Inga Lind Karlsdóttir tók nýverið til í fataskápnum og gaf nokkrar merkjavöruflíkur til verslunarinnar Elley á Seltjarnarnesi. Í Elley er einungis hægt að greiða með því að leggja inn á Kvennaathvarfið og því eru öll fataframlög beinn styrkur við athvarfið.
„Við fáum afar mikið af vönduðum flíkum til okkar og erum óendanlega þakklát fyrir hvert einasta framlag. Það hjálpar að fötin eru hengd upp strax og fá viðeigandi verðmiða. Þannig eru margir sem styrkja Kvennaathvarfið nær samdægurs um þúsundir króna með framlögum sínum,“ segir Sigríður Marta Harðardóttir, eigandi Elley.
Hún segir Ingu Lind hafi meðal annars gefið frá sér dragt frá Isabel Marant, þrjá Dolce & Gabbana kjóla, skó og peysur.
„Það er líka gott að gefa af sér eins og flestir vita. Þá fer orkan afar hátt og þú getur viljað gera meira fyrir náungann en það sem þú vilt fyrir sjálfan þig. Þá verður allt mögulegt, bæði fyrir þig og aðra. Það er engin samkeppni eða afbrýðissemi heldur einungis samkennd, kærleikur og hamingja. Hvernig maður gefur af sér er í raun mikilvægasta spurning sem hægt er að spyrja sig og er ástæðan á bakvið stofnun Elley. Hvert einasta framlag sem hefur borist Elley hefur borist með bros á vör, enda kemur hamingjan innan frá.“