og einangrun.
„Það hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú að við horfum á það sem sameinar okkur fremur en að ýkja sérstöðu okkar, bæði sem manneskjur og samfélag.“