Ræddu við skólasystkini stúlkunnar í dag

Manndráp við Krýsuvíkurveg | 17. september 2024

Ræddu við skólasystkini stúlkunnar í dag

„Það er sérstaklega mikilvægt að við tökum ekki þátt í að ýta undir sögusagnir á samfélagsmiðlum og að við hjálpum börnunum okkar að greina á milli hvað eru staðreyndir og hvað eru bara sögusagnir,“ segir séra Arna Ýrr Sigurðardóttir í samtali við mbl.is.

Ræddu við skólasystkini stúlkunnar í dag

Manndráp við Krýsuvíkurveg | 17. september 2024

Kolfinna Eldey bjó í Grafarvogssókn.
Kolfinna Eldey bjó í Grafarvogssókn. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er sérstaklega mikilvægt að við tökum ekki þátt í að ýta undir sögusagnir á samfélagsmiðlum og að við hjálpum börnunum okkar að greina á milli hvað eru staðreyndir og hvað eru bara sögusagnir,“ segir séra Arna Ýrr Sigurðardóttir í samtali við mbl.is.

„Það er sérstaklega mikilvægt að við tökum ekki þátt í að ýta undir sögusagnir á samfélagsmiðlum og að við hjálpum börnunum okkar að greina á milli hvað eru staðreyndir og hvað eru bara sögusagnir,“ segir séra Arna Ýrr Sigurðardóttir í samtali við mbl.is.

Arna Ýrr er sóknarprestur í Grafarvogi þar sem Kolfinna Eldey, 10 ára stúlkan sem fannst látin við Krýsuvíkurveg á sunnudaginn, bjó og sótti skóla. Hún hefur ásamt fleirum veitt aðstandendum og skólafélögum Kolfinnu áfallahjálp í dag og í gær.

Forgangsverkefni

„Við erum öll miður okkar yfir þessu og það er forgangsverkefni hjá okkur núna að halda utan um fjölskylduna hennar og skólann sem hún var í, bæði börn og starfsfólk í þeim skóla,“ segir Arna Ýrr og bætir við að margir komi að því verkefni.

„Í skólanum í dag voru tveir prestar ásamt skólastjórnendum, starfsfólki frá Austurmiðstöð, heilsugæslunni og Rauða krossinum.

Við ræddum við öll börnin og síðan var líka haft samband við foreldra en við munum halda áfram að halda utan um þann hóp,“ segir Arna.

Áhersla lögð á staðreyndir

Arna segir að í samtölunum við skólasystkini Kolfinnu í dag hafi verið lögð rík áhersla á það að forðast sögusagnir.

„Við lögðum mjög mikla áherslu á það að halda okkur við staðreyndir málsins. Það er mikilvægt að staðreyndum sé ekki haldið frá börnum en um leið að við séum ekki að grípa einhverjar sögur á lofti og ímynda okkur ýmislegt út frá því.

Börn hafa líka mjög ríkt ímyndunarafl og það er mjög mikilvægt að við hjálpumst að við að halda okkur við staðreyndir í þessu máli,“ segir hún.

„Við leggjum áherslu á það við börnin að þau taki ekki þátt í þessari umræði,“ segir Arna Ýrr og bætir við:

„Við töluðum um þetta í morgun og báðum þau um að einbeita sér frekar að því núna að tala við vini sína, tala við fjölskylduna sína og tala við fólkið í skólanum heldur en að fara inn í heim samfélagsmiðlanna þar sem þú veist í rauninni aldrei hver það er sem að mætir þér.“

Hefur áhrif á alla

Spurð hvernig verði áfram stutt við börnin og aðra aðstandendur segir Arna Ýrr:

„Við erum svolítið í miðjum storminum og erum dálítið að átta okkur á því hvað snýr upp og niður og tökum einn dag í einu eins og er.

Við munum að sjálfsögðu halda vel utan um þennan hóp áfram og biðja fólk um að halda vel utan um hvort annað áfram í þessu samfélagi hér í Grafarvoginum og á öllu landinu.

Við verðum öll fyrir áhrifum þegar svona hræðilegir atburðir gerast, hvað þá með svona stuttu millibili.“

mbl.is