Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna, segir stöðu ríkisstjórnarinnar ágæta. Hann segist ekki hafa hótað stjórnarslitum í gærmorgun þegar til stóð að flytja palestínska drenginn Yazan Tamimi úr landi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna, segir stöðu ríkisstjórnarinnar ágæta. Hann segist ekki hafa hótað stjórnarslitum í gærmorgun þegar til stóð að flytja palestínska drenginn Yazan Tamimi úr landi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna, segir stöðu ríkisstjórnarinnar ágæta. Hann segist ekki hafa hótað stjórnarslitum í gærmorgun þegar til stóð að flytja palestínska drenginn Yazan Tamimi úr landi.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ákvað að fresta brottvísun drengsins og fjölskyldu hans eftir að Guðmundur bar upp beiðni þess efnis innan ríkisstjórnarinnar.
Spurður út í atburðarásina tekur Guðmundur fram að hann hafi áður tekið mál Yazans til umræðu í ríkisstjórn.
„Ég gerði það í sumar, vegna þess að hér er um mjög sérstakt mál að ræða. Hér er um að ræða langveikt og fatlað barn sem hefur verið inni og út af spítala. Þannig að ég hafði áhyggjur af þessu og þess vegna fannst mér ekki óeðlilegt, í ljósi þess að allt í einu var komið að þessari brottvísun mjög stuttu áður en það rennur út sá frestur að barnið fái hér efnismeðferð, að óska eftir frestun á málinu þannig að það væri hægt að ræða þætti ríkisstjórnar sem snúa að þeirri stöðu sem þetta barn er klárlega í.“
En hvernig fer þetta fram, þarna eldsnemma um morguninn?
„Ég hef beint samband við forsætisráðherra, ég greindi honum frá því að ég vildi óska eftir því að við gætum tekið umræðu um þetta inni í ríkisstjórn,“ segir Guðmundur.
„Hann varð við því, það er að segja, hann hafði þá samband við Guðrúnu.“
Gafstu í skyn að VG myndi ekki líða það að honum yrði vísað úr landi?
„Ég hótaði ekki stjórnarslitum, ef það er spurningin.“
Hver er staðan í þessu máli? Verður honum vísað úr landi á næstu dögum?
„Málið er náttúrlega bara inni í kerfinu. Hér var beðið um frestun og það var orðið við því, enda hafði ég áður vakið máls á þessu máli í ríkisstjórn,“ segir Guðmundur.
Bendir hann á að Yazan sé kominn aftur inn á spítala sem sýni að staða hans sé viðkvæm.
Hvað munu Vinstri græn gera ef honum verður vísað á brott eftir fjóra daga áður en fresturinn líður?
„Ég ætla ekki að úttala mig um það. Ég ætla ekki að úttala mig um hvað gerist ef eitthvað gerist.“
En er ekki líklegasta niðurstaðan að honum verði vísað úr landi?
„Málið er áfram í ferli. Ég útiloka ekkert neitt í því. Það styttist í þennan frest. Það þarf auðvitað undirbúning fyrir svona mál. En þetta kom mér mjög á óvart, þegar þetta gerist aðfaranótt mánudagsins.“
Guðrún Hafsteinsdóttir sagði í Silfrinu í gær að hún væri ekki viss um að hún hefði lagaheimild til þess að stöðva brottvísun og hún stöðvar auðvitað lögregluaðgerð sem er í gangi. Finnst þér í lagi að ráðherra í ríkisstjórn grípi til aðgerða sem mögulega engin lagastoð er fyrir?
„Hér er náttúrlega um frestun að ræða, þetta er ívilnandi gagnvart viðkomandi einstaklingi. Ég sé ekki að það sé verið að brjóta á neinum með því að fresta þessari framkvæmd. Það er oft sem einhverjum framkvæmdum á ýmsum sviðum er frestað þó svo að það feli ekki í sér ákvörðun um að hætta við það.“
Guðmundur heldur áfram:
„Við erum að horfa til þess að um er að ræða barn sem var tekið af hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítalans fyrir langveik og fötluð börn og það setur maður spurningarmerki við.
Ég vil að við áttum okkur betur á stöðu barnsins gagnvart því að hafa verið inni á Landspítalanum þegar þetta gerist núna. Núna er barnið á Barnaspítalanum ef ég skil þetta rétt. Þannig að það þarf auðvitað að taka tillit til þess líka.“