Segir vefverslunina mikil vonbrigði

Vín í verslanir | 13. september 2024

Segir vefverslunina mikil vonbrigði

Heilbrigðisráðherra segir það veruleg vonbrigði að Hagkaup séu byrjuð með vefverslun áfengis.

Segir vefverslunina mikil vonbrigði

Vín í verslanir | 13. september 2024

Willum er ekki ánægður með veigar.eu.
Willum er ekki ánægður með veigar.eu. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristinn

Heilbrigðisráðherra segir það veruleg vonbrigði að Hagkaup séu byrjuð með vefverslun áfengis.

Heilbrigðisráðherra segir það veruleg vonbrigði að Hagkaup séu byrjuð með vefverslun áfengis.

„Það eru bara mikil vonbrigði. Ég horfi til samfélagslegrar ábyrgðar og ég horfi til lýðheilsustefnu og stefnu ríkisstjórnarinnar. Þeirrar stefnu sem við erum raunverulega búin að sameinast um sem samfélag og er greypt í stein í lagaákvæðum,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun.

Segir einokun vera til að vernda börn og unglinga

Ný vef­versl­un með áfengi hefur verið opnuð, veigar.eu, og munu viðskipta­vin­ir geta sótt vör­urn­ar sem þeir kaupa í Skeif­una þar sem starfs­fólk Hag­kaupa hef­ur tekið þær til. Þá er einnig hægt að fá vör­una senda víðs veg­ar um landið.

Willum segir að það komi skýrt fram í markmiðsákvæði laga um sölu áfengis að hér á landi sé einkasala „og viljum takmarka aðgengi að áfengi með þeim hætti“.

Segir hann að þetta sé sérstaklega gert til að vernda börn og unglinga og bætir því við að foreldrasamtök og heilbrigðisstarfsmenn vilji halda í einokun.

Willum Þór á leiðinni á ríkisstjórnarfund í morgun.
Willum Þór á leiðinni á ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við viljum draga úr neyslu“

Í vefversluninni verður kraf­ist tvö­faldr­ar auðkenn­ing­ar með ra­f­ræn­um skil­ríkj­um til að staðfesta kaup, fyrst við kaup og svo aft­ur við af­hend­ingu. Þá er ÁTVR með fjölda verslana á höfuðborgarsvæðinu og þar á meðal í Skeifunni.

Spurður hvort það sé raunverulega verið að auka aðgengi í ljósi þess segir Willum:

„Það eru fjölmörg atriði sem eru tryggð með því að hafa þetta á einni hendi. Meðal annars opnunartími, eftirlit með því að virða aldurstakmörk og svo framvegis. Þetta skiptir allt mjög miklu máli þegar við erum að horfa til þessa. Sama gildir um auglýsingar, þannig að það eru fjölmörg atriði sem hafa áhrif á neyslu,“ segir hann og bætir við:

„Við viljum draga úr neyslu því áhrifin eru óæskileg á samfélag. Þess vegna er þetta okkar sameiginlega samfélagslega markmið og það hefur náðst sátt um það. Þess vegna eru þetta mikil vonbrigði út frá lýðheilsusjónarmiði.“

mbl.is