„Á öllum mínum meðgöngum hef ég stundað jóga“

Meðganga og fæðing | 18. september 2024

„Á öllum mínum meðgöngum hef ég stundað jóga“

„Eftir að ég varð ljósmóðir og fór að upplifa hvað jóga getur hjálpað konum mikið í fæðingum, líkt og ég hafði upplifað sjálf í fæðingunum mínum, fann ég að þarna gæti ég miðlað eigin reynslu sem ljósmóðir í gegnum meðgöngujógakennsluna,“ segir Sunna María Schram, ljósmóðir og meðgöngujógakennari. 

„Á öllum mínum meðgöngum hef ég stundað jóga“

Meðganga og fæðing | 18. september 2024

Sunna segir ljósmóðurfræðin og jógafræðin eiga margt sameiginlegt.
Sunna segir ljósmóðurfræðin og jógafræðin eiga margt sameiginlegt. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir að ég varð ljósmóðir og fór að upplifa hvað jóga getur hjálpað konum mikið í fæðingum, líkt og ég hafði upplifað sjálf í fæðingunum mínum, fann ég að þarna gæti ég miðlað eigin reynslu sem ljósmóðir í gegnum meðgöngujógakennsluna,“ segir Sunna María Schram, ljósmóðir og meðgöngujógakennari. 

„Eftir að ég varð ljósmóðir og fór að upplifa hvað jóga getur hjálpað konum mikið í fæðingum, líkt og ég hafði upplifað sjálf í fæðingunum mínum, fann ég að þarna gæti ég miðlað eigin reynslu sem ljósmóðir í gegnum meðgöngujógakennsluna,“ segir Sunna María Schram, ljósmóðir og meðgöngujógakennari. 

Sunna lauk námi í ljósmóðurfræði árið 2020 og hefur starfað á fæðingarheimili Bjarkarinnar síðustu ár. Fyrr á þessu ári lauk hún jógakennaranámi og ætlar að vera með skemmtilegt námskeið í meðgöngujóga í Jógasetrinu í haust. 

Fann sig fljótt í jóga

Hvernig kynntist þú jóga?

„Ég fór í fyrsta jógatímann upp úr aldamótum, þá nemandi við Menntaskólann í Reykjavík. Ég trítlaði upp í Kramhús í tíma til Ingibjargar Stefánsdóttur.

Það var sterk upplifun að fá tíma og rými til að tengja huga og líkama. Fram að þessu hafði ég stundað fimleika, klassískan ballett og jazzballett, þar sem mestur fókus var að láta líkamann lúta stjórn, láta hann líta vel út fyrir framan spegil með það fyrir augum að geta sýnt fyrir framan áhorfendur.

Í jógatímanum hjá Ingibjörgu, sem var köftugur ashtanga-jógatími, fann ég sterka tengingu við þessa nálgun í hreyfingu, að vitna um líkamann í stað þess að reyna að breyta honum. Ég stundaði jóga með hléum þar til ég varð barnshafandi að frumburðinum mínum, en um leið og ég steig inn í Jógasetrið hjá Auði Bjarnadóttur, til að fara í meðgöngujóga, vissi ég að mig langaði að tilheyra þessum heimi, í barneignarþjónustu.

Auður hefur kennt þúsundum kvenna meðgöngujóga í yfir 20 ár og er algjör frumkvöðull á sínu sviði. Í tímunum hennar lagði hún áherslu á valdeflingu, að anda, treysta og slaka, sem hún skammstafar ÁST. Hún hefur kennt konum og lagt áherslu á haföndnum eða ujjayi-öndun sem er lykilatriði í fæðingum.“

Sunna kynntist jóga á menntaskólaárunum.
Sunna kynntist jóga á menntaskólaárunum. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur jóga gert fyrir þig?

„Jóga hefur verið einhvers konar griðarstaður þar sem ég fæ rými og tíma til að sýna sjálfri mér mildi, heyra betur í innsæinu mínu og frumkrafti. Á öllum mínum meðgöngum hef ég stundað jóga til að undirbúa mig andlega og líkamlega undir fæðinguna og fundið með skýrum hætti hvernig öndunin, sem Auður leggur mikla áherslu á í meðgöngujóga, hefur leitt mig í gegnum hríðirnar og orðið nokkurs konar haldreipi.

Ég átti dásamlega fyrstu fæðingu í Hreiðrinu á Landspítalnum eftir að hafa verið marga mánuði í meðgöngujóga. Seinni tvær fæðingarnar mínar voru ljúfar vatnsfæðingar heima hjá mér, umkringd eiginmanni, börnum og ljósum.“

Af hverju ákvaðstu að byrja að kenna meðgöngujóga?

„Það hafði lengi verið draumur minn að læra að vera jógakennari, ekki síst til að gefa sjálfri mér tíma á mottunni og dýpka mína eigin iðkun. Það gaf því augaleið, þegar ég lauk jógakennaranáminu, að í meðgöngujóga gæti ég samtvinnað þetta tvennt.

Sunna hlaut jógakennaraskírteinið fyrr á þessu ári.
Sunna hlaut jógakennaraskírteinið fyrr á þessu ári. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig nýtir þú ljósmóðurfræðin í meðgöngujóga?

„Ég er svo lánsöm að fá að sinna konum í samfelldri þjónustu á meðgöngu en í Björkinni sinnum við sömu konunum í gegnum allt ferlið, frá 34. viku, í fæðingu, sængurlegu og heimaþjónustu. Sú reynsla gefur okkur ljósmæðrum djúpa innsýn inn í þarfir kvenna, maka og annarra stuðningsaðila. Í jóganu nýti ég mér bæði fræðilega þekkingu, „anatómíu“ og lífeðlisfræði hormóna og áhrif þeirra á fæðingarferlið sem og áðurnefnda reynslu sem kemur með tímanum í starfi okkar. Í kennslunni lauma ég fræðslu um fæðingarhormónin,
hvernig þau virka og hvernig kona getur nýtt sér þessa þekkingu til að hámarka jákvæða
virkni þeirra í fæðingunni.“

Hvernig er að sinna starfi ljósmóður og jógakennara?

„Það vinnur vel saman, sama hugmyndafræðin nýtist á báðum stöðum, þ.e. að treysta líkamanum og ferlinu. Jóga færir mér dýpri slökun og tengingu við eigið innsæi sem ég nýti svo áfram í starfi mínu sem ljósmóðir.“

Hvað felur meðgöngujóga í sér?

„Það er að miklu leyti stund fyrir barnshafandi konu þar sem hún veitir meðgöngunni og krílinu athygli, gefur sér tíma til að setja daglegt amstur til hliðar og tengja inn á öndunina sína sem um leið róar taugakerfið. Í tímunum er sungið og farið með möntrur sem hafa róandi og slakandi áhrif á verðandi mæðurnar. Einnig er farið í gegnum teygjur og aðrar æfingar þar sem hver og ein kona hlustar á líkama sinn. Það er mikilvægt að hreyfa líkamann í gegnum meðgöngutímabilið og teygjur geta hjálpað sogæðakerfinu að minnka bólgur og bjúg. Stoðkerfið nýtur líka góðs af léttum æfingum.“

Sunna með nýjan vin.
Sunna með nýjan vin. Ljósmynd/Aðsend

„Ég reyni að blanda saman ólíkri hreyfingu“

Hvernig hugar þú að heilsunni, bæði andlegri og líkamlegri?

„Ég reyni að blanda saman ólíkri hreyfingu sem samanstendur af léttu skokki, göngum, jóga og dansi. Það er alls ekki langt síðan ég einsetti mér að spyrja mig ekki lengur að því hvort ég ætli að hreyfa mig þann daginn heldur hvernig. Stundum tek ég léttar teygjur á stofugólfin heima og tek labb með hundinn, aðra daga langt hlaup eða heitt og kröftugt jóga.

Ég hef einnig mjög gaman að því að dansa og reyni að komast á námskeið í Kramhúsinu af og til, nú síðast í blöndu af klassískum ballett og jazzballett. Það var algjört nostalgíukast sem og endorfínvíma, ég er sko þrefaldur Reykjavíkurmeistari í freestyle-dansi.“

Hvernig byrjar þú daginn?

„Þar sem ég vinn við heimafæðingar og fæðingar á fæðingarheimili Bjarkarinnar þá er vinnutíminn ansi ófyrirsjáanlegur. Ef það er ekki fæðing þá vakna ég í rólegheitum, drekk morgunbollann í rúminu, gef mér nokkrar mínútur í kertahugleiðslu eða dagbókarskrif, labba með hundinn minn, hana Móu, og fæ mér svo grautinn minn. Eftir það fer ég í vitjanir til sængurkvennanna minna og eða hitti kollega til að ræða nýliðnar fæðingar eða þær konur sem eru væntanlegar. Svo kemur kallið að kona sé komin af stað í fæðingu og þá fer ég til hennar.“

mbl.is